16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í C-deild Alþingistíðinda. (2854)

28. mál, fátækralög

2854Hannes Jónsson:

Jeg verð að taka undir með hv. 1. þm. Reykv. (MJ), að skýrsla sú, sem hv. 1. þm. N.-M. las hjer upp, geti á engan hátt orðið til stuðnings brtt. hans á þskj. 84, um að stytta sveitfestitímann niður í 1 ár. Mjer skildist einmitt eins og þeim tveimur hv. þm. Reykv. (HV og MJ), sem síðast töluðu, að skýrslan ætti að sanna það rjettmæti, sem sumir vilja telja, að jafna sveitaþyngslunum niður á hreppana hlutfallslega.

En af því að hv. 2. þm. Reykv. (HV) hjelt lofræðu um þann vísdóm, sem fólginn væri í tölunum í skýrslu hv. 1. þm. N.-M., get jeg þó ekki annað en bent á, að varlega verði að fara með þær tölur í sambandi við þetta mál.

Vil jeg þá fyrst benda á, — sem jeg að vísu geri ráð fyrir að þeir hv. þdm., sem eru bændur, kannist við, — að það er ekki óalgengt til sveita, að ýmsum sje forðað frá því að þiggja af sveit á þann hátt, að efnaðir bændur skifta á milli sín að hjálpa þeim, sem eiga í vök að verjast, og það án þess að sá framfærslukostnaður sje færður í hreppsreikningana. Ástæðan til þess er sú, að til sveita er mörgum óljúft að fara á sveitina, sem kallað er, reyna sjálfir að verjast því í lengstu lög, og því er slík hjálp veitt fremur vegna fólksins sjálfs heldur en að spara hreppnum útgjöld.

Þá má líka benda á, að það er mjög misjafnt, sem borgað er með ómögum til sveita, og er mjer kunnugt um, að það getur numið miklu. T. d. veit jeg um tvo hreppa í sömu sýslu, sem hafa í eðli sínu sömu aðstöðu og sömu ómagatölu. Þó borgar annar talsvert hærri upphæð með sínum ómögum en hinn.

Jeg hygg að sveitarþyngslin hjer í Reykjavík og Gullbringusýslu eigi rætur sínar í því, að hjer sje um meiri þægindi að ræða þurfalingum til handa heldur en fært þykir að veita í sveitunum, án þess þó að illa sje farið með ómaga þar á nokkurn hátt. Jeg hefi heyrt, að ómagar hjer í Reykjavík sjeu svo vel settir, að þeir geti haft reiðhesta til þess að skemta sjer á, geti farið í Bíó og kaffihús og látið fleira eftir sjer, sem þurfamenn til sveita verða að neita sjer um.

Jeg er ekki út á þetta að setja, að því er Reykjavík eða aðra bæi snertir, en hinsvegar finst mjer að svo gæti farið, ef landið yrði gert að einu framfærsluhjeraði og kostnaðinum jafnað niður á hreppana, að það þætti ekki óviðeigandi, að ómagar kaupstaðanna hefðu, auk annara þæginda, bifreið til þess að komast ferða sinna. Sem sagt, ef engin skynsamleg takmörk verða sett fyrir því, hvað þessi sameiginlegi kostnaður megi vera hár, þá geri jeg ráð fyrir, að sveitaþyngslin úti um land fari ekki minkandi frá því, sem nú er. Flest sveitafélög hugsa sem svo, að ástæðulaust sje að draga úr framfærslustyrk, því að ef kostnaðurinn er lágur, þá verða þau að borga til annara sveita.

Þó að hreppur geti sparað 1000 krónur á fátækraframfærinu, hvaða þýðingu hefði það, þegar á að fara deila því á milli allra hreppa á landinu. Hann mundi heldur vilja láta það renna til sinnar eigin sveitar.

Jeg býst við, að hv. 2. þm. Reykv. (HV) sje það mikill hagfræðingur, að hann hugsi eitthvað á þessa leið. (HV: Jeg er ekki svo mikill glæpamaður!) Jeg býst ekki við, að hv. 2. þm. Reykv. myndi telja það glæp, þó þurfalingum í sveitum væri leyfður sami „luxus“ eins og þurfalingum kaupstaðanna, og það engu síður, þó fjöldinn allur af bjargálnamönnum sveitanna verði að neita sjer um hann til þess að hafa ofan í sig og á.

En þó að vitanlegt sje, að löggjöfin verði að stefna í þá átt, að tryggja þurfalingum viðunandi lífskjör, þá verður það þó að gerast án þess að nokkurt óhóf eigi sjer stað. En mín skoðun er sú, að með því að kostnaðurinn sje sameiginlegur, þá sje stigið inn á þá braut, sem ófær muni reynast, vegna hins aukna kostnaðar, sem slíkt myndi hafa í för með sjer.

Þá er ein mikilsverð breyting í þessu frv., að maður, sem þegið hefir sveitarstyrk áður, geti unnið sjer sveitfesti annarsstaðar. En jeg held, að hv. flm. hafi ekki athugað nægilega, að breyta þurfi öðrum ákvæðum fátækralaganna, svo að þetta rekist ekki á og verði til ófarnaðar.

Ef maður, sem fengið hefir sveitarstyrk, verður sveitfastur í öðrum hreppi, er hætt við að sveitarstjórnin í þeim hreppi, sem áður hafði veitt styrkinn, en nú er orðinn laus við framfærsluskyldu mannsins, reyni að innheimta það, sem hún hefir veitt honum áður. Og gæti þá farið svo, að of nærri yrði gengið efnum mannsins og að það leiddi til þess, að hann yrði að fá styrk frá hinni nýju framfærslusveit, sem hann ef til vill hefði komist hjá, ef ekki hefði verið svo hart að gengið.

Nú er víða hagað svo til í sveitum, að sveitarstjórnirnar reyna að glæða sjálfsbjargarviðleitni þurfalinga sinna með því, að láta þá hafa nokkurt fjármagn undir höndum. Við þetta eykst þeim kjarkur, og í flestum tilfellum verður það til þess að draga úr fjárframlögum frá sveitunum. Jeg er ekki í neinum vafa um, að hvaða sveitarstjórn sem er myndi jafn fús til þess að veita slíka hjálp, þó hún ætti á hættu að missa kröfurjett á framlaginu fyrir það, að þurfalingurinn yrði sveitfastur í öðrum hreppi. Það, að losna við framfærsluskylduna, myndi vega fyllilega móti kröfurjettinum, og því sjálfsagt að afnema hann, ef of nærri yrði gengið efnahag þurfalingins með innheimtu skuldarinnar.