28.02.1929
Neðri deild: 8. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í C-deild Alþingistíðinda. (2840)

28. mál, fátækralög

Halldór Stefánsson:

Mjer þykir heldur bót að þessu frv. frá því sem er, en mjer þykir þó frv. ganga of stutt, því að það er mín skoðun, að rjettast sje að heimilisfangið eitt ráði sveitfesti. Jeg tel sveitfestiákvæðin rjettlátari þannig, því að þá mundi verða jafnari fátækrabyrðin milli einstakra framfærsluhjeraða heldur en nú er, en hún er mjög misþung, eins og jeg hefi nokkuð lýst á hinum fyrri þingum.

Þá tel jeg, að það myndi líka bæta úr þeim öðrum göllum fátækralaganna, sem mest hefir verið fundið að, svo sem fátækraflutningi, sem þá myndi alveg hverfa. Svo myndi þá og alveg hverfa málavafstur það, sem er milli sveita og stjórnarvalda, bæði um sveitfesti og fjármálaviðskifti. Jeg vil því við þessa umr. málsins beina því til þeirrar nefndar, sem með málið fer, hvort ekki væri rjett að stíga sporið fult og láta heimilisfangið eitt ráða sveitfestinni. En ef hv. nefnd getur ekki á það fallist, þá vil jeg þó til vara bera fram þá tillögu við nefndina, að hún gangi þó lengra en frv., og setji sveitfestitímann aðeins eitt ár.