28.02.1929
Neðri deild: 8. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í C-deild Alþingistíðinda. (2839)

28. mál, fátækralög

Jörundur Brynjólfsson:

Það er sökum þess, að hv. samþm. minn (MT) er fjarverandi, að jeg vildi segja örfá orð viðvíkjandi þessu frv. Það er ofur einfalt að efni og jeg ætla, að ekki þurfi að hafa mikla framsögu fyrir því.

Efni frv. er að stytta sveitfestitímann úr fjórum niður í tvö ár. Eins og menn vafalaust muna, kom fram tillaga um það, þegar þessi lög voru hjer til umr. á Alþingi, en tillaga í þessa átt náði þá ekki fram að ganga, og viljum við flm. þessa frv. gera tilraun til þess að styttur verði sveitfestitíminn um þetta; það er sökum þeirra viðburða, sem orðið hafa í landinu og þess ástands, sem hjer er, að okkur virðist rjett að hafa sveitfestitímann ekki lengri.

Jeg vona, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og geri það að till. minni, að því verði vísað til allshn., að umr. lokinni.