01.03.1929
Efri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

40. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það gleður mig, að það kveður við annan tón nú en áðan hjá þm. Snæf., því að mjer fanst hann æstur á móti frv. í fyrstu ræðu sinni, og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, þegar hann var að romsa upp hálfgerðum skömmum um mig og frv.

Jeg er hræddur um, að hv. þm. Snæf. hafi eiginlega aldrei skilið tilgang þessa frv., eða svo virðist, nema svo sje, sem til hefir verið getið, að hann sje aðallega að hugsa um kaupmennina, en þetta frv. er aðallega fyrir sjómennina. Og þegar hann er að tala um, að lán verði illa trygð eftir frv., getur það ekki verið af öðru, en að hann álíti þá verri skuldunauta en kaupmennina, og jafnvel að hann tortryggi sjómennina um að taka veðið og selja það, í stað þess að borga skuldina. (HSteins: Kaupmennirnir setja meiri tryggingu). Því þá það? Það er sama, hvort lántakandinn heitir Copland, býr í Reykjavík og setur 2000 skippund að veði, eða þá að hann heitir Jón Jónsson, býr á Snæfellsnesi og setur ekki nema 2 skippund að veði. Tryggingin er sú sama í báðum tilfellum, þegar jafnhá fjárhæð er lánuð út á hvert skippund af fiski hjá báðum. Hv. þm. finst bara, að þeir menn, sem lifa af vinnu sinni, sjeu svo miklu óráðvandari en hinir. Annað er ekki hægt að fá út úr orðum hans.

Jeg ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, en aðeins að bæta því við, að mjer finst hv. þm. Snæf. sýna þessu frv. talsverðan óvilja, og mjer kom það á óvart, bæði vegna afstöðu hans til málsins í fyrra, og svo vegna þess, að slík lánsstofnun sem þessi gæti komið að miklu gagni fyrir sjómennina í kjördæmi hv. þm.