02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

10. mál, útfutningsgjald af síld o.fl.

Ingvar Pálmason:

Jeg hefi ekki miklu að svara hv. 3. landsk. Hann heldur því fram, að bræðslusíld sje hálfu verðminni en síld til söltunar, og byggir það meðal annars á því, að meiri hluti þeirrar síldar, sem í bræðslu fer, sje ekki söltunarhæfur. En þess ber að gæta, að hjer horfir þetta alt öðruvísi við, því þó að síldin sje orðin gömul, getur hún verið gild til bræðslu, þó ónothæf sje hún til söltunar. Þau skip, sem veiða síld í salt, eru bundin við stuttan tíma og verða að haga veiðunum á þann hátt, að síldin sje hæf og góð verslunarvara, þegar henni er skilað í land. En um bræðslusíld hagar öðruvísi til. Þar er áhættan miklu minni, enda er jeg viss um, að ef ekki væri um það að ræða að veiða síld í bræðslu, þá gæti síldarútvegurinn ekki borið sig. Það er sem sje stór kostur að geta haldið áfram að fiska þangað til skipið er fult, í stað þess að binda sig við að koma síldinni í land á meðan hún er hæf til söltunar. Og þó segja megi, að fyrir bræðslusíld fáist minna í bili fyrir hvert kg. til tekna útgerðinni, þá er eigi þar með sagt, að það sje ekki betra í heild fyrir útgerðina en að veiða í salt.

Þá var það eitt, sem hv. 3. landsk. komst að niðurstöðu um, að eftir hrásíldarverðinu gæti bræðslusíld ekki borið helming útflutningsgjaldsins. En það er engin sönnun fengin fyrir því, að framleiðendur fái það verð fyrir bræðslusíld, sem þeir eiga að fá. En aftur á móti er þar öðru máli að gegna um saltsíld. Og ef hv. þm. vildi líta svolítið aftur í tímann og bæri saman verðið, sem fengist hefir fyrir þessar tvær tegundir síldar, þá býst jeg við, að dæmið mundi snúast við, því að það hefir oft orðið sú raun á, að litlu hærra verð hefir fengist fyrir síld til söltunar, þegar meðalverð er tekið, heldur en fyrir þá síld, sem farið hefir í bræðslu. Að vísu er það svo, að þegar hæfilega mikið er saltað af síld, svo það aðeins nægir til að fullnægja eftirspurn, svo sem hægt var að gera síðastliðið sumar, þá er hægt að halda saltsíldarverðinu uppi, og í þeim tilfellum verður bræðslusíldarverðið nokkru lægra.

Þá sagði hv. sami þm. ennfremur, að með því fyrirkomulagi, sem er, væri það útilokað, að útflutningsgjaldið lenti á öðrum en framleiðendum. Þetta má kannske segja um saltsíld, en meiri líkur eru til, þegar um bræðslusíld er að ræða, að tollurinn lendi á fleirum en framleiðendum. Þetta virðist mjer því ekki allskostar rjett, sem hv. 3. landsk. heldur fram; því þegar menn kaupa síld með hagnaðarvon, er líklegt, að tollurinn dreifist á fleiri. En svo er ekki um saltsíld með því fyrirkomulagi, sem nú er á sölu hennar.

Þá kom hv. 3. landsk. að síðustu að því, að frá minni hendi vantaði ástæður fyrir því, að slíks tollauka væri þörf fyrir ríkissjóðinn. En jeg hefi ekki borið fram þessar till. með það aðallega fyrir augum að afla ríkissjóði tekna, heldur miklu fremur til þess að gera tollinn samrýmanlegan á hinum ýmsu vörutegundum, sem unnar eru úr síldinni. Um hitt skal jeg ekkert fullyrða, hvað þetta mundi nema fyrir ríkissjóð, en sennilegt er, að það mundi aldrei fara fram úr 80 –100 þús. kr. á ári. Um þetta vil jeg þó ekkert staðhæfa að svo stöddu.

Annars vildi jeg segja það, að mig furðar dálítið á því, að hv. 3. landsk. skuli amast við tekjuauka ríkissjóði til handa. Mjer er kunnugt um, að hann lítur svo björtum augum á fjárhag ríkisins, að hann vill nú láta hefjast handa um ýmsar framkvæmdir, sem óumflýjanlegt er, að hafi allmikil útgjöld í för með sjer, og ætti því frá hans sjónarmiði sjeð ekki að vera slíkum framkvæmdum til skaða, þó að eitthvað bættist við tekjur ríkissjóðsins.

En eins og jeg drap á, eru brtt. þessar ekki bornar fram sem tekjuauki handa ríkissjóði, heldur til samræmis, svo að útflutningsgjaldið eða tollurinn verði ekki óhæfilega hár á einni vöru frekar en annari. Þess vegna tel jeg rjett að reyna nú þá leið að hækka tollinn á samkynja vörum, sem bera nú, að því er mörgum finst, eðlilega lágan toll.