05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki verða til þess að lengja þessar umr. að mun, enda eru þær nú teknar að snúast meir um einstök orð en málefnið sjálft, sem er til umræðu. Ástæðan til þess, að jeg stend upp, er sú, að hv. þm. Borgf. og hv. þm. Vestm. eru farnir að hafa sjer það til gamans að snúa út úr orðum mínum. Er slík gamansemi að vísu græskulaus og ekki ótíð hjer á Alþingi, en óþörf sýnist mjer hún með öllu.

Hv. þm. Borgf. sagðist skilja álit sjútvn. á þá leið, að nefndin ætlaðist til, að þar sem þryti máttur rekstrarlánadeildar Fiskiveiðasjóðs til útlána, skyldi Landbúnaðarbankinn taka við. En um það sagði jeg ekki eitt einasta orð, og um það stendur heldur ekkert í nál. sjútvn. Mjer virtist hv. þm. gera sig sekan um mjög einkennilegan lestur á einu orði í þeim kafla nál., sem hann las upp áðan, og það var orðið ef. Hv. þm. tæpti á því orði eins og hann vildi láta sem allra minst á því bera. í álitinu er einmitt talað um það, að ef Landbúnaðarbankinn verði stofnaður og ef hann láni fje til smábátaútvegsins, þá verði það til mikillar styrktar starfsemi Fiskiveiðasjóðsins. Nefndin fullyrðir ekkert um það, hvort þetta muni verða, enda vissi hún ekki um það. Þessi lestur hv. þm. skiftir raunar ekki miklu máli, en dálítið finst mjer hann minna á lestur ákveðinnar persónu á ritningunni fyr á dögum.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði fyrir hönd nefndarinnar lagt ákveðinn skilning í nál. Þetta er ekki rjett. Jeg sagði ekkert um skilning hv. meðnefndarmanna minna á því. Það eitt sagði jeg, að jeg hefði sjálfur skrifað undir álitið með þeim skilningi, sem jeg gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni. Jeg lýsti yfir mínum skilningi, en ekki annara, og það er fullkominn óþarfi hjá hv. þm. að snúa út úr því, sem jeg þá ljet um mælt.

Jeg sagði heldur ekki, að umrædd grein í frv. um Landbúnaðarbankann væri nægilega skýrt orðuð. Jeg gat þess aðeins, hvernig jeg skil hana. Og jeg hefi ekkert á móti því, að hún sje orðuð greinilegar.

Hv. þm. Vestm. spurði mig, hvort jeg ætlaði ekki að greiða atkv. með brtt. n. Jeg svaraði þeirri spurningu í fyrri ræðu minni og tel þarfleysu að endurtaka það svar. Mjer finst þetta mál alt of gott til þess, að umr. um það sjeu látnar snúast upp í hártoganir einstakra ummæla.