16.04.1929
Efri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í C-deild Alþingistíðinda. (2803)

22. mál, nöfn bæja og kaupstaða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. allshn. afgreiðslu þessa máls. Það er mjer ánægja, að hún hefir fallist á aðalatriði frv. Þess vegna vil jeg heldur ekki gera ágreining um einstök atriði, þó að jeg geti ekki neitað því, að jeg hefði kosið ýmislegt í brtt. nefndarinnar öðruvísi en það er.

Vegna afstöðu nefndarinnar er eðlilegt, að hún afgreiði ekki frv. um nafn Ísafjarðar-kaupstaðar. Mun jeg og sætta mig við það, þó að jeg hefði talið rjettara að leyfa Ísfirðingum nú þegar að láta uppi álit sitt um það, hvort þeir vildu heldur hlíta íslenskri eða danskri skírn. En það er gott, að frv. fái afgreiðslu, og jeg gef því mín bestu meðmæli.