17.05.1929
Efri deild: 73. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

1. mál, lánsfélög

Frsm. 3. minni hl. (Jón Jónsson):

Hv. 1. þm. G.-K. hefir nú haldið langan fyrirlestur, og efast jeg ekki um, að honum gangi gott til með þessari göfugu hugsjón, sem fyrir honum vakir, að útrýma allri vöruskiftaverslun og skuldaverslun. Slíka viðleitni er manni skylt að virða, hvaðan sem kemur, en um leið og jeg viðurkenni, að nauðsynlegt sje að stefna að því, að útrýma verslunarskuldunum, þá get jeg ekki orða bundist um það, að mjer þótti anda kalt frá hv. 1. þm. G.-K. til samvinnufjelaganna. Það er einmitt eitt af aðalverkefnum samvinnufjelaganna að stuðla að því, eftir getu sinni, að útrýma verslunarskuldum. Og þó að kannske mætti segja, að þetta hafi mistekist enn að nokkru leyti, eða við ekki kent þess eins fljótt og æskilegt hefði verið, þá stefnum við þó í rjetta átt, t. d. með sjóðsöfnun og öðru þess háttar, en þar er grundvöllurinn, sem bygt verður á í þessu efni.

Annars verð jeg að andæfa ýmsu í ræðu hv. 1. þm. G.-K., því að hann sagði mörg ósanngjörn orð um samvinnufjelögin og starfsemi þeirra. Hann hjelt því fram í upphafi ræðu sinnar, að Landsbankinn hefði gefið samvinnufjelögum eftir stórfje, í stað þess að láta S.Í.S. borga.

En setjum svo, að S.Í.S. hafi ekki borgað nema helminginn af því, sem því bar að borga, þá mótmæli jeg algerlega sem staðlausum stöfum, að S.Í.S. hafi þegið slíka eftirgjöf. Menn mega ekki rugla saman því, sem kann að hafa gerst í einstökum kaupfjelögum. Þeim skuldbindingum, sem kaupfjelag Húnvetninga tekur á sig, ber kaupfjelag Skagfirðinga ekki ábyrgð á að neinu leyti, nema í viðskiftum við S. Í. S., svo að þessu leyti er samábyrgðin ekki eins víðtæk og hv. 1. þm. G.-K. vill halda fram.

Hv. þm. vildi halda því fram, að bankarnir hefðu tapað ekki svo litlu af þessum 20 milj. kr. á samvinnufjelögunum. Jeg býst nú samt við, að hv. þm. eigi erfitt með að finna þessum orðum sínum stað, þó að hann sje ef til vill kunnugur þessum málum. Bankarnir hafa aðallega tapað á kaupmannastjettinni, en það er alveg áreiðanlegt, að þeir hafa ekki tapað einum einasta eyri á Sambandinu.

Þá talaði hv. þm. um, að Sambandið nyti einhverra fríðinda hjá Landsbankanum. Jeg býst nú ekki við, að það njóti þar neins, sem hægt er að kalla fríðindi, frekar en aðrir góðir viðskiftamenn, en Sambandið er áreiðanlega stór og góður viðskiftavinur Landsbankans. Sambandið þarf heldur engin fríðindi. Það hefir nóg lánstraust alstaðar. Jeg get nefnt það sem dæmi, að Sambandið stendur í stöðugum viðskiftum við tvo stóra banka í Englandi og fær hjá þeim alt lánsfje, sem það þarf til ensku viðskiftanna.

Hv. þm. talaði um, að jeg mætti ekki líta eingöngu á hag samvinnufjelagunna í þessu máli. Það hefi jeg heldur ekki gert. Í þessu sambandi ber að líta á hag allra bænda, hvort sem þeir eru í samvinnufjelagi eða ekki. Það álít jeg líka, að sje gert í frv., þar sem öllum er gefinn kostur á að mynda með sjer slíkt fjelag, bara ef þeir fullnægja skilyrðunum. T. d. geta menn í Borgarfirði, sem ekki eru í Sambandinu, eins orðið aðnjótandi þessarar lánsstofnunar eins og menn í Húnavatnssýslu, sem eru í því, en þeir verða þá að fullnægja skilyrðunum. En það er hv. þm. sjálfur, sem ætlar að útiloka alla samvinnumenn í landinu. (BKr: Það er ekki jeg, heldur frv., sem útilokar þá). Það er einmitt þm. sjálfur, sem gerir það með till. sinni. Þar segir svo í brtt. hans við 1. gr. a:

„Eigi geta þeir menn orðið fjelagar, sem standa beint eða óbeint í sjálfskuldarábyrgð fyrir önnur fjelög eða fjelagssambönd.“

Jeg veit ekki, hvernig er hægt að orða þetta ljósara. Hv. þm. ætlar greinilega að útiloka alla þá menn, sem eru í samvinnufjelögum. Nú er áreiðanlega mestur hluti bænda í samvinnufjelögum, og ef nú á að útiloka þá alla, þá veit jeg ekki, til hvers frv. á eiginlega að vera.

Þá talaði hv. þm. mikið um það, hvað samvinnufjelögin væru yfirleitt illa stödd, og sagði, að 12 af fjelögunum í Sambandinu mundu vera búin að lýsa gjaldþroti, ef þau þyrðu það vegna Sambandsins. Þetta er nú nokkuð liðlega krítað hjá hv. þm. Jeg þekki þetta áreiðanlega eins vel og hann, og hefi betri aðstöðu, þar sem jeg fer árlega gegnum hagskýrslur allra fjelaganna í Sambandinu, og það er að mínum dómi mjög fjarri því, að þau sjeu svo illa stödd sem hv. þm. vill vera láta. Mikill meiri hluti fjelaganna á miklar eignir og mikið fje í sjóði, en aðeins örfá getur maður sagt, að sjeu illa stödd.

Jeg sje, að nú er komið að hættutíma, og veit ekki, hvort hæstv. forseti leyfir mjer að halda lengur áfram, og læt jeg því máli mínu lokið í bili.