20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

45. mál, einkasími í sveitum

Frsm. (Halldór Steinsson):

Það er eiginlega ekki svo mikið, sem okkur ber á milli, hv. 6. landsk. og mjer, en þó telur hv. þm. brtt. n. heldur til hins verra og vildi halda því fram, að breyt. á 10. gr. væri ekki sanngjörn að því leyti, að þeir menn, sem einu sinni væru í þessari samþykt, ættu rjett á að leggja inn síma hjá sjer, hvenær sem þeir vildu, en kannaðist hinsvegar við, að línan gæti orðið ofhlaðin, og taldi það óheppilegt.

Jeg taldi víst, að í hvert skifti, sem lína er orðin fullskipuð tengilínum til einstakra manna, þá myndu ekki vera önnur ráð fyrir hendi, ef fleiri væru, sem vildu nota símann, en að leggja nýjar einkalínur, og það geri jeg ráð fyrir, að landssímastjórinn myndi leggja til í hverju einstöku tilfelli; en það virðist mjer rjett, að hann sje jafnan látinn dæma um, hvort á því sje þörf.

Út af brtt. við 13. gr. taldi hv. þm., að gjaldið, eins og það er ákveðið í frv., væri nægilega hátt, og að þetta tíu króna tengigjald, sem n. leggur til, væri helst til hátt, en um það erum við ekki sammála. Hv. þm. hjelt því fram, að það myndi verða um svo stuttan tíma að ræða á þessum einkalínum, en það getur verið upp og niður. Það er alls ekki víst, að þær heyri undir 3. fl. stöð frekar en 2. fl. stöð, og jafnvel 1. fl. stöð, svo að það er ómögulegt að segja um, hvort fyrirhöfn landssímans verður mikil eða lítil, svo að jeg held, satt að segja, að hvernig sem á þetta er litið, þá geti þetta tíu króna tengigjald alls ekki talist of hátt, sjerstaklega þegar miðað er við tengigjald annara síma á landinu.