09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í C-deild Alþingistíðinda. (2823)

26. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg flyt hjer tvær litlar brtt. á þskj. 300, og þurfa þær ekki mikilla skýringa við.

Í frv. er gert ráð fyrir að skipa myndskoðunarmenn, en ekki er tiltekið til hve langs tíma. Er þó rjettara að ákveða þeim vissan starfstíma, og er sá tími ákveðinn í brtt. Með frv. er ekki girt fyrir það, að myndskoðunarmenn eigi meira eða minna í kvikmyndahúsum, eða eigi þar hagsmuna að gæta. En það væri mjög óeðlilegt, og er brtt. gerð til að fyrirbyggja slíkt.

Í 12. gr. frv. er gert ráð fyrir að skipa myndskoðunarmenn alstaðar þar, sem kvikmyndahús eru rekin. Það virðist óþarfi að hafa þá svo víða, og legg jeg til, að þeir verði aðeins hafðir í kaupstöðunum. Það má gera ráð fyrir, að allar myndir, er til landsins flytjast, verði fyrst sýndar í kaupstöðunum, og er því ekki þörf á að hafa myndskoðunarmenn í kauptúnum eða út um sveitir, þó að þar kynnu að rísa upp kvikmyndahús.

Jeg skal geta þess, að villur hafa komist inn í brtt. Það stendur, að fyrri brtt. sje við 8. gr., en á að vera 9. gr., og sú síðari á ekki við 11. gr., eins og prentast hefir, heldur við 12. gr. Stafar þetta af því, að brtt. voru gerðar við frv. eins og það var upphaflega, en greinatalan breyttist við 2. umr. Vænti jeg að hæstv. forseti líti svo á, að þetta megi lagfæra við prentun.