20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

45. mál, einkasími í sveitum

Jón Jónsson:

Jeg finn mjer skylt að þakka hv. n. fyrir góða meðferð á þessu frv. okkar, sem jeg vona, að verði til þess að greiða mikið fyrir einkasímum í sveitum. Það er borið fram, eins og hv. frsm. gat um, af því að mikill áhugi er vaknaður fyrir því víða um sveitir þessa lands að fá símasambönd, og að mikill áhugi sje fyrir þessu, kemur ljóst fram á hverjum degi, þar sem altaf drífa yfir okkur beiðnir um nýjar símalínur, og mjer dylst það ekki, að ef þær ná samþykki þingsins, þá muni það hafa mikil útgjöld í för með sjer, og kemur því til álita. hvort sú leið, sem hjer er bent á, er ekki fult svo heppileg sem að taka nýjar og nýjar landssímalínur upp í símalögin.

En hvað viðvíkur þessum brtt. hv. n., þá má segja sem svo, að þær sjeu ekki stórvægilegar, en þó hygg jeg, að þær verði, frekar en hitt, til þess að draga úr því hagræði, sem verða myndi; tel jeg það t. d. að því er snertir fyrri brtt. hv. n. ekki sanngjarnt, að þegar menn eru skyldir til þess að leggja til svona fyrirtækja, þá hafi þeir ekki líka skilyrðislausan rjett til að leggja inn síma frá sjer, á sinn kostnað, frá aðallínunni. Vitanlega getur það af því hlotist, eins og hv. frsm. benti á, að línan verði ofhlaðin, en jeg hafði hugsað mjer, að lausnin yrði sú, að símafjelagið í heild yrði að fjölga línunum, alveg eins og landssímalínum er fjölgað eftir því sem stöðvum á henni fjölgar og notkun vex. Mjer finst, að þetta ætti að vera sömu lögum háð, og því tæpast rjett að samþ. þessa brtt., þótt jeg vilji ekki leggja mikla áherslu á þetta, því að jeg geri ráð fyrir, að víðast hvar myndi greiðast úr þessu og landssímastjóri sjá sjer fært að verða við beiðnum um nýjar innlagningar.

Hvað hinu atriðinu viðvíkur, þá býst jeg við, að það verði frekar til að draga úr þátttökunni, því að geta sveitaheimila er oftast lítil og þau verða að hlífa sjer sem mest við útgjöldum. Það má náttúrlega segja, að það skifti ekki miklu, hvort árgjaldið er fimm eða tíu krónur, en oftast yrði það ekki nema örstuttan tíma á dag, sem heimilið hefði not af sambandinu, því að 3. flokks stöðvar eru ekki opnar nema stuttan tíma daglega, og því ekki rjett, að gjöldin sjeu há. Jeg veit ekki betur en að í kauptúnum, þar sem eru einkalínur, sje gjaldið ekki nema 10 kr. Er þetta þess vegna ekki sanngjarnt, því að. vitanlega yrðu þessi viðskifti í sveitum miklu minni heldur en í kauptúnum landsins, því að jeg geri ráð fyrir samtali á einkalínum án þess að leita til millistöðvar, en í kauptúnum geta menn það ekki, og því hefir hún margfalt starf þar við það, sem verða mundi við einkalínur í sveitum. Þess vegna er tæpast sanngjarnt nema gjaldið þar sje ákveðið mun lægra; hygg jeg, að þingið þurfi ekki að vera mjög hikandi við að veita mönnum þessi hlunnindi, því það mætti vera þakklátt fyrir, að þessar línur kæmust á, þar sem notendur kosta viðhaldið, í stað þess að eiga altaf yfir höfði sjer beiðnir um aukinn línufjölda. Áreiðanlega er því rjettara að vera dálítið ríflegri um tillög til þessara einkasíma. Jeg vildi þess vegna heldur mælast til þess, að hv. deild sæi sjer fært að fella niður, einkanlega seinni brtt. hv. n.