14.03.1929
Efri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í C-deild Alþingistíðinda. (2766)

6. mál, hveraorka

Jón Jónsson:

Þetta frv. hefir hlotið nokkuð misjafnar undirtektir. Það kom fyrir Nd. snemma á þingi í fyrra. En þar fjekk það slæmar undirtektir og var svæft í nefnd. En nú hefir því hjer verið tekið opnum örmum. Mjer finst frv. þetta athugavert að því leyti, að það tryggir að mínu áliti ekki nægilega vel eignarrjett manna yfir löndum sínum. Að vísu segir 1. gr. frv. svo, að jarðhiti fylgi landeign hverri, en mjer finst það ekki nægilega trygt með frv., að landeigandi fái fullar bætur af þeim, er nýtt getur jarðhitann skv. frv. Hv. 3. landsk. vill nú líka láta strika út úr 1. gr. orðið „jarðhita“. En jeg get ekki fallist á, að það sje rjett. Jeg lít á jarðhitann sem hver önnur gæði, sem jörð fylgir og eigandi jarðar hefir keypt með jörðinni. Hitt er annað mál, þótt ríki og sveitafjelög geti tekið þann hita í sínar þarfir, þegar heill almennings krefur, svo sem er um ýms önnur gæði, enda mun það heimilt eftir núgildandi lögum. En hitt er álitamál, hvort rjett er að hleypa hverjum einstakling að þeim rjetti, að mega bora innan annara manna landeigna eftir jarðhita í gróðaskyni fyrir sjálfan sig.

Þá vildi jeg leyfa mjer að beina einni fyrirspurn til hv. allshn., út af orðalagi 2. málsgr. 12. gr. frv. Þar er kveðið svo að orði, að lögreglustjóri skuli skyldur að tilkynna landeiganda, að sótt hafi verið um borunarleyfi, áður en leyfið er veitt. Jeg veit nú ekki, hvort þetta ber að skilja svo, að í þessu ákvæði felist forgangsrjettur fyrir landeiganda til að framkvæma sjálfur hið fyrirhugaða verk. Ef svo er, þá kemur það óskýrt fram. Eftir frv.gr. er svo að sjá, að það eigi aðeins að láta landeiganda vita af þessu. En jeg tel rjett, að landeigandi ætti forgangsrjett, og væri veittur nægilega rúmur tími til ákvörðunar um það, hvort hann vill eða getur notað hann, t. d. eitt ár. Ef svo er ekki gert, þá tel jeg að rjettur landeiganda sje ekki vel trygður. Jeg hygg, að það geti verið álitamál, hvort samþykkja skuli þetta frv. Og jeg skal játa, að jeg hefi ekki lagt mig mjög mikið eftir því, þar sem jeg hefi ekki átt við þá staðhætti að búa, að þeir hafi gefið mjer sjerstakt tilefni til umhugsunar um þetta efni. En mjer finst þó mikið álitamál, hvort rjett sje að veita hverjum sem vill heimild að löndum annara manna vegna þessarar starfrækslu, nema þá að hæfilegt gjald komi fyrir þennan rjettindamissi til landeiganda.

Þá tel jeg og, að ákvæði 12.–14. gr. geti orðið til mikilla óþæginda fyrir hið opinbera, hjeraðsstjórnir og ríkisstjórn, þar sem greiða skal borunarmanni fult gjald fyrir unnið verk og bætur fyrir rjettindamissi, ef taka þarf orkuna til almennra þarfa.

Jeg held, að ekki væri skaði skeður, þótt þessar gr., 12.–14., væru feldar úr frv.