16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

28. mál, fátækralög

Gunnar Sigurðsson:

1 Jeg tók það fram áðan, að jeg væri ófús á að hlaupa í skörðin, en nú er svo komið, að jeg get ekki neitað mjer um það. Sjerstaklega get jeg ekki látið hjá liða að svara hv. þm. Vestm. En áður en jeg vík að því, vildi jeg gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. 2. þm. Reykv. Það haltrar dálítið hjá honum röksemdaleiðslan þegar hann byrjar að reikna út sveitarþyngsli einstakra hjeraða í hundraðstölu. Slíkir útreikningar eru eigi einhlítir, því hitt er miklu meira um vert, hvernig gjaldþolið er í hverju hjeraði. Jeg veit t. d., að ef Rangárvallasýsla hefði menn eins og hv. 2. þm. Reykv. eða t. d. Kveldúlfsfjelagið, þá mundu útsvör þeirra sennilega nægja til að greiða útsvör allrar sýslunnar. — Jeg hjelt því fram, að afkoma sveitanna væri svo bágborin, að hún þyldi eigi sveitarþyngsli. Hitt veit jeg líka, að í kaupstöðum eru þau útgjöld hverfandi lítil, sem fara til framfærslu fólks úr sveitunum, mikill meiri hluti rennur til fólks, sem þar hefir verið búsett. Jeg leyfi mjer að vitna til ræðu hv. þm. Vestm. um þetta efni; hann upplýsti það, að innflytjendur úr landsveitunum hefðu allir komist vel af og orðið dugandi menn í hvívetna.

Hv. þm. Vestm. talaði vingjarnlega um þetta mál, en þó fanst mjer hann næstum óþarflega hörundssár, þótt jeg kæmist svo að orði, að austursveitirnar væru eins og á milli vargakjafta, og átti jeg þar við Reykjavík og Vestmannaeyjar, sem árlega draga allan þorra ungra og upprennandi manna úr hjeruðunum. Jeg segi þetta þó alls ekki til þess að lítilsvirða kaupstaði þessa, því jeg veit, að fjöldi þess fólks, sem þangað hefir flutst úr austursveitunum, hefir ef til vill átt þar betri afkomu en í átthögunum. Hv. þm. Vestm. lýsti mína sýslunga hafa reynst dugandi og nýta menn, og þakka jeg honum fyrir þau ummæli. Jeg veit það, að mínir sýslungar hafa alstaðar reynst hinir nýtustu, hvar sem er á landinu, og svo mun og vera um flestar sýslur landsins. Kaupstaðirnir hafi dregið til sín nýtasta fólkið, þ. e. a. s. unga fólkið, úr öllum sveitum landsins. Og með því að viðurkent er, að meginþorri þessa fólks hefir orðið dugandi borgarar, og tiltölulega fáir gefist upp, þá sýnist nokkurnveginn sjálfsagt, að kaupstaðirnir sjái þeim farborða, sem vel hafa dugað, en ekki einungis að taka nýtustu mennina og skila hinum aftur. En það er það, sem andstæðingar þessa frv. vilja gera. Hv. þm. sagði, að jeg væri beiskur í garð kaupstaðanna. Það er ekki rjett, enda unni hann mjer þess sannmælis, að jeg væri sanngjarn. En jeg skil gang tímanna og sje hverju fram fer í minni sveit. Og mjer hefir oft beinlínis runnið það til rifja að sjá konurnar berjast fyrir að ala börnin upp, en svo jafnskjótt og þau eru komin á legg, fara þau til Reykjavíkur eða einhvers kaupstaðanna og koma ef til vill aldrei aftur, en konan situr ein eftir með yngstu börnin eins og þræll. (MJ: Ætli þetta sje nú ekki svo í kaupstöðunum líka). Jú, en ekki í eins stórum stíl, enda mun mæðrunum til sveita meiri þörf á að hafa dætur sínar uppkomnar hjá sjer. Auk þess eiga sveitakonur yfirleitt við afar erfið kjör að búa. (MJ: Svipað og margar konur hafa hjer.) Jeg hefi ekki viljandi talað óvingjarnleg orð í garð Vestmannaeyja, og hv. þm. Vestm. veit það vel, að margir mínir sýslungar þar eru dugandi menn, og fagna jeg því, að svo skuli vera. Geta því ekki stafað af þeim nein óbætanleg sveitarþyngsli fyrir Vestmannaeyjar.

Annars álít jeg það rjettu leiðina, að láta fólkið vera kyrt þar, sem það verður bjargþrota. Kostnaðurinn fyrir sveitirnar við að sjá ómögum fyrir framfærslu þar, sem þeir eru, verður ekkert meiri en ella, og þetta getur líka komið í veg fyrir sveitarflutninginn og þá háðung, sem honum er samfara. Sjálfsbjargarviðleitnin mundi líka fremur vakna, og er það einmitt rjetta leiðin, að reyna að vekja hana hjá þurfalingunum. Veit jeg þess mörg dæmi þar, sem mennirnir hafa fengið að vera kyrrir í sínu gamla umhverfi, að viðleitnin til þess að komast á rjettan kjöl aftur hefir vaknað og aukist hjá þeim.