19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í C-deild Alþingistíðinda. (2775)

6. mál, hveraorka

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 1. þm. Árn. hefir nú gert að umtalsefni þetta frv., og er það vel farið, því að hjer er eigi allþýðingarlítið mál á ferðum. Frv. þetta var flutt í fyrra, og sofnaði þá í nefnd. Hv. þm. virðist nú óska því hinna sömu afdrifa, eða jafnvel enn skjótari. En jeg vil benda þessum hv. þm. á það, að þannig má hann ekki óska. Það verður að setja lög um þessi efni; það er óhjákvæmileg nauðsyn. Notkun hveraorku fer nú óðum í vöxt, og nú hefir þingið veitt stjórninni heimild til þess að kaupa borunartæki. Það væri því með öllu óforsvaranlegt, að setja ekki lög um þetta efni, og það þyrfti helst að gerast á þessu þingi.

Hv. þm. ljet í veðri vaka, að tilefni þessa frv. væri fólgið í 12. gr. þess. En þetta er hreinasti misskilningur. Tilefnið er gefið af Alþingi 1927, því að það skoraði á stjórnina að láta undirbúa lög um þetta efni. Stjórnin var því beinlínis skyldug til að láta þennan undirbúning fara fram, og leggja frv. fyrir þingið. En ef hv. þm. álítur, að hjer liggi fiskur undir steini, þá á hann einn þátt í því, því sennilega hefir hann greitt þessari áskorun atkvæði, þegar hún var á döfinni.

Annars get jeg fúslega tekið undir það, að það þurfi að athuga frv. og lagfæra það, en ekki að þingið eigi að svæfa það eða tortíma því á annan hátt.

Út af áskorun þingsins 1927, fól stjórnin færum lögfræðingi hjer í bæ, Klemens Jónssyni, að semja lög um þetta efni, í samráði við sjerfræðinga. Var til þess ætlast, að um hverkaorku væru látnar gilda hinar sömu reglur og um vatnsorku alment, samkvæmt vatnalögunum, hvort sem orkan væri notuð eða ónotuð.

Mjer finst því, að þingið ætti nú að vera sjálfu sjer samkvæmt, og byggja þessi lög á hinum sömu grundvallarreglum. Það er alveg rjett, að sumar breytingar Ed. eru mjög til hins verra, og var bent á það í deildinni, en jeg gat því miður ekki verið viðstaddur þá. Jeg vona svo, að hv. 1. þm. Árn. stuðli að því, að deildin fái slegið einhverju föstu um það, hver er vilji hennar um þetta mál, fremur en hitt, að deildin svæfi það. En viðvíkjandi þeim árásum á eignarrjettinn, sem talað er um að gerðar hafi verið í Ed. í sambandi við þetta frv., þá skal það tekið fram, að höfundur þeirra og upphafsmaður er sjálfur form. íhaldsflokksins, sem kom slíkum breytingum að í Ed. Þangað á því að beina öllum ásökunum út af þessu atriði.