19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í C-deild Alþingistíðinda. (2774)

6. mál, hveraorka

Jörundur Brynjólfsson:

Þó að þetta virðulega frv. sje litlum kostum búið, þykir mjer þó hlýða, að gera því nokkur skil við þessa umr.

Eins og hv. þm. muna, var mál þetta flutt á þinginu í fyrra, og þá borið fram hjer í hv. Nd. Þá var því vísað til hv. allshn., en sem betur fór, sást það ekki framar.

Nú hefir verið farið öðruvísi að, frv. borið fram í hv. Ed., og það siglt þar svo miklum hraðbyr í gegnum deildina, eins og það væri eitthvert allra sjálfsagðasta nauðsynjamál þingsins.

En jeg lít öðrum augum á frv. þetta, og tel það eigi lítið erindi að sigla í gegnum þingið. Með því vil jeg þó ekki segja, að í því felist ekkert, sem nýtilegt megi kalla, en agnúarnir eru svo miklir á frv., að það yrði til stórspillis frá því, sem nú er, næði það fram að ganga og verða að lögum.

En þó að agnúarnir væru margir á frv., er það var lagt fyrir hv. Ed., þá hafa þeir þó aukist stórum í meðferð deildarinnar. Það er eins og ekki hafi þótt nóg rjettarskerðing í hinu upphaflega frv., og því nauðsynlegt að auka við hana. Verður því ekki annað sagt, en að hv. Ed. hafi verið þar vel að verki.

Að vísu ber 1. gr. frv. með sjer, að hún hefir ekki tekið miklum stakkaskiftum í meðferð deildarinnar.

Jeg ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa upp 1. gr., eins og var í frv.:

„Landareign hverri innan þinglýstra takmarka, fylgir rjettur til umráða og hagnýtingar á hverum og laugum (jarðhita), sem á henni eru, þó með takmörkunum þeim, sem lög þessi tilgreina.“

Úr gr. eru feld niður orðin „innan þinglýstra takmarka“, og má sú breyting saklaus kallast.

En öðru máli er að gegna um orðið „jarðhita“, sem áður stóð í svigum í gr., eins og til frekari skýringar á því, er við væri átt. Þetta orð er nú felt úr gr., og er það í fullu samræmi við það, sem sumir hv. Ed. þm. vilja vera láta. Svo vendilega er frá þessu gengið, að landeigendur ráða ekki lengur afrensli frá hverum og laugum. Að vísu lítur svo út, að menn hafi heimild til að nota hveri og laugar í landareign sinni til heimilisnytja, en þegar það mál er krufið betur til mergjar, virðist sá rjettur einkar hæpinn. Enda skín alstaðar út úr frv., að aðrir hafi fult eins mikil ráð yfir þessum rjettindum eins og jarðareigandi. En slík ákvæði sem þessi höggva nærri stjórnarskránni og brjóta jafnvel í bág við hana, eins og jeg kem að síðar.

Að landeigendur megi engu ráða yfir afrensli frá hverum og laugum, er tekið fram í 2. gr. frv., þar sem það er sagt beinum orðum, að farvegi þess vatns, sem frá hverum og laugum rennur, megi ekki breyta. Nú er það svo, að margir hafa notað þetta vatn til áveitu, og hafa af þeim ástæðum orðið að breyta farvegi laugavatnsins á ýmsan hátt. Samkvæmt frv. er landeiganda þetta óheimilt, þó að engum stafi mein af því. M. ö. o., landeiganda er meinað að hafa slíkar nytjar laugavatnsins, af því að ekki er lengur heimilt að breyta farveginum.

Annars rekur maður sig á við og dreif um þetta frv. á fjölda agnúa, sem mjer finst engin þörf á að fara að lögleiða nú. Jeg ætla ekki við þessa 1. umr. að fjölyrða neitt um einstakar greinar, en get þó ekki skágengið 12. gr., enda er hún aðalrúsínan. Með henni er algerlega kipt á burt þeim rjettindum, sem landeiganda voru gefin með öðrum gr. frv. Það er því auðsætt, að frv. er samið með hliðsjón af þessari einu gr. Annars veit jeg ekki til, að hagsmunir manna hafi rekist á í þessu efni, þó að engin lög væru um það.

Í upphafi 12. gr. er gert ráð fyrir, að aðrir en landeigandi geti borað eftir jarðhita, ef þeir sýna, að þeir hafa fjármagn til þess, en þeir þurfa ekki að sækja um það leyfi til landeiganda, heldur er það lögreglustjóri, sem veitir það. Og lögreglustjóra er heimilt að veita þetta leyfi, án þess að spyrja landeiganda. Hann getur ákveðið að taka spildu t. d. úr túni landeiganda, að honum fornspurðum, og afhenda það til notkunar þeim, sem hann veitir leyfið. Það skal tekið fram í leyfisbrjefinu, hve mikið land leyfishafi skuli fá til rannsóknar og hagnýtingar orkunni. Gert er ráð fyrir, að borunin valdi eigi truflunum utan þess svæðis. Lögreglustjóri á að hafa sjer til ráðuneytis mann frá ríkisstjórninni, en hvorki landeigandi nje ábúandi skulu hafa hinn minsta íhlutunarrjett um það, sem aðhafst er í þessum efnum, og ekkert er talað um bætur fyrir spjöll þau, er jarðareigandi eða ábúandi kunna að verða fyrir. Álíti lögreglustjóri leyfisbeiðanda hæfan til þess að takast slíkt á hendur, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að hann fái leyfið, jafnvel þótt í fullri óþökk jarðeiganda sje. Við þetta væri þó ekkert að athuga, ef heill almennings eða sveitarfjelagsins krefðist, en þótt svo stæði á, þá þurfa engin ný lög eða lagafyrirmæli um það, því samkvæmt gildandi lögum er slíkt ávalt heimilt. Þegar lögreglustjóri hefir síðan veitt hið umbeðna leyfi, þrátt fyrir mótmæli landeiganda, þá getur leyfishafi þegar hafist handa. Landeigandi hefir ekki einu sinni forgangsrjett til borunar eða hagnýtingar hitaorku á sínu eigin landi. Hins vegar á hann rjett á bótum fyrir usla og átroðning, en endurgjald fyrir hvera og hitaorku skal eingöngu miðað við yfirborð jarðar. Um þetta segir í 1. gr., því að þar er jarðhiti ekki talinn undir eignarumráðum landareignarinnar, heldur einungis hverir þeir og laugar, sem eru á yfirborði jarðar. Eftir frv. að dæma, eins og það nú kemur frá Ed., er svo að skilja, að landeigandi eigi bótarjett fyrir vatnið, eins og það er á yfirborði jarðar, en eigi hinsvegar ekkert tilkall til þess aukna hita, sem fram kann að koma við borun. Hv. Ed. hefir auðsjáanlega þótt það of mikið, að slíkur hiti tilheyrði landareigninni, og því komið því svo fyrir, að hann væri landeiganda með öllu óviðkomandi. Með þessu hefir deildin slegið því föstu, að eignarrjettur yfir jörð taki einungis til yfirborðsins, en ekki til þess, sem undir yfirborðinu er. Þetta kom greinilega fram við umræðurnar í Ed. Hv. frsm. sagði, að það væri ekki ætlun nefndarinnar, að landeigandi fengi bætur fyrir þann hita, sem kynni að koma fram við borun, heldur aðeins fyrir hveri og laugar. Það kom fram fyrirspurn um þetta atriði undir umræðunum, og sá sem spurði, tjáði sig mjög ánægðan með þessi svör, enda fjellu þau í góðan jarðveg þar.

Jeg mótmæli algerlega þessum skilningi. Sá hiti, sem á yfirborðinu kemur fram í hverum og laugum, hefir þó myndast undir yfirborðinu, og sennilega mjög langt niður í jörð. Ef á annað borð á að bæta fyrir hvera- og laugahita, þá ber auðvitað ekki síður að bæta fyrir þann hita, sem finst niður í jörðu við rannsókn. Annars hefði jeg ekkert á móti því, að lög væru sett um þetta efni, en því aðeins þessi lög, að 12. gr. væri algerlega feld burtu, og frv. að öðru leyti lagað svo, að rjettur landeiganda og ábúanda sje ekki svo gersamlega borinn fyrir borð, eins og hjer er gerð tilraun til. Og enn frekar er ástæða til að taka þetta fram hjer, þar sem þessi rangi skilningur hefir orðið til þess, að Ed. hefir gert sitt ítrasta til að rýra þessi hlunnindi jarðeigenda. Og mjer er ekki grunlaust um, ef dæma skal eftir flutningi þessa máls, þing eftir þing, að hjer búi fiskur undir steini; að eitthvað verra búi að baki þessum sífeldu tilraunum til þess að fara ránshendi um þau hlunnindi og gæði, sem að rjettu lagi tilheyra landareign eða landeiganda. Jeg hefi í rauninni ekkert við að athuga, þótt sett væru lög um, hvað gera skuli í þessum efnum, þegar almenningsheill krefðist, þótt slíkt sje í sjálfu sjer óþarft, vegna gildandi lagaákvæða um þau efni, en þegar á með lögum að fara að opna einstökum mönnum leiðir til þess að seilast eftir rjettindum manna, fyrir ef til vill lítið gjald, þá verð jeg að telja of langt gengið. Og þess er síst að vænta, að þessi umtöluðu rjettindi væru til meiri nytja í höndum slíkra manna en í höndum þeirra, sem nú eiga þau.

Jeg mun nú ekki að sinni fara fleiri orðum um þetta frv. Vænti, að hv. deild lagfæri frv., ef það á fram að ganga. Best væri þó, að það sofnaði svefninum langa við lok þessarar umræðu.