16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í C-deild Alþingistíðinda. (2852)

28. mál, fátækralög

Frsm. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það voru mjög fróðlegar tölur, sem hv. 1. þm. N.-M. (HStef) kom hjer með í ræðu sinni um framfærslustyrk til fátækra manna í hinum ýmsu sýslum og kaupstöðum landsins, en þær tölur ættu að nægja til þess að sannfæra alla hv. þm. um ástæðuna til að jafna niður fátækrakostnaðinum á milli sveitanna.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að aðalástæðan fyrir því, að hann vildi hafa sveitfestitímann sem stystan, væri sú, að þeir, sem flyttu úr Rangárvallasýslu til Reykjavíkur eða Vestmannaeyja, og kæmust þar á vonarvöl, yrðu sýslunni til byrði og hinum einstöku hreppum um megn að leggja þeim framfærslustyrk. Þessi fátækraþyngsli væru alveg að sliga Rangvellinga, og yfirleitt sveitirnar í samanburði við bæina.

En eftir skýrslu þeirri, sem hv. 1. þm. N.-M. las upp áðan, sjest að Rangárvallasýsla er langt fyrir neðan meðaltal að fátækrakostnaði. Þar er fátækrastyrkurinn kr. 6,50 á mann. Í Árnessýslu er fátækrastyrkurinn dálítið fyrir ofan meðaltal, eða 11 krónur á mann, en meðaltal fyrir alt landið er 10 krónur. Ástæða hv. þm. er því ekki sterk, enda vænti jeg, að þessar tölur sannfæri hann um það, að þetta sje ekki svo mjög geigvænlegt fyrir hans sýslu.

Í Vestmannaeyjum er fátækraframfærslan ofan við meðaltal, og hjer í Reykjavík er hún enn þyngri en annarsstaðar á landinu, nema í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Jeg held þess vegna, að hv. þd.-bændur geti með góðri samvisku horfið frá þeirri skoðun, að Reykjavík lifi á kostnað sveitanna, þegar það er sýnt með tölum, að fátækrastyrkurinn hjer er miklu meiri en í sveitunum. Hitt er auðvitað satt, að fátækrastyrkurinn er misjafnlega hár í hinum ýmsu sveitum, enda munu þeir einstakir hreppar finnast, þar sem kostnaður þessi er hærri en í Reykjavík.

Því miður sýnir skýrsla hv. 1. þm. N.-M. ekki meðaltalið í Barðastrandarsýslu. Það lítur helst út fyrir, að þaðan komi engar fátækraskýrslur. Það hefði þó verið skemtilegt að hafa til samanburðar tölurnar úr heimkynni hv. þm. Barð., því að kunnugt er, að vestur þar er engu minna ósamræmi um fátækrastyrkinn en annarsstaðar á landinu. Eins og þessi hv. þm. upplýsti við 1. umr. þessa máls, þá eru tveir hreppar þar sokknir í skuldir, og annar þeirra, Auðkúluhreppur, sjerstaklega illa staddur. (HK: Hann er ekki til í Barðastrandarsýslu). Hann er í nágrenninu.

Hv. þm. Barð. virtist — eins og hv. 2. þm. Rang. — hræddur um, að ef sú leið væri farin, að fátækrakostnaðinum væri jafnað niður á sýslurnar á þann hátt, að tekið væri meðaltal af öllum kostnaðinum, þá mundi fátækrakostnaðurinn yfirleitt verða meiri en nú. En sú hræðsla held jeg að ekki sje á nægum rökum bygð.

Jeg skal ekkert segja um það, hvaða áhrif slík breyting mundi hafa á meðferð fátæklinga yfir höfuð. Þó að segja megi ef til vill, að sumstaðar sje ekki farið beinlínis illa með fátæklinga, þá er og hitt kunnugt, að sú meðferð er ekki yfir höfuð eins góð og hún ætti að vera. En ef stjórnin sæi, að óeðlilegur munur væri á fátækrakostnaði hinna ýmsu sýslna eða hreppa, þá mundi hún eflaust láta það sig skifta og koma með till. til lagfæringa. Það mundu hagsmunir hreppanna eftir sem áður, að hafa fátækraframfærið sem ódýrast, án þess þó að kvelja þurfamenn, og með því að jafna kostnaðinum niður kæmi hann hlutfallslega á hrepp.

Annars vil jeg láta þess getið í þessu sambandi, að frv. það, sem jeg stend að, er óþarft að kalla byltingafrv. Það fer mjög stutt í þá átt, eins og best sjest á því, að aðaltilgangur þess er að jafna fátækrakostnaðinum niður á hagkvæmari og sómasamlegri hátt en nú á sjer stað. En það getur ekki kallast sómasamlegt, að láta suma hreppa verða gjaldþrota af þessum sökum — engin sanngirni í því, að sumir greiði 60 aura að meðaltali, þegar aðrir hreppar verða að greiða alt að 102 krónum að meðaltali á mann. Með slíkum ójöfnuði skil jeg ekki, að hv. þm. Barð. eða aðrir bændur í þessari hv. þd., geti verið. En byltingartilraun í þessum efnum væri það eitt, ef grundvellinum undir fátækralöggjöfinni væri algerlega breytt, svo sem hægt væri að gera með víðtækri tryggingalöggjöf, og æskilegast væri.