16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í C-deild Alþingistíðinda. (2862)

28. mál, fátækralög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Margir hv. þm. hafa fundið ástæðu til að taka hjer til máls, hver fyrir sitt kjördæmi. Jeg fyrir mitt leyti finn þó enga ástæðu til þess að fara að tala fyrir kjördæmi mitt, og mun því tala um málið á öðrum grundvelli, sem sje fyrir hönd þeirra olnbogabarna þjóðarinnar, sem hjer hafa verið bitbein hv. þm. Gamalt máltæki segir: „Þraut er að vera þurfamaður”, og eru mikil sannindi í því fólgin, því um það hefir lengi staðið togstreita, fyrst og fremst á milli fulltrúa þjóðarinnar, og ennfremur milli hinna ýmsu hjeraðsstjórna, hverjir eigi að sjá þeim fyrir lífeyri. Aðallega hefir þó togstreitan verið háð á milli sveitanna og þeirra, sem við sjávarsíðuna búa. Sama togstreitan virðist vera háð nú í þessum umræðum.

Hvað snertir frv. það, sem hjer er til umræðu, þá get jeg tekið undir með þeim, sem telja, að með því sje frekar stefnt til hins verra í þessum málum frá því, sem nú er. Að stytta sveitfestitímann, eins og þar er farið fram á, myndi leiða til þess, að skapa ennþá harðari sókn hjá fátækrastjórnunum um það, að koma af sjer þeim mönnum, sem líkindi eru fyrir, að þyrftu hjálpar af hinu opinbera, en slíkt er alveg á móti þeirri stefnu, sem nú virðist vera að aukast fylgi, að sveitarflutningar hverfi með öllu, því að á undanförnum árum hefir mjög verið reynt að draga úr því, að fólk væri flutt fátækraflutningi, en öll ákvæði, sem leyfa slíkan flutning, þyrftu þó að hverfa úr fátækralöggjöfinni til þess að hún gæti talist mannúðleg. En það er síst í þá átt, sem stefnt er með frv. þessu, þvert á móti er þeirri stefnu gefinn byr undir vængi, að hver hrindi af sjer. Og því til sönnunar vil jeg geta þess, að þegar sveitfestitíminn var styttur úr 10 árum niður í 4 ár, hafði það þau áhrif, að eftirlitið með því, að mjög fátækir menn ílentust ekki hjer í bænum, sem framfærslusveit áttu annarsstaðar, var aukið að miklum mun. Um þetta er mjer vel kunnugt, frá því að vera fátækrafulltrúi í bænum í 5 ár.

Á síðasta þingi kom fram tillaga um að endurskoða þessa löggjöf, en náði ekki samþykki þingsins. En nú eru einstakir hv. þm. að koma fram með ýmsar káktillögur við hana, sem helst er ekki eyðandi tíma í að ræða.

Hv. 1. þm. Reykv. vildi halda því fram, að með frv. þessu væri stefnt að því, að fallast á þá skoðun okkar jafnaðarmanna, að gera landið alt að einu framfærsluhjeraði. Sú stefna á nú reyndar víðar ítök en í mínum flokki. En þar er jeg á annari skoðun. Jeg er viss um, að það myndi verka hið gagnstæða. Það myndi aðeins friða sveitirnar, því að þær myndu losna við framfærslu fátæklinga sinna, og bæirnir fá hana í þeirra stað. Það eru því engar líkur til þess, að fulltrúar sveitanna vildu ganga inn á nokkuð annað síðar í þessum málum. Fulltrúar sveitanna hafa fengið sitt fram og mundu ekki ganga inn á breytingar, er sköpuðu meiri jöfnuð milli landshluta, meira rjettlæti og meiri mannúð í garð þeirra, sem hjálparþurfar yrðu.

Þá hefir verið talað um flutning fólksins úr sveitunum í sambandi við þetta mál, en það hefir ekki verið athugað, að slík leið, sem hjer er um að ræða, myndi ómótmælanlega verða til þess að ýta undir fólksstrauminn til kaupstaðanna, sökum þess að fátækt fólk stendur yfirleitt með þá skoðun, að hægara sje að bjargast áfram í kaupstöðunum en í sveitinni; sjerstaklega mun þessi skoðun nokkuð almenn hjá ómagamönnum. Ennfremur lítur fólk svo á, að betra sje að þiggja hjálp t. d. hjer í Reykjavík en víða til sveita, líðanin verði betri. Hægara að losna við að þiggja, þegar börnin vaxa upp og vinnukraftur eykst. Flestar stoðir renna undir það, að sá, sem er hjálparþurfi, vilji heldur búa í kaupstað en í sveit. Barnamennirnir mundu því engu síður flýja úr sveitunum ef um stuttan sveitfestitíma er að ræða, í von um að geta unnið sjer sveit í kaupstað. En hvað missa sveitirnar þar við? Alla uppvaxandi kynslóðina, er flyst með foreldrinu. Kaupstaðirnir mundu aftur á móti vaka yfir þessum aðfluttu mönnum eins og örn yfir hræi, ef hægt væri að losna við þá áður en þeir yrðu sveitfastir. Slíkt og þvílíkt er að búa til nýjan ófrið í þessum málum.

Hv. þm. V.-Húnv. var að lýsa því, að í sinni sveit væri ljett undir með fátækraframfærslunni með því, að ýmsir efnaðri bændurnir tækju til uppfósturs börn fátæklinganna. Þetta veit jeg að er satt og á sjer víðar stað en í kjördæmi hans. Í sumum hjeruðum á það sjer líka stað, að beinlínis er skotið saman fje til þess að koma fótunum undir fátæklingana, svo að ekki þurfi að sundra heimilum þeirra, og þeir geti haldið áfram að búa sem sjálfstæðir menn. Slíkt ættu sem flest hjeruð að gera, því að það er mannúðlegt, og getur borið tilætlaðan árangur. En hitt er ekki göfug aðferð, og síst til þess fallin að hæla sjer af, að rífa börnin frá foreldrum sínum og senda þau út og austur til ókunnugs fólks. Það er að troða móðurrjettindin undir fótunum, sem engum siðuðum manni er sæmandi.

Þá var þessi sami hv. þm. að tala um það, hve vel og göfugmannlega væri farið með þá fátæklinga, sem styrk þiggja af opinberu fje. Og hv. þm. virtist alveg sjá ofsjónum yfir því. Slíkan hugsunarhátt sem þennan get jeg ekki þolað, og það hjá þjóðarfulltrúa á Alþingi, lítilmenskan er svo óþolandi mikil, sem lýsir sjer í honum. Annars held jeg að þessi hv. þjóðarfulltrúi megi vera rólegur yfir því, að ekki sje, eða hafi verið, látið of mikið í askana hjá þessum olbogabörnum, hvorki hjer í Reykjavík eða annarstaðar. En það er aldrei nema rjett, að fátækraframfærslan hefir verið dýrari hjer syðra en alment í sveitum út um land, og hefir hv. samþingismaður minn, 2. þm. Reykv. (HV), tekið rjettilega fram, af hverju sá munur stafi. Sömuleiðis gaf hann upplýsingar um það, hve miklu hafi verið úthlutað hjer til þurfamanna á dag að undanförnu, og nú hefir sá skamtur verið minkaður, svo að jeg býst ekki við, að nokkur maður með rjettlætistilfinningu geti talið hann of mikinn.

Hv. 1. þm. Rang. hefi jeg ekki miklu að svara. Hann talaði af miklum skilningi og mikilli samúð um kjör sveitakvennanna. Slíkt er tilfinningamál fyrir mjer eins og honum, og þá ekki síður kjör mæðranna, sem búa í kjallaraholunum hjer. Jeg býst ekki við, að þeirra hlutskifti sje betra en systra þeirra í sveitinni. Þær verða að sleppa börnum sínum strax og þau eru orðin sjálfbjarga, út á óhreina götuna, sem ekkert hefir annað að bjóða en ryk og óþrifnað, andlegan og líkamlegan. Þegar börnin geta unnið fyrir sjer, eru þau á bak og burt. Konan er þræll heimilisins frá morgni til kvölds, vantandi öll lífsþægindi, ekki svo mikið að hún fái að njóta náttúrunnar, sem konan í sveitinni getur þó veitt sjer. Er því nokkur munur á kjörum þeirra, að þessu leyti, og hinna, sem í sveitum búa, og geta lofað börnum sínum út á grænar grundirnar, út í ferskt fjallaloftið. Jeg segi ekki með þessu, að kjör sveitakonunnar sje eftirsóknarverð, en þau eru síst lakari en þeirra, er við fátækt búa í kaupstað.

Hv. 1. þm. N.-M. er einn af þeim fáu mönnum hjer í deildinni, sem lagt hafa sig í líma til þess að leggja gott til þessara mála, hefi jeg því ekki mikið til hans að segja. En ýms atriði í ræðu hans voru þess eðlis, að jeg get ekki verið honum sannnála. Reynslan hefir orðið sú hjer í Reykjavík, að þrátt fyrir góðæri hækka framlög til þurfalinga ár frá ári, og margfaldast auðvitað í vondu árunum. Það er því ekki rjett, að framlög til þurfalinga hjer standi í sambandi við það, sem hv. þm. lýsti.

Það er rjett, eins og komið hefir fram hjer í umræðunum, að það er skipulagið, sem á sök á þessu. En skoðun okkar jafnaðarmanna á þessu máli er sú, að ef komið yrði á almennum tryggingum, myndu þurfalingaframlögin hverfa að mestu eða öllu leyti, en fyr ekki.

Hér í Reykjavík er atvinnuleysi tíðasta orsökin til þess, að menn verða að leita á náðir hins opinbera. Aðrar tvær algengustu orsakirnar eru veikindi eða barnafjöldi. Þetta eru höfuðorsakirnar. Og jeg get ekki betur sjeð en að þjóðfjelagið verði að finna nýjar leiðir til þess að gera þessum mönnum lífið ljettbærara. En þá leiðina tel jeg fráleitasta, að skella byrðum einstakra landshluta yfir á aðra, eða láta kaupstaðina bera þær byrðar, er sveitirnar eiga að bera að sínum hluta. Það ber brýna nauðsyn til að endurskoða alla fátækralöggjöfina nákvæmlega, og fari svo, að frv. á þskj. 67 verði felt, býst jeg við, að við jafnaðarmenn komum fram með kröfu um ítarlega endurskoðun fátækralaganna, er lokið sje fyrir næsta þing.