05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Einar Jónsson:

Það var haft á orði af sumum mönnum, þegar þessu frv. var vísað til landbn., að það væri illa komið í höndum óbankafróðra manna. Og satt er það, að í landbn. er enginn bankafróður maður. En jeg verð að lýsa yfir því, að meðnefndarmenn mínir hafa unnið vel og samviskusamlega að þessu máli, og mjer þykir efamál, að það hefði verið betur gert, þó að í nefndinni hefðu setið bankafróðir menn.

Mjer finst það vera aðalatriðið, hvort þingmenn vilja stofna þennan banka eða ekki. Hvort hugmyndin er risin upp af rekstrarlánafrv. í fyrra eða einhverju öðru, stendur mjer alveg á sama. Jeg minnist á þetta vegna þeirra orða, sem hæstv. forsrh. ljet falla áðan. Jeg er ekki svo hatursfullur í hjarta, að jeg geti ekki veitt viðtöku góðu málefni, hvaðan sem það kemur. Jeg get raunar sagt það, að jeg er ekkert þakklátur, þó að þetta frv. sje hjer fram komið. Jeg sje ekki, að kjör bænda batni mikið við það. Jeg hefi ekki mikla trú á, að landbúnaðurinn hagnist stórlega, þó að það verði samþ. Þó hefi jeg ekki sjeð ástæðu til að gerast meinsmaður frv., úr því að hv. meðnefndarmenn mínir vildu samþ. það.

Þegar um það er að ræða, hvort veita skuli smábátaútveginum eitthvað af þessum lánum, get jeg ekki annað sjeð en það sje alveg rjettmætt. Held jeg, að hv. þm. Borgf. og hv. þm. Vestm. hafi þar á rjettara máli að standa en hv. 1. þm. S.-M. Þó get jeg fallist á það með hv. þm. Vestm., að rjett sje að fresta ákvörðun um það atriði til 3. umr.

Jeg skal ekki tefja hv. deild með löngu máli. Jeg býst ekki við að hafa mikið til brunns að bera þessari stofnun til hagsbóta. Jeg stóð aðallega upp til að þakka meðnefndarmönnum mínum góða afgreiðslu málsins og þá vinnu, er þeir hafa lagt í hana.

En það vil jeg endurtaka, að jeg hefi ósköp litla trú á því, að þetta mál verði landbúnaðinum til bjargar. Og mjer er satt að segja alveg sama, hvort frv. verður drepið eða samþ.