05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vil leyfa mjer að þakka hæstv. forsrh. fyrir góðar undirtektir undir málaleitun mína og hv. þm. Ísaf. viðvíkjandi því, að menn, sem búa í kauptúnum og hafa ekki landbúnað að aðalatvinnuvegi, geti einnig átt aðgang að þessum lánum eða öðrum svipuðum. Vona jeg, að hægt verði nú á þinginu að koma þessu í kring, annaðhvort með breytingu í hv. Ed. á sjálfu frv. um Landbúnaðarbanka eða öðrum sjerstökum ákvörðunum.

Hæstv. ráðh. tók einnig vel í það að gera ráðstafanir til þess að ljetta undir með bátaútveginum. Úr því að hann gerði það, sje jeg heldur ekki ástæðu til að greiða atkv. með brtt. n. Jeg tel það betri lausn á málinu, að hver atvinnuvegur hafi lánsstofnun út af fyrir sig.

Hv. frsm. bar það á mig, að jeg vildi halda uppi ríg milli sveita og kaupstaða. Þetta er ekki rjett. En því verður ekki með sanngirni neitað, að nú á síðustu þingum gengur öll löggjöfin svo að segja út á það að bæta kjör sveitanna. Mjer hefir virtst, að bæði Framsóknar- og Íhaldsflokkurinn ljeti sjer minna umhugað um sjávarþorpin og þeirra hag. (LH: Hefir hv. þm. gleymt Ísafirði?). Það er rjett, að þingið varð vel við óskum Ísfirðinga, en það kostaði heldur engin fjárútlát úr ríkissjóði. En jeg vil vænta þess, að það taki nú vel í þau mál, sem borin eru fram kauptúnunum til hagsbóta, og vil jeg þá sjerstaklega tilnefna frv. um verkamannabústaði.