20.04.1929
Neðri deild: 50. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

10. mál, útfutningsgjald af síld o.fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er frv. þetta upprunalega borið fram af hæstv. stj. til þess að fá staðfestingu á bráðabirgðal., sem út voru gefin í júlí síðasta ár. Þessi hv. d. staðfesti bráðabirgðalögin alveg óbreytt, en hv. Ed. hefir fundið ástæðu til þess að gera allveigamiklar breyt. á þeim. Þær breyt. eru aðallega í því fólgnar að hækka um helming útflutningsgjald af síldarmjöli og fiskimjöli og að hækka útflutningsgjald um 20% af hausum og óunnum sjávarafurðum. Fjhn. vildi ekki ganga inn á þessar breyt., af því að á þeim vörum, sem hv. Ed. tvöfaldaði útflutningsgjaldið á, hvílir nú 4% útflutningsgjald samkv. frv. hæstv. stj. Þar sem nú þetta er hærra útflutningsgjald heldur en á nokkurri annari samskonar vörutegund, þá lítur n. svo á, að þar sje síst á bætandi, og hefir því farið fram á, að sú breyt. verði gerð á frv., sem færir það í hið fyrra horf, svo að það verði eins og það kom frá hendi hæstv. stj.

Jeg vona, að hv. dm. líti svo á, að nóg sje komið af tollum á þessa vörutegund, og sjái sjer fært að fallast á þetta.