16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í C-deild Alþingistíðinda. (2848)

28. mál, fátækralög

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla aðeins að mæla nokkur orð með brtt. minni á þskj. 84. Jeg beindi því til hv. nefndar við fyrstu umr., hvort hún sæi eigi ástæðu til að ganga lengra en frv. ákveður, og binda sveitfestina aðeins við lögheimili.

Einnig benti jeg á það, sem varatillögu, að eins árs heimilisfang yrði látið nægja til að vinna sveitfesti. N. hefir ekki getað fallist á þetta, og hefi jeg því borið fram varatillögu mína, af því að jeg taldi ólíklegt, að aðaltillaga mín næði fram að ganga, en aftur á móti ekki vonlaust um þessa.

Ástæður mínar fyrir því, að binda sveitfesti við lögheimili, eru í stuttu máli þessar: Fólksstraumurinn um landið hreyfist nær algerlega eftir atvinnuskilyrðum í landinu. Þangað streymir fólkið, sem atvinnuskilyrði eru best, þaðan fer það, sem atvinnuskilyrðin eru verst. Það leiðir af sjálfu sjer, að þar, sem atvinnuskilyrðin eru best, muni ekki vera tiltölulega þung framfærsla, heldur þvert á móti tiltölulega ljett, a. m. k. ekki yfir meðallag, en tiltölulega þyngst þar, sem atvinnulífið er í kreppu og kyrking. Með því að binda fátækraframfærsluna við heimilisfang, þá mundi fátækrabyrðin falla svo eðlilega á sem hægt væri, undir því fyrirkomulagi að halda þeirri skiftingu í framfærsluhjeruð, sem altaf hefir verið. En með þeim ákvæðum, sem altaf hafa gilt, nefnilega að binda framfærsluna við lengri eða skemri dvöl, hefir reyndin orðið sú, að byrðin hefir fallið í öfugu hlutfalli við gjaldþolið til framfærslu, sem jeg skal víkja nánar að seinna. Framfærsluskyldan er í eðli sínu almenn skylda, sem lögð er á með stj.skr., og á þess vegna að sjálfsögðu að koma niður á gjaldþolið á sama hátt og hinar almennu byrðar þjóðfjelagsins. Skiftingin í framfærsluhjeruð, sem upphaflega var gerð og aldrei hefir verið horfið frá, hún á engar eðlilegar ástæður fyrir sjer. Það er aðeins fyrirkomulagsatriði, sem mun hafa verið sett af praktiskum ástæðum, að því er talið hefir verið. Jeg skal ekki segja nema það sje svo að sumu leyti, og jeg býst við, að það hafi fallið nokkuð eðlilega þungt á í upphafi, á meðan atvinnulífið var einfalt og í föstum skorðum. En þegar reynslan sýnir annað eins misrjetti um álöguþunga eins og nú er orðið, þá á þetta fyrirkomulag ekki framar neinn rjett á sjer.

Jeg hefi nú ekki átt kost á skýrslu síðustu ára um það, hvernig fátækrabyrðin hefir fallið á hin einstöku framfærsluhjeruð, en hefi skýrslu frá 1924–25. Jeg hefi skift fátækrabyrðinni niður eftir manntali 1920. Þó að eitthvað hafi breyst fólkstala á þeim tíma, sem á milli er, munar það engu verulegu gagnvart þessum tölum, því að þær eru hvort sem er, ekki alveg nákvæmlega útreiknaðar, en fara svo nærri því rjetta sem þörf er á til þess að sýna hið gífurlega misrjetti í þessum hlutum. Jeg vil þá bera saman sýslur landsins hverja við aðra, — meðalfátækraframfæri, — og geta þess, hvað hæsti og hvað lægsti framfærslukostnaður hafi verið í einstökum framfærsluhjeruðum innan hverrar sýslu. Það er þá á þessa leið:

Í Gullbringu- og Kjósarsýslu er meðalframfærslukostnaður 54 kr. á mann, hæst í framfærsluhjeraði 102 kr., lægst 20 kr. Í Borgarfjarðarsýslu 9 kr. á mann, hæst 14 kr., lægst 1 kr. Í Mýrasýslu 7 kr., hæst 13 kr., lægst 1 kr. Í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu 9 kr., hæst 14,5 kr., lægst 3,5 kr. Í Dalasýslu 9 kr., hæst 19 kr., lægst 1 kr. Í Ísafjarðarsýslu 7,5 kr., hæst 17 kr., lægst 1 kr. Í Strandasýslu 6 kr., hæst 11 kr., lægst 2 kr. Í Húnavatnssýslu 7 kr., hæst 14,5 kr., lægst 1,5 kr. Í Skagafjarðarsýslu 5 kr., hæst 10,5 kr., lægst 1,5 kr. Í Eyjafjarðarsýslu 7 kr., hæst 17 kr., lægst 2 kr. Í Þingeyjarsýslu 5 kr., hæst 11 kr., lægst 1 kr. Í Norður- Múlasýslu 9 kr., hæst 22 kr., lægst 2,5 kr. Í Suður-Múlasýslu 8 kr., hæst 15 kr., lægst 2,5 kr. Í Austur-Skaftafellssýslu 0,6 kr., hæst 1,5 kr., lægst 0,2 kr. Í Vestur-Skaftafellssýslu 4,5 kr., hæst 7,5 kr., lægst 2 kr. Í Rangárvallasýslu 6,5 kr., hæst 10 kr., lægst 3,5 kr. Í Arnessýslu 11.5 kr., hæst 17 kr., lægst 2,5 kr.

Þá eru kaupstaðirnir. Í Reykjavík er framfærið 16 kr. á mann, í Hafnarfirði 10 kr., á Ísafirði 23,5 kr., Akureyri 9,5 kr., Siglufirði 13 kr., Seyðisfirði 10 kr., í Vestmannaeyjum 12 kr.

Meðal-fátækrabyrðin í landinu öllu var eftir þessum útreikningi 10,5 kr. á mann.

Það sjest af þessum tölum, hvernig hefir farið í næsta nágrenni Reykjavíkur. Atvinnan hjer, sem hefir verið vaxandi, hefir dregið frá nágrannasveitum, sumum svo, að þeirra atvinnulífi hefir farið aftur. Og svo hefir það aukið á misræmið, þegar þeir, sem hafa flust úr þessum örpíndu hjeruðum, hafa komist í þröng hjer og þurft að fá fátækrastyrk, þá hafa þeir fallið á framfæri þessara áður örpíndu sveita eftir reglum gildandi fátækralaga. Á þennan hátt hefir framfærslan í einum einasta hreppi í þessari sýslu getað orðið 102 kr. á hvert nef, gamalmenni og börn með talin. Hvað mundi verða sagt, ef sett væri með berum orðum slíkt í lög, sem reynslan hefir sýnt, að lögin hafa skapað, — ef sagt væri, að Bessastaðahreppur t. d. skuli gjalda til fátækraframfærslu 102 kr., svo þessi eða hinn hreppur eina krónu eða minna, eins og raunverulega á sjer stað? Það mundi ekki þolast, að setja slíkt í lög, en það er þá líka óvit að líða þau lög, sem gefa slíka raun.

Jeg geri mjer ekki von um, að það næðist fullkomið jafnvægi, þó að gengið væri að aðaltill. minni, að binda fátækraframfærið við heimilisfangið eitt. En jeg hefi fært líkur fyrir því, að það mundi verða mikið til að jafna þetta misrjetti. Jeg hefi á þingi áður borið fram þessa till., og reynt að gera grein fyrir henni og rjettmæti hennar, en fengið litla áheyrn. Jeg hefi bent á, að fyrst það fyrirkomulag, sem altaf hefir verið frá upphafi, hefir gefið svona raun, þá er að minsta kosti forsvaranlegt að reyna annað fyrirkomulag, sem má færa líkur fyrir, að gæfist betur. Af því að jeg tel ekki líklegt, að áheyrn fáist enn fyrir aðaltillögu mína, þá ber jeg fram varatill. mína, heldur en ekki neitt, af því að jeg álít hana til nokkurra bóta. Að binda fátækraframfærsluna við heimilisfang álít jeg sje það ítrasta, sem hægt er að gera til þess að jafna misrjettið, án þess að afnema alla skiftingu í framfærsluhjeruð. En verði ekki þessi leið reynd, þá get jeg ekki skilið, hvernig hægt verður að standa á móti því að afnema alla skiftingu í framfærsluhjeruð, eins og komið hefir fram till. um. Jeg fyrir mitt leyti treysti mjer ekki til að vera á móti þeirri till., ef ekkert annað er gert til þess að ráða bót á því misrjetti, sem hjer á sjer stað.