17.05.1929
Efri deild: 73. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

1. mál, lánsfélög

Frsm. 2. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það má segja, að landbn. hafi tvístrast í allar áttir í þessu máli, og er það raunar meira en að líkum lætur, þar sem ekki ber svo ýkjamikið á milli.

Jeg hefi flutt eina brtt. við 13. gr., n þar segir svo, að lausafjárveð þurfi eigi að víkja fyrir forgangskröfum í þrotabúi skuldunauts. Geri jeg till. um, að þetta sje felt niður, þar sem jeg tel að mjög varhugavert, ekki síst fyrir lánþega. Er gert ráð fyrir, að hægt sje að veðsetja sjerstakan flokk búpenings, án þess að lýsa hverri einstakri skepnu, eins og nú tíðkast, og til að tryggja þetta, eru feldar niður forgangskröfur þær, er nú hvíla á að lögum. Hv. frsm. 3. minni hl. (JónJ), vill ganga enn lengra í því, að tryggja lánsfjelögin gegn tapi, með því að fjelögin hefðu lögtaksrjett fyrir kröfum sínum. En jeg tel mjög tvíbent að tryggja lánsfjelögin þannig, því að það yrði án efa til að rýra lánstraust þeirra einstaklinga, sem í fjelögunum eru. Það hefir ávalt verið viðurkent til þessa, að kaupgjald ætti að ganga fyrir öðrum kröfum, og þann rjett verkalýðsins vil jeg ekki láta rýra. Jeg held líka, að þetta ákvæði gæti komið sjer illa þar sem svo kynni að geta staðið á, að ríkissjóður ætti kröfu á opinberan starfsmann, og yfirleitt tel jeg ákvæðið í frv. skaðlegt fyrir almenn viðskifti og lánstraust einstaklinga.

Það kann að vera, að jeg geti fallist á eitthvað af till. hv. 6. landsk., en þessi till. um lögtaksrjett er svo varhugaverð, að jeg mundi greiða atkv. gegn frv., ef hún yrði samþ., þótt jeg telji frv. annars til gagns. Jeg álít, að þetta ákvæði myndi rýra lánstraust þeirra manna, sem í lánsfjelögum væru, svo að enginn þyrði að eiga neitt fje hjá þeim, en jeg er ekki viss um, að lánsfjelögin geti komið í stað allra annara lánsstofnana, svo sem sparisjóða og banka.

Jeg tel mikils um vert, að brtt. mín við 13. gr. nái samþykki, og að feld verði niður 2. málsgr., svo sem segir í nál. mínu.

Jeg er ekki viss um, að jeg gæti fylgt frv., ef þannig yrði niður feldur forgangsrjettur verkafólks að ná kaupi sínu úr dánar- og þrotabúum.

Það er rjett, að nú er langt liðið af þingi og erfitt að koma málinu áfram, ef samþ. eru brtt. við það. Hinsvegar tel jeg alls ekki vonlaust, að það næði fram að ganga á þessu þingi fyrir því, og hygg jeg að flestir mundu fúsir að veita afbrigði til þess að flýta fyrir framgangi þess. Jeg játa, að samþ. þess er ekki eins brýn eftir að búið er að samþ. Búnaðarbankann, og hitt get jeg tekið undir með hv. 6. landsk., að bankinn verður ekki fær um að starfa mikið áður en næsta þing kemur saman. Annars mun jeg alls ekki setja fótinn fyrir frv., nema í því verði þessi háskalegu ákvæði, sem jeg hefi getið um.