06.03.1929
Neðri deild: 15. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í C-deild Alþingistíðinda. (2900)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Ólafur Thors:

Það er búið að ræða svo mikið um þetta mál, að það er að ofreyna þolinmæði deildarinnar að fara að halda langar ræður. Jeg skal því reyna að vera ekki um of fjölorður.

Það er í alla staði eðlilegt, að mál eins og þetta valdi deilum á meðal manna. Jeg geri ráð fyrir, að þetta frv. sje mikið flutt vegna þeirra atburða, sem hjer hafa gerst síðustu mánuðina. Við höfum búið við vinnufrið í stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar, togaraútgerðinni, þrjú undanfarin ár, þar til um áramótin síðastliðin, að sundur sleit, og verkfallið braust út. Var það ægilegra en nokkurt verkfall hjer á landi áður og stóð í tvo mánuði. Jeg held, að jeg geti sagt það af þekkingu minni á þessum málum, að framtíðarhorfurnar eru ekki friðvænlegar. Jeg hefi átt sæti í flestum, ef ekki öllum, þeim nefndum, sem starfað hafa að kaupgjaldssamningum af hálfu útgerðarmanna, frá því að „Fjelag íslenskra togaraeigenda“ var stofnað, og mjer er óhætt að segja, að samningaleiðin er að verða æ torsóttari og torsóttari.

Jeg hefi gaman af að segja frá því, hvernig þessir samningar ganga fyrir sig, sjerstaklega sá síðasti. Venjan hefir verið sú, að báðir aðiljar bera í upphafi fram aðrar kröfur en þeir ætla sjer að ganga að, og leiðir þetta óhjákvæmilega til þess, að miklu seinna gengur saman en ella myndi. Áður en síðustu samningaumleitanir byrjuðu, snjeri jeg mjer því til formanns „Sjómannafjelags Reykjavíkur“, hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ), og bað hann að reyna að hindra þennan skrípaleik og stuðla að því, að sjómennirnir settu ekki fram hærri kröfur en þeir ætluðu að standa á. Jeg hjet því á móti að vinna að því, að útgerðarmenn gerðu hið sama. Þá varð jeg að fara af landi burt og er jeg kom heim aftur frjetti jeg, að kauphækkunarkrafan nam 50–60%.

Nú vita það ef til vill fáir, að hjá verkalýðsfjelögunum er það venja, að úr hópi þeirra manna, sem semja á fyrir, er kosin nefnd til þess að standa á bak við sjálfa samninganefndina, og reyndin er sú, að þeir, sem hæst spenna kröfurnar, ráða því, hvaða kröfur koma opinberlega fram. Þegar búið er að birta kröfurnar, byrjar sóknin í Alþýðublaðinu. Það bölsótast yfir tilraunum „maurapúkanna“ til þess að taka brauðið frá móðurinni og barnamunninum, og talar í æsingatón um þýðingu þess, að alþýðan standi nú saman, svo að hún fái hinum „sanngjörnu“ kröfum sínum framgengt. Auk þessa eru svo einstakir menn úr hópi útgerðarmanna teknir fyrir og hrakyrtir og níddir niður fyrir allar hellur. Þessi söngur kveður við látlaust á meðan setið er við samningaborðin, og þegar samningamennirnir loksins eru orðnir sammála, eiga fulltrúar verkamanna að boða til almenns fundar og segja: „Já, nú viljum við semja upp á þetta.“ Það er full von til þess, að verkamennirnir reki upp stór augu, þegar þeir sjá, að nú á að semja upp á miklu minna en áður var talið rjettlátt, sjálfsagt og mögulegt. Það er eðlilegt að þeir spyrji: „Hvernig stendur á þessu?“ Og þá er komið að höfuðókostinum í þessu fyrirkomulagi. Enginn hefir kjark í sjer til þess að standa upp og segja: „Hingað komumst við og ekki lengra.“ Og það er ef til vill vorkunn. Þeirra hópur er svo sundurleitur, að þeir geta átt von á því, að einhver standi upp, reki rýtinginn í bak bróður síns og segi: „Hver hefir nú keypt þig? Hefirðu látið auðvaldið múta þjer?“ Með þessu er jeg ekki að hallmæla neinum persónulega, en að eins að sýna fram á, að með þessu móti verður erfiðara og erfiðara að ná samkomulagi. Jeg vil geta um það, að samningsaðiljar sjómanna í síðustu kaupdeilu ljetu það aldrei opinberlega í ljós, að þeir vildu ganga inn á minna en 50–60% kauphækkun. En þeir gengu að 15% kauphækkun, þegar hæstv. forsrh. (TrÞ) skarst í leikinn.

Um það þarf ekki að deila, að tapið af síðustu kaupdeilu hefir numið miljónum króna fyrir þjóðfjelagið. Og það var hending ein, að það ljek ekki á tugum miljóna. Enginn er hjer kominn til að segja, að þetta geti ekki komið fyrir aftur, ef engar tilraunir eru gerðar til að ráða bót á þessu meini. Jeg vil því taka undir með þeim sem segja, að það verði að ráða bætur á þessu ástandi. Ýmsar úrlausnir hafa komið fram. Ritstjóri Tímans hefir haldið fram „lögþvingaðri samvinnu“. Bæði Vörður og Alþýðublaðið hafa reynt að fá skýringu á þessu, en enga fengið — af þeirri einföldu ástæðu, að maðurinn veit ekki, hvað hann meinar. Hann hefir eitthvert óljóst hugboð um það, en svo ekki meira. Jeg get gengið inn á það, að í framtíðinni verði komið á hlutaskiftum á togurunum, en það á langt í land og verður aldrei framkvæmt með lagaboði. Annars er það að segja, í sem stystu máli, um þessar till. Tímans, að þær eru helber vitleysa.

Sú leið, sem jafnaðarmenn vilja fara í þessu máli, er þjóðnýtingin. En það er hvorttveggja, að hv. deild er henni yfirleitt andvíg, og jafnvel hefir hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) lýst yfir því, að sú leið liggi ekki fyrir í bili. (SÁÓ: Það er af því, að jeg treysti ekki hv. 2. þm. G.-K. til að standa fyrir fyrirtæki, sem hann er andvígur.) Það er ekki rjett hjá hv. 1. þm. Reykv. að gera svona mikinn og merkilegan mann úr mjer, að þessi himnaríkissæla jafnaðarmanna strandi á því einu, að jeg fæst ekki til að standa fyrir rekstrinum. Það virðist svo, að jeg sje altaf að vaxa í augum ykkar jafnaðarmanna. Jeg er sannast að segja farinn að óttast, að jeg springi bráðum af þessu oflofi ykkar. En einhver ráð verður að hafa í þessu máli, og það er af því, að mjer er fullkomlega ljós nauðsyn þess, að jeg get fallist á þá uppástungu, sem hjer er lögð fram um gerðardóm.

Jeg tek það fram, að jeg vil ekki tala um einstakar gr. þessa frv., nje heldur benda á þá galla, sem á því kunna að vera, heldur aðeins þá hugmynd, sem fyrir mjer mundi vaka með því að samþykkja slíkan gerðardóm, og jeg treysti mjer til að klæða þá hugmynd í þann búning, að hún yrði tvímælalaus, og tel jeg að ekki þurfi miklar breytingar að gera á því frv., sem hjer liggur fyrir. Hugmyndin er þá þessi, að þegar svo er komið, að samningaleiðin er þrautreynd milli aðilja — þegar sáttasemjari stendur ráðþrota — þegar þjóðarbölið blasir við, þá sjeu tilkvaddir nokkrir sanngjarnir, óvilhallir menn, og látnir dæma í málinu.

Á þessa hugmynd er nú ráðist frá tveim hliðum. Sumir segja: Þetta er gagnslaust. Aðrir segja: Þetta er kúgun, tugthúslög, ofbeldi; það segir m. a. hv. þm. Ísaf. (HG) og ber í borðið svo að þeir, sem næstir sitja hoppa upp í sætunum. Ef það eru þrælalög, þá má kannske nefna þau svo af því, að þau leysa verkamenn og sjómenn úr þeim þrælaviðjum, sem leiðtogar þeirra hafa lagt þá í.

Rök jafnaðarmanna gegn frv. þessu er ákvæði í stjórnarskránni um friðhelgi eignarrjettarins, sem þeir eru nú alt í einu farnir að tala svo mikið um, og er nýtt að heyra það. Þeir segja sem svo: Í þessu þjóðfjelagi eru nokkrir menn, sem eru ríkir. Þeir eiga framleiðslutækin. Svo eru þar margir menn, sem eru fátækir. Þeir eiga ekkert nema starfsorku sína, og nú á með þrælalögum að taka af þeim umráðarjettinn yfir henni. Þetta eru þeirra rök. En jeg vil benda á, að það er ýmislegt við þetta að athuga. Í fyrsta lagi það, að verkamenn eru ekki einráðir um þessa vinnusölu sína, og ef við tökum síðasta dæmið, sem fyrir hefir komið hjerna, þá er það svo, að 320 manns úr Sjómannafjelaginu segja: Við viljum ekki samþykkja þessi kjör, en 200 manns segja: Við viljum samþykkja þau. Og svo standa fleiri hundruð eyrarvinnumanna, sem vilja vinna, aðgerðarlausir, fá ekki að vinna, af því að þessir 320 kúguðu hina. Og hverjir eru það svo, sem ráða atkv. þessara 320 manna? Það eru þeir hv. þm. Ísaf. (HG) og hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ). Þeir væru sannarlega áhrifalitlir, ef þeir gætu ekki með ræðum sínum talið sjómennina á sitt mál, því hvað er eðlilegra en að sjómenn taki eitthvert tillit til þeirra manna, sem þeir hafa valið til að vera sína málsvara? Og hvað er það þá, sem þessir menn hafa sagt? Þeir hafa sagt: Semjið ekki, af því að þið getið fengið hærra kaup, ef þið semjið ekki strax. Með þessum hætti ráða þeir úrslitum atkvæðagreiðslu í kaupdeilunum, ráða því, að 320 talhlýðnir menn kúga 200 stjettarbræður og mörg hundruð — jafnvel þúsund aðra verkamenn.

Jeg skal ekki neita því, að þessi dómur, sem hjer er farið fram á að ráði þessum málum til lykta, er talsverð þvingun. En mundi nú verkamönnum verða tap að dóminum? Ef við höfum hliðsjón af seinustu deilunni, þá er árangurinn sá, að verkamenn eða sjómenn hafa tapað, jeg hugsa að meðaltali 1000 kr., en þeir hafa fengið kauphækkun, sem nemur yfir samningstímabilið 500 kr. Tapa þeir því svo miklu, að þeim hefði verið betra, jeg bið menn að taka vel eftir því, 15% kauplækkun, ef engin vinnustöðvun hefði átt sjer stað, heldur en sú hækkun, sem þeir hafa fengið með verkfallinu. En jeg vil játa það, að þessi samningur getur haft nokkur áhrif á framtíðarsamninga, sem ekki sjást ennþá. Og mundi nú nokkur dómstóll hafa dæmt slíkan dóm? Hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) sagði, að leiðtogar sjómanna færu aðeins fram á nauðsynlegustu þurftarlaun til handa sjómönnum, og þó því aðeins, að þeir vissu að togaraútgerðin gæti borgað. (SÁÓ: Jeg mótmæli því, að hafa sagt slíkt.) Jeg gerði hv. þm. (SÁÓ) þann heiður, að skrifa þessi orð upp eftir honum, þótt jeg gæti annars ekki fengið mig til að hlýða á alla ræðu hans, svo að þetta er rjett haft eftir. En getur nú nokkrum dottið í hug, að dómurinn myndi dæma þeim lægra en þurftarlaun? Bestu menn verða valdir til að dæma. Hv. þm. (SÁÓ) hlær, en jeg hygg, að valið muni verða nokkuð svipað og verið hefir um sáttasemjara ríkisins, en til þess starfa hafa verið skipaðir 2 menn: bankastjóri í Landsbankanum og lögmaðurinn í Reykjavík. Það eru að vísu menn, sem hafa ákveðna pólitíska skoðun, en jeg hygg, að enginn muni halda því fram, að þeir hafi verið hlutdrægir, og jeg skora á hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) að segja til um það, hvort hann álíti, að þeir hafi verið hlutdrægir, útgerðarmönnum í vil. En ef hitt er játað, að hægt sje að finna óhlutdræga menn, þá er með því játað, að þessi dómstóll geti verið ágætur. Annars hygg jeg, að dómur slíkra manna muni falla á þá leið, að þeir hafi eðlilega ósjálfráða tilhneigingu til að dæma þeim mörgu í vil, sem lítið bera úr býtum, og gangi því heldur á rjett þeirra fáu, sem umráð hafa yfir fjármagni og framleiðslutækjum.

Annað er það, sem athuga ber í þessu máli, að slíkur dómstóll mun æfinlega í erfiðu árferði hugsa sem svo: Ja, mennirnir verða þó að lifa, þeirra þurftarlaun má ekki skerða, og verða launin þannig miðuð við von um betri horfur í náinni framtíð. En í góðæri munu launin hækka frá því, sem ella yrði. Það er þannig ekki hægt að færa neinar líkur fyrir því, að þessi dómstóll muni ganga á rjett sjómannanna, heldur þvert á móti. Það eru ákaflega miklar líkur til, að dómurinn muni verða verkamönnum ekki aðeins sanngjarn og rjettlátur, heldur og beinlínis hliðhollur. Og jeg skal þá heldur ekki neita því, að jeg tel, að það sje talsverð fórn, sem atvinnurekendur færa vinnufriðnum í landinu og heill þjóðarinnar, með því að þeir fyrir sitt leyti ganga inn á þetta. Jeg er í engum vafa um það, að þeir eiga miklu meira í hættunni, vegna dómanna, heldur en verkamennirnir. Það eru þess vegna aðeins æsingamennirnir, sem tala um kúgun og þrælalög í sambandi við þennan dóm, og jeg veit, að það er margur verkamaðurinn, sem fegins hendi tekur þessum dómi.

Jeg var staddur suður í Hafnarfirði fyrir skömmu, á fundi fulltrúaráðs verkamanna. Þá var þar maður, sem kom til mín og sagði við mig: Það er ekki um það að tala, við verðum að fá sinn manninn frá hvorum aðilja til að dæma um þessi mál. Jeg svaraði því, að jeg myndi nú líka fást til að ganga að þessu, en jeg efaðist um, að nokkur þeirra manna mundi fást til að taka það að sjer. Þá kom þar annar maður og sagði, að við fengjum engan mann til að taka þá ábyrgð á sig. En hinn hjelt áfram og sagði: „Svo eiga þessir menn að taka meðal togara og rannsaka hag hans, og eftir því á að dæma. Þetta verður að vera þannig, því að annars fáum við sama bölið aftur og aftur.“ Maðurinn hafði auðsjáanlega gleymt að fá fyrirskipanir hjá hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf., en talaði hreinskilnislega eins og honum bjó í brjósti. Friðsamleg samtök eru vopn verkamanna, en verkföll eru vopn verkamannaleiðtoganna. Með friðsamlegum samtökum hafa verkamenn komist lengst, en æsingar verkfallsins eru lyftistöng leiðtogans. Hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) sagði, að við værum nógu viljugir til að hækka kaup sumra manna, og nefndi þar til loftskeytamennina. Þetta er alveg rjett, við borgum fúslegar þá peninga, sem sóttir eru vinsamlega til okkar, en þá, sem heimtaðir eru með offorsi og verkföllum, en einmitt þetta sannar best, að með lægni og lipurð ná verkamenn mestu.

Jeg ætla þá með fáum orðum að snúa mjer að þeim, sem telja að þessi ráðstöfun sje gagnslaus. Jeg sagði, að jeg vildi, þegar alt væri komið í öngþveiti, velja óvilhalla menn til að dæma um málin, þeir eiga að hafa aðgang að öllum plöggum, sem geta gefið upplýsingar, og þegar þeir hafa rannsakað öll gögn, þá eiga þeir að kveða upp dóm sinn. Afleiðingin af þessum dómi þeirra er sú, að sá, sem vill gera út skip, hann veit, að þetta kaup á hann að borga, og sá, sem vill stunda þá atvinnu, hann veit, að þetta kaup fær hann. En í öllum þeim verkföllum, sem gerð hafa verið hjer á landi og jeg þekki til, hafa foringjar verkamanna heimtað miklu meira en þeir svo vildu sættast á, og útgerðarmenn á sama hátt boðið minna en þeir vildu sættast á, en báðir hafa haldið áfram deilunni í von um það, að vinna sigur á hinum, ef þeir gætu beðið nógu lengi. En ef dómur er upp kveðinn, þá er hagsmunavonin kyrkt í fæðingunni, og þá eru öll verkföll um leið kveðin niður. Það er hagsmunavonin, sem heldur deilunni við. Ef sú tálvon er kyrkt og ef vissa er fengin fyrir því, að sá, sem vill halda úti skipi, verði að gjalda þetta kaup, og að sá, sem vill vinna, verði að þiggja þetta kaup, þá eru öll verkföll og verkbönn úr sögunni. Þetta er í senn þvingun og ágæti dómsins.

Jeg skal viðurkenna það, að jeg finn máske mest til þeirra agnúa á þessu fyrirkomulagi, sem að atvinnurekendum snúa, því að sá er eldurinn heitastur, er á sjálfum brennur. Hitt er þó víst, að verkamönnum er mikill fengur í dómnum. Ef slíkur dómur gengi um, hvert kaup skuli vera, þótt sjómönnum bæri ekki skylda til að ráða sig, og útgerðarmönnum ekki skylda til að gera út, þá er gátan leyst. Hugsum okkur síðasta verkfall. 30. desember fella báðir aðiljar uppástungu sáttasemjara, 24. febrúar er önnur tillaga sáttasemjara borin upp og feld með yfirgnæfandi meiri hl., en nokkrum dögum síðar ber forsrh. upp svipaða tillögu, og hún er samþykt. Útgerðarmenn eru þá svo ginkeyptir að komast út með togarana, að við sjálft liggur, að togararnir ætli að rekast á í hafnarmynninu, og sjómenn eru svo óðfúsir að komast af stað, að þeir gefa sjer varla tíma til að kyssa konu og börn, en þjóta af stað. Báðir aðiljar vissu, að þetta var seinasta tillagan, sem gerð mundi af óvilhöllum aðilja. Þá, og þess vegna, beygðu báðir sig. Og þó er þetta ekki viðlíka eins áhrifamikið eins og ef dómur gengur um málið, sem hefir þá staðfestu í lögum, að sjómenn eiga að hafa þetta kaup, ef þeir stunda þessa atvinnu, og útgerðarmenn eiga, ef þeir vilja gera út skip, að borga þetta kaup. Jeg endurtek það þess vegna, að þrátt fyrir það, þó að mjer sje þessi aðferð að ýmsu leyti hvimleið, — þótt jeg viki frá þeirri stefnu, sem jeg annars fylgi, um sem minstar hömlur á einstaklingsfrelsið, — þótt jeg álíti áhættu atvinnurekenda talsvert mikla, þá vil jeg samt færa þá fórn, af því að sá tilgangur, sem sókst er eftir, er verður mikillar fórnar.

Jeg verð að játa það, að það er mín skoðun, að sá, sem selur vöruna, og sá, sem kaupir vöruna, eigi að semja, og mjer er hvimleitt að benda á þriðja aðiljann og segja: Ráð þú. En nauðsyn brýtur lög.

Um friðhelgi eignarrjettarins, sem jafnaðarmenn eru nú alt í einu farnir að halda fast í, er það að segja, að stjórnarskráin heimilar eignarnám, ef alþjóðarþörf krefst þess. Jeg sætti mig við þetta bráðabirgða-eignarnám á notagildi framleiðslutækja annars vegar og vinnuorku hinsvegar, af því að þjóðarnauðsyn býður það.

Jeg hefði viljað beina nokkrum orðum til hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), en með því að hann er ekki staddur hjer í deildinni, ætla jeg að láta það niður falla, meðfram af því, að jeg hefi að nokkru leyti svarað ræðu hans óbeinlínis. En hún var á einum stórum, veigamiklum misskilningi bygð. Hv. þm. (ÁÁ) talaði um kúgun, sektir, ríkislögreglu, tugthús o. fl., sem ekkert kemur málinu við. Dómurinn er ekki annað en einskonar hæstirjettur. En þvingunin er sú ein, að um takmarkaðan tíma eru kvaðir lagðar á sjálfsákvörðunarrjett verkamanna um söluverð vinnuorkunnar og samtímis samkynja kvaðir lagðar á notagildi framleiðslutækjanna.

Það offors, sem jafnaðarmenn sækja þetta mál með, er skiljanlegt, af því að þeir óttast, að um leið og dregið er úr æsingum minki vald þeirra yfir alþýðu manna, en þetta vald er þeirra dýrmætasta eign, og hana verja þeir með grimd villimannsins, og skal jeg ekki ámæla þeim fyrir það. En ljósasta dæmi þess, með hverju offorsi þetta mál er sótt, eru þau brigslyrði, sem hv. 2. þm. Reykv. (HV) hefir leyft sjer að hafa við hv. þm. V.-Sk. (LH) og sömuleiðis við hv. 1. þm. Árn. (JörB), sem ekki gat svarað fyrir sig, þar sem hann verður að vera í forsetastóli, og meira að segja ekki hringt þennan ósvífna ræðumann niður. Og auk þess þurfti þessi hv. þm. (HV) að seilast yfir núverandi lögmann til þess að geta svívirt fyrverandi bæjarfógeta Reykjavíkur.

Jeg skal þá ljúka máli mínu með þeim orðum, að mjer finst þetta mál fá þær undirtektir, sem eðlilegt er, litla mótspyrnu frá verkamönnum, en nokkra frá vinnuveitendum, sem ekki hafa enn áttað sig á því til fulls, og grimmúðuga mótstöðu frá foringjum jafnaðarmanna, vegna þess að þeir óttast, að vald þeirra yfir alþýðunni verði nú af þeim tekið.