14.03.1929
Efri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í C-deild Alþingistíðinda. (2770)

6. mál, hveraorka

Jón Þorláksson:

Jeg get ekki fallist á, að brtt. mín fari fram á að taka þann jarðhita frá landeigendum, sem þeir nú eiga. En í frv. eru sett nauðsynleg ákvæði, með tilliti til reynslu nútímans, um það, hvernig fara skuli með þann jarðhita, sem ekki hefir komið fram á yfirborðið og liggur svo djúpt, að ekki næst til hans nema með borun. Og það er aðeins um þetta atriði, sem ágreiningur er á milli mín og hv. 6. landsk. Okkur greinir með öðrum orðum á um það, við hvað eigi að binda eignarrjett á hita, en hann er þess eðlis, að hann hlýtur að vera bundinn við þann hlut, sem heitur er. Þegar hitinn kemur upp á yfirborðið, má auðvitað segja, að landeigandinn eigi allan þann hita, sem þar er, en löggjöfin hefir ekki slegið neinu föstu um það, hve djúpt eignarrjettur á hita nái. Það hefir verið gert, að því er málma snertir, og jeg er hræddur um, að þetta sje miðað við það. En þó að því sje slegið föstu, að Jón Jónsson eigi einhverja jörð, er ekki þar með sagt, að hann eigi allan þann hluta jarðkúlunnar, sem er á milli miðdepils jarðar og blettsins, sem hann býr á.