21.02.1929
Efri deild: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í C-deild Alþingistíðinda. (2812)

26. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Jón Þorláksson:

Jeg hafði gert ráð fyrir að hæstv. ráðh. mundi leggja til að vísa málinu til hv. allshn. (Dómsmrh.: Jeg hefi heldur ekkert á móti því, ef hv. deild æskir þess fremur). En í þeirri nefnd á jeg eigi sæti og hafði því hugsað mjer að gera lítilsháttar athugasemdir við frv. þegar á þessu stigi málsins. Hinsvegar hefi jeg minni ástæðu til athugasemda nú, ef mentmn. fær frv. til meðferðar, því að þar á jeg sjálfur sæti.

Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli hv. þdm. á því, að með þessu frv. er verið að taka vald frá bæjarstjórnum og leggja það undir dómsmálaráðherra. Það er rjett, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að þetta er svo í Danmörku. En hitt hefi jeg heyrt og ætla að það sje á fullum rökum bygt, að sú tilhögun hafi reynst þar alveg sjerstaklega illa. Það get jeg fullyrt a. m. k., að sje borin saman kvikmyndastarfsemin hjer í Reykjavík og t. d. í Khöfn, orkar það eigi tvímælis, að hún stendur á miklu hærra stigi hjer. Vil jeg nota tækifærið til að láta það í ljós, að mjer finst vera veitst mjög ómaklega að forstjórum kvikmyndahúsanna hjer, ef ummælin í greinargerð frv. eiga við þá. Mjer er kunnugt um það, að hjer eru engar þær myndir sýndar, sem eigi hafa staðist gagnrýni í nábúalöndum okkar, og að forstjórar kvikmyndahúsanna hjer eru mun vandlátari en starfsbræður þeirra yfirleitt í öðrum löndum. Jeg þori ekki að staðhæfa mikið um myndsýningar í öðrum bæjum en Rvík., en það veit jeg, að á undanförnum árum hefir verið sýnt hjer mikið af úrvalsmyndum, en hinsvegar engar, sem eru á borð við þær lökustu, sem leyfðar hafa verið í Khöfn.

Í athugasemdum frv. er sagt, að kvikmyndasýningar sjeu eftirlitslausar af hálfu bæjarstjórnar. Þetta er ekki rjett. Bæjarstjórn hefir gefið gaum að vali myndanna, þó að eigi hafi farið fram formlegt eftirlit. Þetta hefir forstjórunum verið kunnugt um og tekið tillit til þess. Hinsvegar er eigi með öllu hægt að sneiða hjá misjöfnum atvikum í myndum, ef á annað borð á að sýna lífið eins og það er.

Sje jeg svo eigi ástæðu til að fara fleiri orðum um frv., að svo stöddu, síst ef því verður vísað til þeirrar nefndar, sem jeg á sæti í.