16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í C-deild Alþingistíðinda. (2857)

28. mál, fátækralög

Halldór Stefánsson:

Það hefir komið fram nokkur misskilningur á skýrslu þeirri, er jeg las upp áðan, og vildi jeg leiðrjetta hann. Hún hefir sem sje verið skilin svo, að hún ætti að vera „absolut“ sönnun þess, hvernig kostnaðinum við fátækraframfærið væri varið, en svo er ekki. Til þess að svo væri, vantaði þann rjetta deilir, en sá deilir er hið virkilega gjaldþol hinna einstöku framfærsluhjeraða. Jeg tók þessvegna þann eina deilir, sem um gat verið að ræða, mannfjöldann eftir manntalinu; hann er að vísu ekki allskostar sá rjetti. Þó skýrslan sje þannig ekki full sönnun þess, hvað mikið misrjettið er, þá sýnir hún þó nægilega, að byrðinni af fátækraframfærslunni er svo ákaflega misskift milli hjeraðanna, að það er með öllu óþolandi. Þá var því haldið fram, að skýrslan sje ekki næg sönnun fyrir rjettmæti brtt. minnar við þetta frv., en hún fer í þá átt, að láta sveitfestitímann vera, ef ekki bundinn við heimilisfang eitt, þá sem allra stystan. Brtt. mín er bygð á þeirri sannfæringu, að hún mundi vinna stóran bug á misfellunum, og hefi jeg áður fært fram þær ástæður, sem þar að lúta. Þær eru í stuttu máli þessar: Fólkið streymir þangað, sem vöxtur og þróun eru í atvinnulífinu, en flýr burtu frá kreppu og vandræðum. Þá er ekki líklegt, að byrðin af fátækraframfærslunni verði þung, þar sem aðstreymið er, að minsta kosti er óhugsandi, að hún verði meiri en í meðallagi. Er þá hróplegt ranglæti þegar það fólk, sem ber upp á sker á slíkum stöðum, sem þróun er og vöxtur, er sent heim í kreppuna og vandræðin aftur, þegar það verður bjargþrota. Þetta er það, sem gert er undir því skipulagi, sem nú er. Jeg vil láta reyna nýtt skipulag til samanburðar við það gamla, sem hefir reynst með öllu óþolandi. Ef menn vilja ekki taka þessu, þá eru til fleiri leiðir út úr vandræðunum, eins og t. d. sú leið, sem kemur fram í frv. því, sem hjer liggur fyrir frá hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræðrum hans.

Það var eins og hv. 1. þm. Reykv. skildi mig svo, að jeg vildi ásaka Reykjavík um það, að fátækrabyrðin væri lang þyngst í nærsveitum hennar. Jeg sagði þetta alls ekki Reykjavík til lasts, heldur er það skipulaginu að kenna og því til ámælis. Get jeg ekki fallið frá þeirri skoðun, að aðsóknin til Reykjavíkur og heimsending þurfalinga þaðan á mikinn þátt í þessu. Reykjavík togar fastast í nærsveitirnar, og þessvegna verða þær harðast úti. Þar verður fátækrabyrðin lang þyngst, enda sker Gullbringu- og Kjósarsýsla sig alveg úr. Þar er byrðin lang þyngst.

Það var tekið fram, að í sambandi við styttingu sveitfestitímans þyrftu hjeruðin að geta sett skorður við innflutningi fólks. Jeg neita því ekki, að svo kunni að fara. En jeg tel, að þær skorður mundu — af eðlilegum ástæðum — ekki verða meiri en holt gæti talist. Ekkert hjerað mundi vilja setja skorður við því aðstreymi, sem því væri þörf á vegna síns atvinnulífs. Viðnámið bitnaði því eingöngu á þeirri aðsókn, sem teljast mætti umfram þarfir. Tel jeg það frá þjóðhagslegu sjónarmiði ekki nema holt og eðlilegt.