09.03.1929
Efri deild: 18. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í C-deild Alþingistíðinda. (2756)

6. mál, hveraorka

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Allsherjarnefnd lítur svo á, að rjett sje að setja nú þegar lög um notkunarrjett í hveraorku, og hefir því fallist á frv. það, sem hjer liggur fyrir, með dálitlum breytingum.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er aðallega í því fólgin, að orða um 2. gr. frv., og er það meira gert til samræmis en að greininni sje gerbreytt. í frv. er aðeins gert ráð fyrir, að landareign, sem hveraorka er í, geti skifst á milli tveggja aðilja, en nefndin leit svo á, að fyrir gæti komið, að fleiri en tvær jarðir gætu átt ítök í hverasvæði, og þótti henni því rjett að taka tillit til þessa. Er því aðalbreytingin við 2. gr. frv. fólgin í því, að fá ákvæði inn í hana, sem gerir ráð fyrir, að laugavatn eða hverahiti geti fundist þar, sem tveir eða fleiri geti átt lönd að.

Þá leggur nefndin til, að aftan við 6. gr. verði bætt nýrri málsgrein. Frv. grein þessi gerir ráð fyrir, að leiguliði geti hagnýtt sjer hveraorku, þó að landeigandi vilji ekki leggja neitt fje fram til hagnýtingar orkunni, en hún segir ekkert um, hvernig fara eigi að, þegar leiguliði fari frá jörðinni. Úr þessu vill nefndin bæta og tryggja rjett leiguliða á þann hátt, að hann fái endurgjald fyrir kostnaði sínum eftir sömu reglum og gilda um aðrar jarðabætur.

Þá er þriðja og síðasta brtt. nefndarinnar, og má segja, að hún sje ekki stórvægileg. Í frv. er gert ráð fyrir, að ágreining, sem verða kunni út af bótum fyrir landspjöll og óþægindi, sem leiguliðar og landeigendur eru skyldir að þola, þar sem orkan á að koma til afnota, skuli útkljá með mati, og að því er virðist dómkvaddra manna, en í 10. gr. er það beint tekið fram, að mat samkvæmt henni skuli framkvæmt af úttektarmönnum. Þetta finst nefndinni ósamræmi, því að hún sjér enga ástæðu til þess, að láta ekki sama gilda, hvað þetta snertir, um öll möt, sem frv. gerir ráð fyrir, og ber því fram brtt. um að orðið „úttektarmenn“ í 10. gr. falli burt.

Þá vil jeg geta þess, að í frv. eru nokkrar prentvillur, sem verða leiðrjettar, þegar það verður prentað um.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. þetta, og eins og nál. á þskj. 77 ber með sjer, leggur allshn. til, að það verði samþ. með þeim breytingum, sem þar eru taldar og jeg nú hefi nefnt.