17.05.1929
Efri deild: 73. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (2721)

1. mál, lánsfélög

Frsm. 1. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Þetta frv. um lánsfjelög er nátengt frv. um Búnaðarbanka, þar sem þessar stofnanir eru eiginlega ein deild af honum, enda varð það samferða Búnaðarbankafrv. í Nd. Þetta frv. hefir samt átt erfiðara uppdráttar hjer, þar sem það er nú orðið hálfum mánuði á eftir hinu. — Jeg hefi gert grein fyrir áliti mínu á frv. í nál. á þskj. 623, og tek þar fram, að mjer finst sjálfsagt, að frv. verði að lögum nú, eins og bankafrv., því fremur sem það er fult eins merkilegt og bankafrv. sjálft. Það, sem þetta frv. stefnir að, er aðallega það, að útvega bændum rekstrarlán, til þess að þeir geti í framtíðinni verslað skuldlaust meira en verið hefir, haft fulla gát á sínum verslunarmálum og tekið út fyrir peninga, í stað þess að hafa vöruskiftaverslun. Þegar jeg skrifaði nál., var ekkert álit komið frá meðnefndarmönnum mínum, en jeg vissi, að þeir voru ekki sömu skoðunar og jeg, og gerði jeg því ráð fyrir, að jeg yrði minni hluti n., en hinir nefndar- mennirnir yrðu samferða. Það hefir samt ekki orðið. Þeir hafa skrifað tvö nál., hvort á sinn veg.

Mjer þykir frv. hafa tekið miklum breytingum til hins betra í Nd., og vona því, að það verði samþ. sem líkast því, sem það kom þaðan. En jeg get ekki aðhylst nál. á þskj. 670, af því að mjer finst það stefna í öfuga átt við aðalatriði frv., sem sje að fyrirbyggja skuldaverslun.

Jeg ætla ekki að fara mikið inn á brtt., sem fram hafa komið við frv., meðan hv. frsm. hafa ekki gert grein fyrir sínu áliti. Þó skal jeg minnast nokkuð á einstök atriði.

Það, sem mjer þykir athugavert við brtt. á þskj. 670 er, að þessari grein landbúnaðarbankans er heimilað að taka við sparisjóðsinnlögum. Á þann hátt er tekið frá þeim sparisjóðsstofnunum, sem fyrir eru, og það tel jeg illa farið. Það getur að miklu leyti eyðilagt starfsemi sparisjóðanna. Það má vera hv. frsm. vel kunnugt, að sparisjóðir, bæði í hans sveit og minni, standa með miklum blóma. Þeir hafa starfað um langt skeið og safnað talsvert miklu fje í varasjóð, og yfirleitt verið til mikillar hjálpar sem bankastofnun. Jeg býst þess vegna við, að jeg flytji brtt. við 3. umr., þess efnis, að þetta verði felt í burtu, og sparisjóðirnir fái að starfa samhliða þessum hluta landbúnaðarbankans og hver í skjóli annars. Í samræmi við það hefði jeg óskað þess, að samvinnufjelögin yrðu ekki gerð að milliliðum á milli Búnaðarbankans og lánsfjelaganna, af því að jeg er hræddur um, að þá yrði erfitt að útiloka vöruskiftaverslun. Jeg segi þetta ekki af kala við samvinnufjelögin, heldur þvert á móti af góðvilja, af því að jeg álít tryggara fyrir samvinnufjelögin að hafa ekki slíka milligöngu með höndum Jeg held, að happasælast sje að aðgreina sem mest verslun með útlendar og innlendar vörur, því að það er það, sem með þarf, til þess að hægt sje að koma á reglulegri peningaverslun. Það þarf að fyrirbyggja vaxandi skuldasöfnun. Jeg álít verslunarskuldir eitthvert mesta böl þjóðarinnar og þungan bagga fyrir landbúnaðinn. Ef þessu hefði fyr verið kipt í lag, mundi hagur manna standa miklu betur en nú er. Menn yrðu áhugasamari um að versla skuldlaust, ef þeir hefðu peninga til að versla fyrir. Það mundi auka skilsemi manna og glæða ábyrgðartilfinningu þeirra og sjálfstæðishvöt.

En þó að jeg telji frv. gott, finn jeg þó smáagnúa á því, sem mjer finst hægt að laga ennþá. Jeg mun þannig greiða atkv. með brtt. við 13. gr. á þskj. 667, um að lausafjárveð þurfi að víkja fyrir forgangskröfum í búi skuldunauts. Þótt jeg telji nokkra galla á frv., mun jeg fylgja því, en hinsvegar fylgja þeim brtt., er jeg tel til bóta.