05.03.1929
Neðri deild: 14. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Flm. (Jón Ólafsson):

Það er hart að þurfa að eiga orðastað við þá menn, sem ekki hafa minsta vit á því, sem þeir eru þó að burðast við að þemba gúlana um; menn, sem forðast eins og heitan eld að koma nærri kjarna málsins, en láta móðan mása um alla heima og geima; menn, sem vaða rakalausan elginn sýknt og heilagt og hafa ekkert annað fram að færa en staðlausa stafi og stóryrði. Það er hart, segi jeg, að vera neyddur til að eiga orðaskifti við þá menn um atvinnumál, sem skortir alla þekkingu á þeim, og hafa ekki meira vit en það, að þeir grípa til þeirra örþrifaráða að ræða slík alvörumál með þeim æsingum og gauragangi að slíks eru fá dæmi.

Og jeg verð að bæta því við, að það er raunalegt, að slíkt skuli geta komið fyrir á sjálfu löggjafarþingi þjóðarinnar, að hrúgað sje saman öðrum eins fádæmum af rangfærslum og sleggjudómum, eins og þessir æsingamenn leyfa sjer að gera, og það í jafn alvarlegu máli og því, sem hjer er á dagskrá, sem segja má um, að sje mál allrar þjóðarinnar.

Hv. 2. þm. Reykv. (HV) byrjaði ræðu sína á því að flytja þau skilaboð frá alþýðu þessa bæjar. — og víst víðar frá eftir því sem mjer skildist síðar á honum — að alþýða eða verkamenn væru þegar staðráðnir í að mótmæla þessum þrælalögum, er hann svo nefndi.

Það er nú ekkert nýtt að heyra af vörum þessara manna, að alþýða mótmæli hinu og þessu, sem leiðtogarnir eru ekki ánægðir með. Það er gamla sagan, sem endurtekur sig í hvert sinn og eitthvað það kemur fram, sem alþýðuforsprakkamir eru smeykir við að geti orðið til þess að hnekkja valdi þeirra. Þeir ganga þess svo sem ekki duldir, þessir æsingamenn, að þeirra pólitíska afkoma byggist á því að blása sem mest að ófriðareldinum.

En ef hv. 2. þm. Reykv. hefði gert sjer far um að kynna sjer hljóðið í verkamönnum, er mjer nær að halda, að skilaboðin hefði orðið á annan veg. Jeg hefi sannfrjett, að skömmu eftir að frv. þetta kom fram, hafi það borið á góma á milli verkamanna, sem voru að vinna niður á hafnarbakka, og þeir látið þau orð falla, að það væri mjög gleðilegt að frv. eins og þetta væri fram komið. Því fer líka betur, að margir verkamenn eru farnir að skilja kúgunarráðstafanir forsprakkanna og gera sjer ljósari grein fyrir hinum örlagaríku afleiðingum verkfallsbölsins. Þessvegna gleðjast verkamenn yfir hverri tilraun, sem gerð er til þess að leysa af þeim þær viðjar, er forsprakkarnir hafa hnept þá í, og lýsa ánægju sinni yfir því, að frv. eins og þetta skuli borið fram. Svona er nú hugur verkamanna undir niðri. (HV: Hvernig var það á Bárufundinum um daginn?). Þeir hafa sýnt það oftar en þá, þessir alþýðuleiðtogar, að það er auðvelt að hóa saman „kommúnistum“ og allskonar ungviði til þess að samþykkja hitt og þetta foringjunum í vil. Og svo eru þessir menn að tala um þurftarlaun. Hv. þm. Ísaf. (HG) talaði með miklum fjálgleik um það, að alstaðar skorti mikið á, að verkamenn eða alþýða yfir höfuð hefði það, sem hann kallar þurftarlaun. En hvenær hafa atvinnuvegir þjóðarinnar verið það öflugir, að þeir hafi betur fullnægt því skilyrði um það, sem kalla mætti þurftarlaun sjómanna, heldur en einmitt togaraútvegurinn? Þetta sýnir best, hvað þessir menn þekkja nauðalítið til atvinnulífs þjóðarinnar.

Hefðu þeir fylgst með framförum þjóðarinnar síðastliðin 30 ár og reynt að glöggva sig á þeim mörgu umbótum, sem orðið hafa á lífskjörum einstaklinganna, þykir mjer sennilegt, að þeir mundu hugsa sig tvisvar um áður en þeir heimtuðu að kyrkt væri þegar í fæðingunni hver sú tilraun, sem til bóta mætti verða og framfara á atvinnusviði þjóðarinnar. Þó að jeg sje sannfærður um, að við sjeum það langt komnir með togaraútveginn, að lengra verði ef til vill ekki komist, þá er það ófyrirgefanlegt hermdarverk að kreppa svo að honum, að hann verði að draga saman seglin eða leggjast í rústir.

Annars er hv. 2. þm. Reykv. hvorki eins hreinskilinn nje opinskár og fjelagi hans, hv. þm. Ísaf. Hann dró enga dul á það, að bak við mótmælin gegn frv. væri vitanlega ekkert annað en þessi mikla draumsýn þeirra forsprakkanna, sem þeir kalla einu nafni þjóðnýtingu. En þessu þorði ekki hv.,2. þm. Reykv. að stynja upp, og eflaust af skiljanlegum ástæðum.

Ef hægt væri að ræða við þá um málið á þessum grundvelli, þá horfir það alt öðru vísi við. Sje það markmiðið að breyta því þjóðskipulagi, sem nú er, en taka upp þjóðnýtingu á öllum sviðum atvinnulífsins, þá má segja, að með frv. sje slegið úr höndum þessara manna eina vopnið, sem þeir hafa til þess að knýja fram þjóðnýtingu, en það eru verkföll og allar þær hörmungar, sem þeim fylgja.

Mjer hefir skilist, að þessir hv. þm., og jafnaðarmenn yfir höfuð, væru mótfallnir styrjöldum. En hvers vegna vilja þeir þá halda uppi þeirri styrjöld, sem að margra reynslu getur haft óteljandi hörmungar, fátækt og vesaldóm í för með sjer? Mjer er það með öllu óskiljanlegt, að þessir menn, sem þykjast með fagurgala sínum vera að hefja mannfólkið á hærra stig, skuli jafnhliða berjast fyrir því, að leiða yfir þjóðina annað eins böl, sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja öllum verkföllum og atvinnustyrjöldum, er ekki verða stöðvaðar þegar í upphafi.

Það er fjarri mjer að neita því, að verkamenn hafi rjett til þess að verðleggja vinnu sína. Enda er sá rjettur að engu skertur með þessu frv. Jeg viðurkenni líka, að samtök verkamanna um launakjör sín eiga fullan rjett á sjer á meðan þau fara ekki út í neinar öfgar. Samtök verkamanna í þessum bæ eru líka eldri en stjórnmálaferill hv. 2. þm. Reykv. Þau samtök hafa að mörgu leyti orðið verkamönnum til hagsbóta, en það var áður en þessi hv. þm., illu heilli, hófst til valda. Síðan hann og aðrir hávaðaseggir og æsingamenn fóru að vasast í málum verkamanna hafa óeirðir og æsingar verið daglegt brauð, en minna um góðan árangur verkalýðnum til handa.

Hv. þm. Ísaf. rjeðst með offorsi á frv. og hafði margt við það að athuga. Það má vel vera, að lagfæra megi frv., enda munum við flm. geta fallist á allar þær breytingar, sem að okkar dómi miða til bóta, eða á einhvern hátt stuðla að því, að frv. nái betur þeim tilgangi, sem fyrir okkur vakir. En hitt er hreint og beint rangfærsla hv. þm„ að við höfum felt sumt það niður úr norsku lögunum, sem standa hefði átt í þessu frv. Við höfum reynt að sníða frv. eftir því sem okkur hentar best. En hitt er satt, að við höfum með vilja felt niður alla þátttöku ríkisstjórnarinnar í þeim samningum, sem frv. nefnir. Jeg hefi aldrei heyrt þessa hv. þm. róma konungsþátttöku í þjóðarmálefnum. En nú bregður svo við, að það er eins og slept hafi verið kjörgrip, þar sem við höfum ekki sett ákvæði um þátttöku eða bein afskifti frá „hærri stöðum“. Í Noregi er svo um hnútana búið, að konungur útnefni fasta menn í dóm, til þess að gera út um slíkar deilur. Þykir nú mótstöðumönnum þessa lagafrumvarps sem þess hafi ekki verið gætt, að hafa slíka persónu til þess að skapa festu um niðurstöðurnar.

Hv. þm. Ísaf. finnur það frv. þessu til foráttu, að það sje óákveðið og óskýrt í allmörgum atriðum, t. d. 2. gr. Grein þessa má ef til vill orða öðruvísi, en tæplega svo, að betur fari. 2. gr. fjallar einungis um það, að ef rofinn er dómur eða vinnusamningur, þá skerst dómstóll þessi í leikinn, ef ekki rætist úr á annan hátt. Jeg á hjer við dóm samkvæmt þessum lögum, og vinnusamning, sem undirskrifaður er af sáttasemjara, skv. lögum frá 1925. Þetta er nú hlutverk vinnudómsins, fyrst og fremst (HG: Má gera verkfall eftir dóminn?), og kveður greinin skýrt og eindregið á um verksviðdómsins. Að vísu verður aðiljum, hvorum um sig, tæplega bannað að draga sig í hlje, eða draga saman seglin, ef atvik og kringumstæður heimta. (HG: Eru verkföll þá leyfileg? — Forseti: Ekki samtal! — HG: Jeg svaraði samstundis öllum fyrirspurnum, sem þessi hv. þm. bar fram undir ræðu minni áðan, óátalið af hæstv. forseta.)

Þá spurði hv. þm. Ísaf., hvað alment væri átt við með orðinu verkbann. Vildi hann halda því fram, að hugtakið verkbann næði t. d. yfir það, þegar fyrirtæki væri stöðvað, eftir að samið hefði verið um kaupgjald. Þá vil jeg, í þessu sambandi, spyrja hv. þm., hvort hann áliti það samningsrof eða verkbann af hálfu þess sveitabónda, sem ráðið hefir til sín kaupafólk fyrir ákveðið kaup, en sjer sjer, eftir atvikum, ekki fært að halda slætti áfram fram á veturnætur. Varla myndi alment svo álitið, enda nær kaupgjaldssamningur venjulega aðeins til þess, sem vinnuveitandi lætur vinna, en leggur honum hinsvegar enga kvöð á herðar, um að halda áfram lengur en honum er hagkvæmt atvinnu sinnar vegna. T. d. myndi sá, er rjeði menn til að byggja hús, eigi skyldugur til að halda áfram í það óendanlega að byggja ný og ný hús, einungis vegna hins upphaflega samnings. Hjer er því um algerðan misskilning að ræða hjá hv. þm. Ísaf., og er slíkt reyndar ekki óvanalegt hjá þeim manni. Með frv. þessu eru engar hömlur lagðar á atvinnufrelsi manna, og er því bæði vinnuveitendum og verkamönnum bæði rjett og skylt að haga atvinnu sinni eftir því, hvað heppilegast er í hverju einstöku tilfelli. Sami hv. þm. er þess fullviss, að ef þessi lög ná fram að ganga, þá sje þar með úti um vinnufriðinn í landinu fyrir fult og alt. Enginn skyldi þó ætla, að slík ummæli hafi fallið vegna umhyggju fyrir vinnufriðnum, heldur er hjer um blekking að ræða. Fátt er öllu ver sjeð úr herbúðum þessa hv. þm. heldur en einmitt vinnufriðurinn. Þessi hv. þm. er nógu hygginn á sviði æsinga til þess að sjá það, að vinnufriðurinn er einmitt hinn mesti Þrándur í Götu áhugamála hans og flokksmála. Fyrir hópnum vakir undir niðri það eitt, að ryðja þjóðnýtingarkenningunni braut, og því er vinnufriðurinn honum þyrnir í augum. Þeir svífast þess ekki að stofna atvinnuvegunum í beinan háska eða jafnvel leggja þá í rústir, til þess að undirbúa akurinn undir þjóðnýtinguna. Þetta er nú það, sem fyrir þessum hv. þm. vakir og flokksmönnum hans, þótt þeir í þessu máli vilji láta líta öðruvísi út.

Má vera, að þeir ógæfutímar renni upp yfir þessari þjóð, að þessir menn sjái vonir sínar rætast, en þó verð jeg að treysta á drengskap og heilbrigðan skilning alls þorra manna hjer á landi, til þess að hefta för slíkra manna og stemma stigu fyrir vitfirringu þeirri, er þeir vilja láta skipa öndvegið í íslenskum atvinnumálum og þjóðmálum. Öllum almenningi dylst það tæpast lengur, að það, sem rekur menn þessa til slíkrar iðju, er að langmestu leyti vonin um að geta síðar hirt þær tekjur, er nú renna í vasa atorkumannsins, og sem virðist vaxa þeim svo mjög í augum. Þetta kom greinilega fram í ræðu hv. þm. Ísaf. Honum blöskrar, hvað útgerðarmenn græði á atvinnurekstri sínum, og hann reynir að láta líta svo út sem sá gróði sje ranglega af sjómönnum tekinn, og að útgerðarmenn lifi þannig á vinnu og erfiði annara. Þessi gersamlega rakalausu ummæli koma úr hörðustu átt, því þessum hv. þm. hefir hingað til ekki verið sjerlega óljúft að lifa á öðrum, og ferst honum því síst að viðhafa stór orð. Verð jeg að segja það, að óskammfeilnin gengur þá helst til langt, þegar hv. þm. Ísaf. leyfir sjer að viðhafa slík orð, hann, sem af flestum er viðurkendur að vera ein gráðugasta beinahít þessarar hv. deildar, og það þó ekki að mjög miklum maklegleikum, hvað hæfileikana snertir.

Þá segir þessi sami hv. þm., að verkföllin þroski verkamennina. Jeg held, að þetta sje sagt gegn betri vitund, en þó má þetta að nokkuru leyti til sanns vegar færa. Jeg er þess fullviss, að nýafstaðið verkfall hefir þroskað verkamenn og lokið upp augum þeirra fyrir mikilsverðum staðreyndum. Þetta mun sannast á því, að næst munu þeir hugsa mál sitt með meiri stillingu og sanngirni, þegar reynt verður að koma á verkfalli, í stað þess að láta stjórnast af fáum æsingamönnum. Verkalýðurinn hefir hinsvegar beðið stórkostlegt fjárhagslegt tjón af verkfallinu, og mun það minst taka 2 ár fyrir verkamenn að vinna upp þann halla, sem þeir hafa orðið fyrir, vegna hinnar óheppilegu ráðsmensku hinna svokölluðu leiðtoga þeirra. Fer ekki hjá því, að slíkar óheillaaðfarir færi verkamönnum heim sanninn um margt, sem betur mætti fara. Ennfremur heldur sami hv. þm. því fram, að ef frv. þetta næði fram að ganga, myndu sjómenn fyllast beiskju og kala til þeirra manna, er frumkvæði ættu að þessari lagasetningu og einkum hefðu lagt henni lið sitt. Þetta er ákaflega mikill misskilningur, því að það þori jeg að fullyrða, að a. m. k. þeir 2/5 hlutar sjómanna, sem við síðasta verkfall voru blátt áfram þvingaðir til að vera vinnulausir, muni taka frv. þessu opnum örmum. Þá langar ekki til þess, að eiga sífelt yfir höfði sjer að verða ofurseldir nokkrum æsingamönnum og neyddir til að hætta vinnu um aðalbjargræðistímann og horfa upp á konur sínar og börn líða skort og hungur; og mjer er ekki með öllu grunlaust, að margir þeirra ungu manna, sem forkólfunum tókst í þetta sinn að æsa upp til að skapa meiri hl., muni síðar, þegar líkt stendur á, hugsa sig um tvisvar áður en þeir leggja út í annan eins bardaga og nú er nýafstaðinn.

Hv. meðflm. minn, þm. Borgf. (PO), hefir skýrt frv. í einstökum atriðum, og þ. á m. leiðrjett misskilning hv. þm. Ísaf., sem er samskonar og kom fram á einum svokölluðum borgarafundi hjer

í bænum fyrir skemstu. Er engu líkara en hv. þm. hafi fengið þennan misskilning að láni, vísvitandi. Hann tekur 10. gr. frv. og setur í samband við önnur lög, en greinin fjallar einungis um sig sjálfa, hvað sektarákvæðunum viðvíkur. Jeg vildi því, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp þessa gr., til frekari skilnings hv. þm. Ísaf. Greinin hljóðar svo:

„Aldrei má gera verkbann eða verkfall áður en deilumál þau, er í lögum þessum segir, koma til aðgerða sáttasemjara. Svo er og bannað að gera verkbann eða verkfall meðan sáttatilraunir sáttasemjara eða dómsmeðferð samkvæmt lögum þessum stendur yfir.

Brot gegn ákvæðum greinar þessarar varða sektum í ríkissjóð, 500–10000 kr. og auk þess skaðabótum eftir almennum reglum.

Sektir má innheimta með aðför í eignum hinna seku.“

Þetta er þá alt og sumt, sem misskilningnum hefir valdið, þeim misskilningi, að öll lögin væru háð þessari einu grein. Þegar svo skýrri grein er snúið við, hverju má þá búast við um aðrar gr. óskýrari.

Bæði hv. 2. þm. Reykv. (HV) og hv. þm. Ísaf. (HG) eru á einu máli um, að dómum eftir þessu frv. yrði ekki hlýtt. Hreint aukaatriði að lýsa slíku yfir hjer. Alþingi er einungis með þessu frv., að gera tilraun til þess að koma í veg fyrir, að slíkt brjálæði sem verkföll og verkbönn nái að verða atvinnuvegum vorum að fótakefli í framtíðinni. Hinsvegar dettur engum í hug, að þeir menn, sem nú eru áhrifamestir innan vjebanda verkalýðsfjelaganna hjer á landi, muni láta dóma og niðurstöður þessa umrædda vinnudóms í friði, heldur munu þeir að sjálfsögðu gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til að sporna við því, að lögin nái tilgangi sínum á þessu sviði. En öll alþjóð manna er svo sanngjörn og löghlýðin, að hún mun allsendis ófús á að raska ákvæðum dómsins, að þeim upplýsingum fengnum, sem 8. gr. ræðir um. Og jeg hefi ekki þá trú, að sumir af þeim, sem nú kalla sig leiðtoga alþýðunnar, muni síðar meir hafa slíkt vald, sem þeir að undanförnu virðast hafa haft, til óheilla og skaðræðis fyrir hina vinnandi stjett í heild, ef einungis unnið er að umbótum á sviði kaupdeilumálanna á þeim heilbrigða grundvelli, sem með frv. þessu er lagður. Æsingar forkólfanna ganga einkum út á það, að vekja tortrygni hjá verkamönnum, með því að halda að þeim því, að atvinnurekendur stórgræði og sjeu því færir um að gjalda hærra kaup. 8. gr. frv. veitir öllum aðiljum tækifæri til að vita hið sanna og rjetta um það. Og forkólfarnir vita það reyndar ósköp vel, að hinn meiri háttar atvinnurekstur, t. d. togaraútgerðin, hefir alls ekki grætt að undanförnu. Um það bera og skattskýrslur órækt vitni.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að sinni. Aðeins vil jeg að endingu taka fram, að hv. þm. Ísaf. farast næsta ódrengilega orð í sambandi við það, að við vildum ekki greiða ½% af ísfisksafla til háseta. Hann segir beinlínis, að slíkt væri heppilegt og hagkvæmt vegna þess, að þá myndu sjómenn skemma minna af aflanum eða eyðileggja. Hjer dregur hv. þm. upp helst til dökka mynd af hinni íslensku sjómannastjett, og get jeg af eigin reynslu vitnað það, að slíkt er með öllu tilhæfulaust og rakalaust. Hefi jeg aldrei orðið þess var, að kaupa þurfi trúmensku þeirra, og eru því slíkar aðdróttanir ódrengilegar og að ósekju gerðar. Að vísu hefir verið reynt að ala á ótrúmensku og ómensku meðal þeirra, en það verð jeg að segja sjómönnum til verðugs hróss, að enn sem komið er, hafa þeir látið það hjal leiðtoganna sem vind um eyrun þjóta, og í engu svikist undan skyldum sínum. En tilgangur þessa hv. þm. er alls ekki sá, að bæta kjör hásetanna með þessu ½%, heldur hitt, að ef sjómenn hefðu þannig hlutdeild í aflanum, myndu æsingamennirnir fá tækifæri til þess að koma því inn hjá þeim, að útgerðarmenn stælu af aflanum, og gætu þeir því á þennan hátt eyðilagt alla friðsamlega samvinnu beggja aðilja. Gæti og þetta komið sjer vel fyrir blöðin, a. m. k. sum þeirra. Hv. þm. Ísaf. stendur fyrir einu slíku blaði, og er það ljóst, að slíkur er tilgangurinn, enda hefir það greinilega sannast, að slíkir menn sem hv þm. Ísaf., bera ekki hag alþýðunnar fyrir brjósti, þegar í nauðirnar rekur.