21.02.1929
Efri deild: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í C-deild Alþingistíðinda. (2800)

22. mál, nöfn bæja og kaupstaða

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af ræðu hv. 3. landsk. (JÞ) vil jeg benda á það, að frv. þetta er undirbúið af einum besta sögumanni á Íslandi, og það er tekið skýrt fram í álitsskjali því, sem frv. fylgir, að við Íslendingar höfum í þessu efni ekki orðið eins hart úti og Norðmenn, á okkar niðurlægingaröld. Þó er þar nefnt eitt ágætt dæmi, sem sje, þegar Möðruvellir í Hörgárdal eru kallaðir „Friðriksgáfa“, af því að Friðrik konungur ljet þar reisa steinhús. Segjum svo, að Möðruvellir væru enn kallaðir þessu nafni. Væri þá ekki ástæða til að breyta því? (JÞ: Möðruvellir hafa aldrei heitið Friðriksgáfa, heldur aðeins eitt hús á Möðruvöllum). Það er nú samt venjan, að hús og jörð fær sama nafn. En meðvitund þjóðarinnar hefir tekið þarna nógu snemma í strenginn. Nei, það er ekki hægt að vera á móti þessu frv., nema fyrir þá, sem líta velþóknunaraugum til þess tíma, þegar þjóð okkar var beygð undir erlent vald.