02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

10. mál, útfutningsgjald af síld o.fl.

Erlingur Friðjónsson:

Eins og kunnugt er, flutti jeg á síðasta þingi 2 frv. um hækkun á útflutningsgjaldi á síldarafurðum. Annað um hækkun á útflutningsgjaldi á síldarmjöli, en hitt um hækkun á útflutningsgjaldi á síldarlýsi. Hv. 2. þm. S.-M. hefir tekið efnið úr öðru því frv. á þskj. 223 um hækkun útflutningsgjalds á síldarmjöli. Tilgangur minn með frv. þessum var sá, að samræma útflutningsgjald á þessum afurðum við útflutningsgjald á saltsíld. Var í frv. þessum gert ráð fyrir lækkun á útflutningsgjaldi á síld til að vega á móti hækkuninni á hinu. Lít jeg þannig á, að útflutningsgjaldið beri að miða við verð hrásíldarinnar, og yrði þá útflutningsgjaldið álíka hátt á einni tunnu af saltsíld og einu máli af síld í bræðslu. Það er alment viðurkent, að fyrir eitt mál af síld í bræðslu beri að greiða álíka hátt verð eins og fyrir eina tunnu síldar í salt. Þegar t. d. ein tunna af síld er keypt fyrir 10–12 kr. til söltunar, er álíka mikið fyrir málið gefið til bræðslu. Enda er það alment viðurkent, að eins vel borgi sig fyrir síldveiðendur að veiða í bræðslu, þó þeir fái 1/3 minna fyrir síldina þar, eins og í salt. Að sönnu hefir út af þessu brugðið á tveimur síðustu árum, að verðið á máli í bræðslu og tunnu í salt hafi haldist í hendur, því bræðslusíldarverðið hefir verið lægra en það, en óhætt er að ganga út frá hinu sem nokkurnveginn fastri reglu, að fyrir hvert mál síldar í bræðslu og hverja tunnu í salt sje venjulega gefið jafnhátt verð.

Hv. 3. landsk. vildi halda því fram, að síðastl. sumar hefðu síldarbræðslurnar ekki gefið hærra verð fyrir síldarmál en kr. 8,50 eða jafnvel ekki meira en kr. 7,75. Jeg skal ekkert fullyrða um það, hvort þessi skýrsla hans um síldarverðið er rjett eða ekki, því til þess vantar mig kunnugleika, ef hún er rjett, og jeg ætla að ganga út frá, að hún sje það. Þá má ganga út frá, að síldarbræðslurnar hafi grætt í ár 2 til 3 kr. á hverju síldarmáli, því verð síldarafurða var líkt bæði árin 1927 og 1928. En hv. 3. landsk. lagði fyrir síðasta þing skýrslu um rekstur síldarbræðslustöðvar, þar sem hann sannaði, að með sama verði á bræðsluafurðum og 1927 hefði mátt greiða 10 til 11 kr. fyrir hvert síldarmál 1928. Jeg sje því enga ástæðu til að hlífa síldarbræðslunum við þeirri litlu hækkun, sem hv. 2. þm. S.-M. flytur á þskj. 223, sem kemur ekki til með að nema meiru en 16 til 18 aurum á hver 100 kg. af síld. Ástæðulaust er að halda því fram, að þessi lítilfjörlega hækkun á útflutningsgjaldi á síldarafurðum muni lenda á framleiðendum. Eftir skýrslu hv. 3. landsk. í fyrra er sýnilegt, að allmikill gróði hefir orðið á síldarbræðslunum 2 síðastl. ár, og þó enn meiri árið 1928 en árið á undan.

Þá fór hv. 3. landsk. nokkrum orðum um það, að síldarsöltun drægi fólkið úr sveitunum og vinnukraftinn frá bændunum, og að því er mjer skildist myndi það setja sveitirnar í auðn. Hún er orðin nokkuð áberandi þessi bændaumhyggja hjá sumum hv. þm., og vitanlega er ekki sjerstaklega mikið út á það að setja, en full ástæða virðist einnig til þess fyrir þá hv. þingmenn að muna líka eftir því fólki, sem komið er í sjávarþorpin og bundið er orðið við síldarvinnuna þar. Ef draga ætti úr síldarsöltun og auka það, sem látið yrði í bræðslu, myndi af því leiða mikið vinnutap fyrir það verkafólk, sem komið er að síldarútveginum, því síldarsöltun útheimtir fjórfalt meiri vinnu en síldarbræðsla, þegar miðað er við sömu veiði til hvorstveggja, svo fyrir þjóðina er það margfalt meiri hagnaður, að síldarsöltun sje aukin og sá atvinnurekstur verði trygður heldur en þó síldarbræðslan vaxi.

Jeg er ráðinn í því að vera með þessari hækkun, sem leiðir af till. hv. 2. þm. S.-M. á þskj. 223, með það fyrir augum, að í sambandi við annað mál, sem hjer er á ferðinni, er farið fram á að minka tekjur ríkisins af útflutningi saltaðrar síldar, og get jeg því unt ríkissjóði þess, að hann fái auknar tekjur af þessari grein. Mun jeg þegar þar að kemur leggja áherslu á, að lækkun á útflutningsgjaldi saltaðrar síldar komi á móti þeirri hækkun, sem hjer er farið fram á. Með þetta fyrir augum greiði jeg atkv. með till. hv. flm.