06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (2705)

1. mál, lánsfélög

Jón Sigurðsson:

Mig langar að segja hjer örfá orð, án þess þó að jeg ætli með þeim að fara að aðstoða hv. frsm. (JörB), enda er hann sjálffær að halda á málinu fyrir n. hönd.

Jeg vildi þá byrja með að láta gleði mína í ljósi yfir því, hve hugmyndin um aukin rekstrarlán landbúnaðinum til handa virðast eiga hjer nú miklum vinsældum að fagna. Jeg er sannfærður um, að engin tegund lána verður jafn alment notuð eins og rekstrarlánin, enda mun þörf þeirra vaxa í framtíðinni og þau þá koma til að ná til hvers manns, sem í sveitum býr, og jafnvel margra kaupstaðabúa líka, og gera þeim kleift að haga verslun sinni og viðskiftum á alt annan og hagfeldari veg en nú er.

Jeg vil líka tjá hæstv. atvmrh. þakkir fyrir það, hvernig hann tók í till. n. Hafði jeg þó búist við, eftir því sem honum fórust orð í gær, að honum þætti n. fara of varlega í till. sínum. En við vildum fara gætilega á stað og láta reynsluna skera úr, hvort auka þyrfti við síðar. En um þá till. nefndarinnar fór þó annan veg en búast mátti við. Var henni illa tekið, svo tillagan fjell, og þess vegna er bústofnslánadeildin hreinn óskapnaður, eins og hún er nú, en það liggur hjer ekki fyrir.

Þá þótti mjer og vænt um þá yfirlýsingu hæstv. atvmrh., sem jeg falaðist eftir í gær, um afstöðu þeirra manna til að njóta rekstrarlána, sem stunda sjó að einhverju leyti. Svör hæstv. ráðh. voru skýr og ljós, — gagnstætt því, sem svör hans voru í gær, — nú lýsti hann því eindregið yfir, að kaupstaðarbúar, sem hefðu einhverja landbún.framleiðslu, ættu að sjálfsögðu að fá rekstrarlán. Jeg er vel ánægður með þessa yfirlýsingu ráðh., þó að hún komi seint.

Þá voru það bústofnslánafjelögin, sem hv. 1. þm. N.-M. var að tala um, sem jeg vildi minnast lítillega á. Jeg get tekið undir með hv. þm., að slíkur fjelagsskapur er góð hugmynd og gagnleg, en mjer er ekki kunnugt um, að þessi fjelög hafi tíðkast annarsstaðar en á Austurlandi. Og þar sem gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að slík fjelög gætu fengið lán til þess að auka bústofn bænda, þá mun það hafa verið venjan, að viðkomandi hreppsfjelag væri lántakandinn. En eftir brtt. hv. 1. þm. N.-M. skilst mjer, að það sjeu bústofnslánafjelögin sjálf, sem eiga að taka lánið, hvert fyrir sig. Nú er það svo, að ef fjelögin eiga að njóta slíkra hlunninda, þá virðist mjer óhjákvæmilegt, að löggjöfin setji einhver skilyrði þar um, eða semji einskonar ramma utan um slík ákvæði. En samkvæmt brtt. hv. þm. er ekki um neinn slíkan ramma að tala. (HStef: Hann felst í brtt. mínum). Það er þá a. m. k. mjög óljóst orðað, ef á að vera hægt að draga slíkt út úr till. hans. Fjelagsskapur þessi er að vísu með líku sniði og gert er ráð fyrir með rekstrarlánafjelögin, en lögformlega er því ekki yfirlýst.

Jeg skal játa, að jeg er því hlyntur, að fjelög þessi hafi aðgang til bústofnslána. En mjer skilst, að þá þyrfti að setja lög um það, hvernig slíkum fjelögum yrði fyrir komið til staðfestu því, að þau geti notið fullnægjandi lánstrausts.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Mjer skilst, að allir sjeu orðnir ásáttir um það, að till. n. sjeu til bóta, og vænti því, að þær nái fram að ganga.