06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í C-deild Alþingistíðinda. (2699)

1. mál, lánsfélög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. landbn. fyrir góða vinnu, er hún hefir lagt í þetta frv. Jeg vil og þakka henni fyrir það, að hún leggur til, að frv. verði samþ., þó með nokkrum breytingum sje, sem eru á þskj. 216.

Um þær er nú alment það að segja, eins og líka hv. frsm. landbn. tók fram, að þær leiða til meiri varfærni en samhliða ákvæði frv. Hjer er um nýja starfsemi að ræða, og skiftir vitanlega miklu máli, að. vel sje farið af stað. Ber því eigi að lasta, þótt varlega sje farið í byrjun, enda má liðka síðar, þegar meiri reynsla er fengin. Aðalatriðið er, að vel sje farið af stað, og kemur þá síðar í ljós, hverju þarf að breyta. Og af þeim ástæðum vil jeg eigi gera það að miklu ágreiningsefni nú, þótt mjer finnist landbn. hafa gengið fulllangt í varfærni á sumum sviðum með brtt. sínum.

Eins og hv. frsm. (JörB) gat um, þá kemur 1. brtt. á þskj. 216 og brtt. á þskj. 276 ekki til atkv., vegna afgreiðslu frv. um búnaðarbanka. En í framhaldi af því, sem jeg sagði þá, vil jeg leyfa mjer að benda á það, sem Böðvar Bjarkan lögmaður segir í aths. sínum um 4. gr. a-lið. Þar er þá skýringu á þessu að finna, sem jeg álít alveg rjetta. Hann segir svo, með leyfi hæstv. fors.: „Fjelagsmenn verða allir að stunda einhverja tegund landbúnaðarframleiðslu. Er ætlast til þess, að ekki aðeins bændur taki þátt í fjelagsskapnum, heldur engu síður þeir kaupstaðarbúar og sjávarbændur, sem jafnframt stunda jarðrækt eða einhverja tegund búskapar. Hins vegar þykir ekki fært að láta þessi fjelög ná til annara, svo sem kaupstaðarbúa og útvegsmanna, sem engan landbúskap stunda.“ Jeg vildi minna á þetta, svo að það komi fram, hvernig þetta er hugsað. Vona jeg, að fyrir 3. umr. verði fram komin till., sem allir geti orðið sammála um.

brtt. landbn., sem jeg tel lang þýðingarmesta, er 3. brtt., þar sem lagt er til, að feld verði úr frv. heimildin fyrir sveitabankana til að taka við sparisjóðsfje. Jeg vil halda því fram, að það, að sveitabankamir megi taka móti sparifje manna, sje önnur þungamiðja frv. Og það, að þurfa ekki að taka alt rekstrarfjeð að láni utan að, heldur fá nokkuð af því af sjálfu fjelagssvæðinu sem ávöxtunarfje, mundi bæði gera sveitabankana aflmeiri og sjálfstæðari. Og jeg er alveg viss um, að þetta ákvæði verður aftur tekið upp í framtíðinni, þótt það verði felt úr frv. nú. Og í trausti þess, að allir verði sammála síðar um nauðsyn þess, vil jeg ekki gera þetta að fullu ágreiningsatriði við n. nú. En um mjög mikla skerðingu er hjer að ræða.

Jeg gleymdi að minnast á 2. brtt. n. Hún er um nafnið. Jeg geri það ekki að neinu kappsmáli, hvaða nafn verður valið. En jeg verð að játa, að mjer þykir nafn Böðvars Bjarkans, Sveitabankar, fallegra og glæsilegra en nafn það, sem hv. landbn. leggur til, að tekið verði upp. En brtt. n. er sennilega gerð í samræmi við 3. brtt. hennar. Gæti máske orðið samkomulag síðar um að taka upp nafnið sveitabanki, ef þessum stofnunum verða veitt þau rjettindi, að taka á móti sparifje til ávöxtunar, sem hv. landbn. vill nú nema úr frv.

Þá fer 5. brtt. n. í sömu átt og hinar, um að draga úr starfssviðinu, þar sem hún, ef samþ. verður, fyrirbyggir það, að lána megi fje samkv. lögunum til kaupa á landbúnaðarverkfærum. Jeg hefði ekki getað fallist á þessa brtt., ef ekki væru líkur til, að bætt verði úr þessu með því að setja tilsvarandi ákvæði inn í Búnaðarbankalögin. — Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að lánbeiðnir til verkfærakaupa hafa verið svo miklar nú og í fyrra, að grípa hefir orðið til sjerstakra ráða til að fullnægja þeim. Í fyrra var það Vjelasjóðurinn, sem hljóp undir bagga til bráðabirgða, og nú hefi jeg gert sjerstakar ráðstafanir til þess, að hægt sje að fullnægja eftirspurninni. Nú hefir verið beðið um hjálp til kaupa á yfir 20 dráttarvjelum. Þetta hefir verið gert með það fyrir augum, að bankastofnun landbúnaðarins geti tekið þessi lán að sjer síðar.

Þá er það enn í samræmi við stefnu hv. landbn., að hún vill afnema úr 14. gr. frv., að veðsetja megi framleiðslutæki og jarðarafurðir. — Það má nú máske líta svo á, að það sje nokkuð langt gengið, að gera framleiðslutækin og jarðarafurðirnir að veði fyrir lánum úr þessari stofnun. En þetta mál hefir þó tvær hliðar. Og hin hliðin er sú, að hverju gagni bændum gæti orðið þessi heimild. Með því að nema þetta burt, er þrengt að kosti lántakenda með að fá fje til rekstrar síns, sem gæti orðið þeim til mikilla hagsmuna. Jeg álít, að af brtt. n., þá gangi þessi ekki síst of langt í að þrengja kosti lántakenda.

Jeg hefi svo ekki meira um þetta að segja. Jeg vil ekki setja mig harðlega á móti brtt. landbn. En jeg vona, að það, sem nú verður þrengt í frv., verði aftur rýmkað, þegar reynsla er fengin á þessari starfsemi, a. m. k. eins og nú er í frv.