22.02.1929
Neðri deild: 5. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í C-deild Alþingistíðinda. (2694)

1. mál, lánsfélög

Halldór Stefánsson:

Þegar frv. um rekstrarlán var hjer til umræðu á síðasta þingi, gat jeg þess, að jeg hefði minni trú en margir aðrir á nauðsyn og gagnsemi þeirra ráðstafana, sem farið var fram á í því. Nauðsyn slíkra rekstrarlána handa bændum virðist mjer mjög vafasöm. Mjer er ekki kunnugt um, að bændur hafi á undanförnum tíma átt örðugt með að fá rekstrarlán, a. m. k. ekki þeir, sem hafa staðið í skilum, og jafnvel þótt skilunum hafi verið að meira eða minna leyti ábótavant. Mjer er þess vegna ekki fullljóst, hvers vegna þessi leið er farin.

Í umræðunum um rekstrarlánafrv. í fyrra kom það fram, að aðaltilgangur þess ætti að vera sá, að vinna á móti verslunarskuldunum. Og jeg hefi orðið var við, að margt manna hefir fest trú á því, að svo myndi verða. Mjer þykir þessi trú satt að segja nokkuð barnaleg. Jeg sje ekki, hvernig það eitt má verða til að vinna á móti skuldasöfnun, að veita nýtt og aukið lánstraust. Það er að hengja skóarann fyrir skraddarann. Það er ekki lánstraustsleysið, sem er ástæða til skuldanna, heldur hitt, að ekki hefir verið nógu varlega farið með það lánstraust, sem menn hafa haft. Það er ekki trúlegt, að hægt sje að draga úr skuldunum með því einu, að auka lánstraustið. Og ef menn halda, að það hafi höfuðþýðingu í þessu sambandi, hvort lánstraustið er hjá peningastofnun eða viðskiftaverslun, þá er reynsla um það ekki óþekt hjer á landi. Stórútgerðin hefir fengið bankalán til atvinnurekstrar síns. Og hvernig hefir farið? Hafa engar skuldir orðið þar? Hvað segir reynslan? Stórskuldir og stórtöp. Nei, ástæðan til skuldanna er eigi sú, að menn hafi ekki getað fengið rekstrarlán. Hún er sú, að lánstraustið hefir verið misnotað, bæði af lánveitendum og þeim, sem lánin hafa tekið. Sú misnotkun þarf ekki að stafa eingöngu af óskilsemi. Örðugleikar lífsins valda blátt áfram mestu um hana.

Jeg get ekkert höfuðmein fundið í því, að bændur fái lán hjá þeim verslunum, sem þeir skifta við, milli kauptíða. Meinið er, að slíkum lánum hefir eigi verið haldið innan hæfilegra takmarka. Jeg er þeirrar skoðunar, að skuldasöfnun þurfi meira aðhald frá hálfu löggjafarvaldsins en hún hefir nú. Það, sem þurfi að gera, sje að setja hömlur við því, að lánstraustið sje misnotað. Þess vegna flutti jeg á þingi í fyrra tillögu um að stytta fyrningarfrestinn. Hún fann þá eigi náð fyrir augum hv. þingmanna. Raunar var hún aldrei endanlega afgreidd, en af undirtektum nefndar þeirrar, sem hana hafði til meðferðar, ræð jeg það, að hún hafi átt litlu fylgi að fagna.

Nú vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvort hún beri þetta frv. fram í þeim tilgangi fyrst og fremst, að draga úr skuldaversluninni og hvort hún álíti, að það muni koma að haldi til þess. En eins og jeg hefi áður sagt, sje jeg ekki, að verslunarlán sjeu sjerlega hættuleg, ef aðeins er staðið í skilum með þau á rjettum gjalddögum.

Þá skal jeg geta þess, að mjer þykir rekstrarlánin verða nokkuð bundin, eftir frv. Skilyrðið fyrir láni á að vera það, að lántakendur gangi í fjelag með sameiginlegri ábyrgð. Einstökum mönnum er fyrirmunað að fá þessi lán. Jeg mundi æskja þess, að þetta ákvæði yrði rýmkað, svo að einstökum mönnum yrði ekki ókleift að fá þessi lán. Sömuleiðis mundi jeg kjósa, að starfsemi þessara sveitabanka yrði nokkru víðtækari, ef þeir verða stofnaðir á annað borð. Teldi jeg heppilegt, að þeir önnuðust öll stutt lán, og einnig bústofnslán, og hefðu að öðru leyti milligöngu um sem flestar tegundir viðskifta fyrir landbúnaðarbankann.