20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

20. mál, atvinna við siglingar

Jón Ólafsson:

Jeg skal ekki vera langorður. Kostnaðarhliðin er ekki eins ægileg og virðist, fljótt á litið. Það er vafasamt, hvort það er sparnaður í hverju tilfelli, að hafa ekki bestu menn, sem völ er á, á bátunum. Og jeg held, að það sje ekki forsvaranlegt, þegar um langan róður er að ræða, eins og t. d. af Akranesi til Snæfellsness, og búast má við hrakningum og illviðri, að hafa ekki nema einn kortlærðan mann á bát. Þeir þurfa að vera tveir, til þess að skiftast á um vaktir. Auk þess er á það að líta, að það er mikill bagi fyrir útgerðina að verða að missa af góðum manni fyrir það eitt, að hann verður að fara á stærri skip til þess að öðlast stýrimannsrjettindi. Það er ekki alt komið undir því, að spara kaup yfirmanna, þegar um aflabrögð er að ræða. Þar er oft eins mikið undir einum komið og mörgum.

Jeg held, að það sje ekki rjett hjá hv. þm. Borgf., að það andi kalt frá stjórn Fiskifjelagsins til smábátaútvegins. (PO: Það gerir það í þessu frv.). Hitt er satt, að ekki var hægt að leita álits allra hjeraða í þessu efni, og jeg hygg, að þetta frv. sje einkum bygt á umkvörtunum eins hjeraðs, og allmargra skipstjóraefna, sem fyrir þessar sakir hafa orðið að hröklast skip af skipi, til þess að öðlast umrædd rjettindi.