05.04.1929
Efri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í C-deild Alþingistíðinda. (2816)

26. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi leyft mjer að flytja brtt. við þær till., sem hv. mentmn. gerir um frv. stj. Eru þessar till. mínar sumpart leiðrjettingar, sem litlu máli skifta, en sumpart efnisbreytingar.

Fyrsta brtt. mín er við 2. brtt. n. Er það orðalagsbreyting, sem mjer finst fara betur á. Önnur brtt. mín er við 3. brtt. n. Það er efnisbreyting, þar sem jeg vil, að í upphafi formúlunnar komi 20 í stað 30. Er það 1/3 lækkun á gjaldinu, sem jeg tel of hátt eftir frv., þar sem ekki er eins mikil sala, ef um mörg kvikmyndahús er að ræða á sama stað.

Mjer finst og óeðlilegt, að skatturinn sje reiknaður af skemtanaskattinum, og flyt því brtt. í þá átt, að svo verði ekki gert, enda er það til að færa frv. nær þeirri mynd, sem það upprunalega hafði hjá stj.

Þá geri jeg þá brtt. við þriðju brtt. n., að orðin: „á þeim stöðum, sem kvikmyndahús eru ekki fyrir“ í 3. málsgr. falli niður. Er þetta í samræmi við það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði um eftirgjöf á skatti. Það er alveg jafn rjett að veita undanþágu frá skatti þar, sem kvikmyndahús eru fyrir og þar, sem engin eru, ef þessi nýju hús vinna til þess, með því að skapa umbætur á þessu sviði. Nákvæmlega þetta sama fólst í orðum hv. frsm. meiri hl., svo að við ættum ekki að vera ósammála um þetta atriði.

Loks legg jeg það til, að þessi 1. öðlist strax gildi. Í frv. er gert ráð fyrir, að 1. öðlist gildi 1. apríl, en það er nú sjeð fyrir, að svo verði ekki, svo að þetta er sjálfsögð breyting.

Jeg vænti þess, að hv. meiri hl. mentmn. geti fallist á till. mínar, en mjer finst ekki blása byrlega fyrir því, að hv. 3. landsk. þm. (JÞ) muni veita þeim stuðning. Hann ljet þó líklega í byrjun, en umhverfðist alveg, er hann hafði talað við flokksmenn sína. Nú segir hann, að flokkshagsmunir Alþýðuflokksins liggi á bak við þetta frv., og við Jafnaðarmenn ætlum okkur með þessu móti að fá bíó-leyfi hjá vini okkar, hæstv. dómsmrh. Telur hann, að við eigum enga von slíks ella. Það er rjett, að Alþýðuflokkurinn er ekki í náðinu hjá Íhaldinu, því að svo má heita, að það rísi öndvert gegn öllu, sem sá flokkur ber fram. Þetta hefir ekki síður komið fram í bæjarmálum hjer í Reykjavík en í öðru. Síðast í gær reis bæjarstjórnin hjer öndverð gegn því, að bygðir væru verkamannabústaðir, og bar það fyrir, að það yrði til að lækka húsaleiguna. Aftur á móti veitir hún ýmsum Íhaldsmönnum jafnvel leyfi til að byggja hús sín út í miðjar í götur, ef þeir fara fram á það. Jeg þekki að minsta kosti einn mann, sem hefir orðið fyrir þeirri náð, og jeg býst við, að hv. 3. landsk. kannist við hann líka. En jeg skil það vel, að meiri hl. bæjarstjórnarinnar hjer í Reykjavík skuli ekki vilja veita Alþýðuflokknum leyfi til kvikmyndasýninga. Það er í samræmi við fjandskap Íhaldsins gegn hverju því, sem Alþýðuflokkurinn hefir undir höndum. En meiri hl. bæjarstjórnarinnar hefir ekki heldur viljað veita öðrum slík leyfi, og það er merkilegra. En sennilega er það nú sprottið af því, að bíó-eigendurnir hjer í Reykjavík eru ekki fastheldnir á peninga sína, þegar Íhaldið þarf að halda landsfund eða koma sjer upp sæluhúsi. Jeg get því mæta vel skilið afstöðu hv. 3. landsk. til þessa máls, engu síður en afstöðu íhalds-meiri hl. í bæjarstjórninni hjer, og þykist vita með vissu, að honum sje þetta frv. þyrnir í augum, ef það kynni að geta orðið til þess, að Alþýðuflokkurinn fengi leyfi til kvikmyndasýninga.

Jeg skal ekki hafa þessi orð fleiri, en fanst ástæða til að víkja nokkrum orðum að hv. 3. landsk., af því að mjer fanst hann vera með óþarfa dylgjur í þessu máli. Og á móti hverri einni synd, sem hann ber fram til áfellingar öðrum flokkum, má benda á 100 syndir Íhaldsins um misbeiting valds. Þetta finna þeir líka sjálfir og vita, íhaldsburgeisarnir, og af þeim ástæðum mun það runnið, að safnast hefir hjer í Reykjavík þessa daga hópur manna, sem ætlar að standa yfir moldum íhaldsins. Þeir vita, að áhrif íhaldsins fara minkandi úti um sveitir landsins vegna þeirra mörgu synda, sem flokkurinn hefir drýgt. Þess vegna á nú að reyna að skinna flokkinn upp með því, að gefa honum nýtt nafn, og er búist við því einhvern næsta daginn. Þó þarf enginn að vænta, að þessi væntanlegi nýi „fugl“ taki hinum fram. En foringjarnir gera sjer vonir um, að með nýju nafni takist þeim að fleka þjóðina og villa á sjer heimildir, en það eru ekki annað en tálvonir þeirra manna, sem finna, að þeir eru altaf að tapa og eiga enga uppreisnar von framar.