16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í C-deild Alþingistíðinda. (2847)

28. mál, fátækralög

Magnús Guðmundsson:

Jeg hefi skrifað undir nefndarálit meiri hl. með fyrirvara. Jeg er ekki sannfærður um, að þessi stytting á sveitfestitímanum sje til bóta. Á þinginu 1923 var hann færður úr 10 árum niður í 4 ár. Og þetta mál kom einnig til umræðu á þinginu 1926, en þá þótti rjettara að halda fast við 4 ára takmarkið.

Ástæðan til þess, að jeg klauf ekki nefndina, var sú, að í frv. er ein breyting til verulegra bóta. Nú er í lögum skilyrði um, að enginn getur unnið sjer sveitfesti, nema hann hafi sloppið við að þiggja sveitarstyrk síðustu 10 árin. Í frv. er þetta skilyrði felt burtu, en ákveðið að menn geti unnið sjer sveitfesti á 2 árum, ef þeir hafa ekki þegið sveitarstyrk á því tímabili.

Það er því ekki rjett hjá hv. 2. þm. Reykv., að stytting sveitfestitímans sje eina breytingin í frv. Það atriði, sem jeg benti á, er þýðingarmeira en sveitfestímarkið, og þess vegna er jeg með frv.