01.03.1929
Efri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í C-deild Alþingistíðinda. (2684)

40. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Halldór Steinsson:

Það bryddir nú sem fyr á gömlum galla hjá hv. 4. landsk. (JBald). Hann hleypur nú sem fyr með rangfærslur og útúrsnúninga. Hann segir, að jeg sje snúinn í þessu máli. Það er mesti misskilningur. Jeg er því hlyntur sem fyr. Hv. þm. segir, að jeg sje að bregða sjer um skilningsleysi. Jeg hefi alls ekki gert það alment. En þegar hann kemur nú í annað sinn með sama vanhugsaða frv., verður ekki hjá því komist að vekja athygli á því, að skilningurinn á þessu máli er ekki sem bestur hjá þessum hv. þm.

Hv. þm. fór að minnast á kaupmennina, án þess að jeg gæfi hið minsta tilefni til slíks, svo að jeg hefi ástæðu til að halda, að það sjeu einmitt kaupmennirnir, sem hafa hleypt þessum geðofsa í þingmanninn, svo að hann ætlar alveg að springa. Hv. þm. heldur, að jeg sje svo velviljaður kaupmönnum, að jeg líti með þeirra hagsmuni fyrir augum á þetta mál. Jeg veit ekki á hverju hann byggir þetta. Jeg hefi ekkert tal átt við þá um málið, og jeg fæ ekki sjeð, hvað þeim kemur þetta við. Jeg fullyrði það, að jeg er eins hlyntur fiskimönnunum og hv. 4. landsk., og jeg vil styðja að því, að einhver lánsstofnun, sem þeim kemur að notum, komist á fót.

Hv. 4. landsk. er mjög ánægður með 6. gr. frv., og telur hana ákjósanlega í alla staði. Þar er jeg honum ekki sammála. Hann segir, að bankarnir láni útgerðarmönnum út á fiskinn, og það sje alveg hliðstætt því fyrirkomulagi, sem gert sje ráð fyrir í þessu frv. En hjer er alt öðru máli að gegna. Stærri útgerðarmenn eiga miklar eignir, sem þeir hafa að veði á bak við lánin. Þetta kemur ekki til greina í þessu tilfelli.

Mjer er það fullkomlega ljóst, að sjómenn eiga ekki greiðan aðgang að bönkunum, og jeg veit, að þeir mundu deyja drotni sínumn bankanna vegna. Þess vegna verður ekki hjá því komist, að þingið hlutist til um að sett verði á stofn sjerstök rekstrarlánadeild fyrir smábátaútveginn, en með alt öðru sniði en hjer er farið fram á.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta. Jeg tel rjett, að málið verði athugað í nefnd, og er ekki vonlaus um, að frv. mætti laga svo, að það gæti komið að einhverjum notum.