06.03.1929
Neðri deild: 15. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Haraldur Guðmundsson:

Jeg held að jeg verði í þetta sinn að fara aftan að síðunum og byrja á skottinu á ræðu hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh). Hann sagði, að eign okkar jafnaðarmanna og sú einasta, væri valdið yfir alþýðu, og til þess að verja þennan eignarrjett, berðumst við með grimd villimannsins. Hv. þm. hefir víst með þessari samlíking ætlað að vera fyndinn, en hún minnir helst til mikið á orð, sem fjellu úr þeim sömu herbúðum núna fyrir skemstu. Jeg ætla, að það hafi verið flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Reykv. (MJ), sem dró hjer inn í umr. allsnjalla lýsingu á villimanninum á frumstigi menningarinnar, er notaði steinsleggjuna bæði sem vopn og rök.

Jeg býst nú ekki við, að við jafnaðarmenn förum að nota slík steinaldarvopn á hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh). Hann er ekki það heljarmenni, að lumbra þurfi á honum með þungri steinsleggju. En það er ekki óhugsandi, að við mundum nota á hann annað og minna vopn, sem virðist líka að öllu leyti betur viðeigandi. Og það er títuprjónn. (ÓTh: Sagði þm. títuprjónn?).

Já, hann leyfði sjer að nefna títuprjón, og í því sambandi dettur mjer í hug gömul vísa, sem hljóðar svo:

Margur blásinn belgur sprakk,

bljúgur laut að fróni,

í sem glettin ungfrú stakk

ástartítuprjóni.

Nú býst jeg ekki við, að það verði neinn sjerstakur „ástartítuprjónn“, sem við notum, heldur mundi verða reynt með títuprjónsstungunni að hleypa út dálitlu af þeim heljarvindi, sem þessi hv. þm. er uppbelgdur af.

Það er nú komið á daginn, að það er sameiginlegt með öllum þeim hv. þm., sem lagt hafa þessu frv. liðsyrði, að þeir vilja ekki halda sjer við frv. eins og það er. Og breytingarnar, sem þeir vilja gera á frv., eru hvorki fáar nje smáar.

Allir hafa þeir verið að reyna að breiða yfir það, að með frv. væri bannað að gera verkföll, en mismunandi er sú niðurstaða, sem þeir þykjast komast að.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) segir, að hvergi sje bannað að gera verkföll, en þau sjeu bara dauðadæmd, ef frv. verður að lögum. Hv. þm. Dal. (SE) vildi líta svo á, að verkföll væru leyfð eftir að dómur væri upp kveðinn. Hv. 1. flm. (JÓl) sagði, að það væri ekki bannað að gera verkfall eftir að dómur væri fallinn, en það væri heldur ekki leyft eins og frv. er orðað. Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) held jeg að hafi komist einna skýrast að orði um þetta deiluatriði. Hann sagði, að mönnum væri ekki bannað að gera verkfall, en þeir væru heldur ekki skyldugir að taka upp vinnu sína eftir að dómur er fallinn, en ef menn vildu vinna, þá yrðu þeir að hlíta því kaupi, sem dómurinn hefði ákveðið. M. ö. o., það er ekki bannað að gera verkföll, segir hann, en eftir frv. er verkalýð bannað að gera verkfall í því skyni að fá kaup sitt hækkað eða kjör sín bætt að einhverju leyti. Þetta er vitanlega nægilegt fyrir þá, sem standa að þessum þrælalögum, því að þeir vita, að engum dettur í hug að gera verkfall í öðrum tilgangi en þeim, að fá kaupið hækkað og kjörin að öðru leyti bætt.

Sumir þessir hv. meðmælendur frv. tala með miklum fjálgleik um friðinn, sem ríkja eigi á meðal beggja aðilja, „vinnufriðinn“, og tala í angurværum tón um það mikla tjón, sem verkföll geti leitt yfir þjóðina. Því neitar enginn, að verkbönn og verkföll geta í bili valdið miklu tjóni fyrir báða aðilja, sem að því standa, og þjóðina í heild. En hvernig ætla þessir hv. þm. að fyrirbyggja slíkt tjón með frv., þegar þeir jafnframt segja, að leyfilegt sje að gera verkbönn og verkföll eftir sem áður, þótt dómur sje fallinn um kaup og kjör? Hvað er þá unnið við að setja slík lög sem þessi og hvernig fer þá um vinnufriðinn, ef hvorugur aðili er skyldur til að hlíta þeim dómi, sem upp er kveðinn? Ef ekki á að fara eftir dóminum, þá eru lögin sú hringavitleysa, sem ekki nær nokkurri átt, og hv. d. ósamboðið með öllu að eiga nokkurn þátt í slíkri grautargerð.

Enda meina flm. þetta alls ekki.

Það er einmitt tekið fram í 8. gr., að dómurinn skuli vera skuldbindandi. Þar segir svo: „Dómsúrslit skuldbinda aðilja sem dómur alment.“ Næsta stigið hlýtur þá að verða það, að heimta að dóminum verði framfylgt, leggja á þá menn víti og viðurlög, sem ekki vilja góðfúslega beygja sig undir dóminn. (SE: Þetta er stór misskilningur!) Misskilningurinn er hjá hv. þm. (SE).

Hvaða meining væri í því, að þessi dómstóll kvæði upp dóm, sem hvorugur aðili væri bundinn við? Annars mundu útgerðarmenn, ef þeim þykir kaupið of hátt eftir dómnum, stöðva vinnuna, gera verkbann, og verkamenn mundu á sama hátt gera verkfall, ef þeim þætti kaupið of lágt, sem vinnudómstóllinn hefir dæmt þeim til handa.

Sje nokkur skynsamleg og heil brú í frv., þá verður að ætlast til að dómnum sje hlýtt, eins og líka tekið er fram í 8. gr.: Dómsúrslit skuldbinda aðilja sem dómur alment.

Hitt er ömurleg lítilmenska að hlaupa frá öllu, sem í frv. stendur, og jeta ofan í sig helstu ákvæðin, sem segja má þó um, að heil brú sje í frá sjónarmiði þeirra manna, sem er það hagsmunamál að koma þessum þrælalögum á.

Jeg hefði nú viljað drepa á nokkur atriði, sem komið hafa fram í ræðum þeirra hv. þm., sem lagt hafa blessun sína yfir frv., þótt enginn kostur sje þess að leiðrjetta allar þær fjarstæður, sem komið hafa fram í umr.

Mest hefir mig furðað á þeirri tóntegund, sem hv. formælendur frv. hafa talað í. Þeir hafa forðast að nefna aðalatriðin, farið í kringum kjarna málsins eins og kötturinn, sem hræðist heita grautinn. Þeir hafa með bljúgum huga og hátíðlegum svip verið að tala um friðarboðskap og fórnarvilja, eins og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) orðaði það. Hann kvaðst fús til að fórna sjerhagsmunum sínum og annara útgerðarmanna til þess að bæta hag þjóðarinnar. Falleg orð, en innantóm. Sumir hæla sjer mest af því, sem þeir hafa minst af.

Sami hv. þm. og fleiri af því sauðahúsi þykjast með þessu vera að auka vinnufriðinn í landinu. En glámskygnir eru þeir, eða vilja ekki kannast við að þeir sjái, hvert stefnt er með frv. Því að í staðinn fyrir að auka friðinn, blása þeir að ófriðareldinum og auka úlfúð og hatur milli þeirra, sem eigast við.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagði, að hugmyndin með frv. væri góð, en það væri óheppilega orðað. Hugmyndin er, að því er hann sagði, sú, að fá rjettláta og óvilhalla menn til þess að kveða upp dóm um það, fyrir hvaða kaup verkamenn skuli vinna á hverjum tíma. En því aðeins getur þessi góða hugmynd komið að gagni, svo að jeg haldi mjer við hugsanagang hv. þm., að báðir aðiljar sjeu skuldbundnir að hlíta endanlegum dómsúrslit m, hver sem þau kunna að verða. En því neita nú flm., hver eftir annan.

Jeg ætla þá með nokkrum orðum að víkja að því atriði í ræðum hv. formælenda frv., að menn væru ekki skyldugir að hlíta þeim dómsúrslitum, sem upp yrðu kveðin í vinnudeilum. Og ætla jeg þá að halda mjer að því, sem hv. 1. þm. Reykv. (MJ) sagði, því að hans skilgreining í þessu efni virtist mjer einna skýrust. Fyrir honum var aðalatriðið það, að ef dómstóllinn ákvæði kaupið með dómi, þá væru verkamenn skyldir til að vinna fyrir það kaup, ef þeir á annað borð vildu vinna. Hinsvegar væri mönnum frjálst, hvort þeir vildu vinna eða ekki. Þætti þeim kaupið of lágt, gætu þeir látið vera að vinna, og að því er mjer skildist, tekið þá upp aðra atvinnu. Hv. þm. (MJ) virtist leggja mikla áherslu á, að frelsi verkamanna væri látið óskert, þeir þyrftu ekki að vinna frekar en þeir vildu. En þetta „frelsi“ getur orðið lítils virði. Ef mennirnir ekki vinna, verða þeir að svelta. Þeim er m. ö. o. frjálst að svelta.

Hjer eru um 1000 manns, sem vinna á togurum, og margfalt fleiri, sem vinna að verkun og hirðingu aflans og við höfnina. Ef allur þessi fjöldi vildi ekki vinna fyrir það kaup, sem dómurinn hefði ákveðið, að hvaða gagni kæmi þeim þá frelsið? Ekki mundu þeir geta fengið aðra vinnu, ef öll útgerð stöðvaðist. Nei, allir þessir verkamenn mundu verða að sitja auðum höndum og svelta eða sætta sig við dóminn um kaupið, enda er það ætlun þeirra manna, sem grípa vilja til slíkra þvingunarráðstafana, sem felast í frv. Ofan á hörmungarnar af atvinnuleysinu bætast svo skaðabætur og sektir samkvæmt frv.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) komst svo að orði, eins og jeg drap lítilsháttir á í upphafi ræðu minnar: Friðsamleg samtök eru vopn verkamanna, en verkföllin eru vopn alþýðuleiðtoganna! Og hann tók það fram, að hann meinti þetta. Það er þá sennilega það eina, sem hann hefir meint í þessari ræðu sinni. En það er ekki eina vitleysan, sem hann flutti þar.

Nú vil jeg spyrja þennan hv. þm.: Hvar var ófriðurinn í síðustu kaupdeilu? Var það hjá sjómönnunum? Jeg segi nei. Það var fullkomin friðsemd í allri framkomu sjómanna á meðan á deilunni stóð.

Annars vildi jeg spyrja þessa hv. þm. einnar spurningar og hún er þessi: Hvað eru friðsamleg samtök alþýðu, ef það er ekki fjelagsskapur þeirra, sem sjer um að verkföllin fari friðsamlega fram, þar sem hundruð og þúsundir manna standa saman sem einn maður um rjettmætar kröfur sínar um kauphækkun og bætt kjör, án þess að nokkrar óeirðir eða óspektir verði?

Og hvað stoðar fyrir verkamenn að fara fram á kauphækkun, er hinir skella skolleyrunum við öllum rjettmætum kröfum þeirra? Til hvers er að biðja um hækkað kaup, ef það er látið fylgja með, að þótt hækkunin ekki fáist, þá verði samt haldið áfram að vinna — fyrir lága kaupið.

Nei, það er víst, að þessi friðsamlegu samtök, sem formælendur frv. eru að stagast á, þau lifa ekki stundinni lengur, ef þau sýna ekki mátt sinn í því að knýja fram kröfur verkalýðsins — með verkföllum, ef ekki er annað fært.

Samtök verkamanna hjer eru friðsamleg, þau knýja fram bætt kjör án óspekta og ofbeldis. Þetta hefir reynslan kent verkalýð um allan heim og einnig hjer, þó að samtökin hjer sjeu tiltölulega ung. Og eina ráðið til þess að gefa kröfum verkamanna styrk, þegar mikið liggur við, er möguleikinn til þess að geta stöðvað vinnuna. þ. e. a. s. að geta gert verkfall. Og alveg sama er að segja um útgerðarmenn. Þegar þeir gera verkbann, gera þeir það í þeim tilgangi, að fá sínum kröfum framgengt.

Friðsamleg samtök verkamanna hafa sýnt mátt sinn í öllum kaupdeilum okkar.

Það, sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) var að segja um mig og fjelaga mína hjer á Alþingi, að okkar eign væri engin önnur en vald það, sem við hefðum náð yfir alþýðu þessa lands, er orðavaðall einn, því miður liggur mjer við að segja, því að ef rjett væri sagt frá um vald okkar væri þetta hið mesta hól.

Mjer kemur undarlega fyrir sjónir, að maður eins og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), sem á kost á því að tryggja sjer hin mestu völd, þar sem hann er hvorttveggja í senn: einhver stærsti og fjesterkasti atvinnurekandi þessa bæjar og þingmaður jafnframt — og á ítök í fjölda blaða, skuli segja það kinnroðalaust hjer á Alþingi, að menn, eins og t. d. jeg, sem enga atvinnu geta veitt og enginn þarf neitt til að sækja, höfum ríkara eða meira vald en hann hjá verkalýð þessa bæjar. Hvers vegna notar hann ekki aðstöðu sína til að vinna fylgi verkamanna? Enginn getur meira gert fyrir þá en einmitt hann. Hversvegna trúir enginn blöðum hans eða blaðskrifum sjálfs hans? Gleggri viðurkenningu á vesalmensku sjálfs sín er varla hægt að hugsa sjer, og ekkert sýnir betur, hvað þessi hv. þm. hefir litla trú á eigin málstað og málaflutningi.

Mjer finst það mikið lof, þegar talað er um, að alþýðuleiðtogarnir, sem að vísu eru alloftast nefndir æsingamenn, skuli ráða jafn miklu og vera eins voldugir menn og andstæðingarnir eru í tíma og ótíma að fárast um.

Aðstaða þeirra sjálfra er þó ólíkt betri, þeir ráða yfir framleiðslutækjunum og fjármagninu og þeir ráða yfir stærri og meiri blaðakosti heldur en við jafnaðarmennirnir, sem höfum hjer aðeins Alþýðublaðið. Slík aðstaða sem þessi ætti að tryggja atvinnurekendum fylgi, ef þeir væru svo vitrir og hagsýnir, að þeir kynnu að notfæra sjer það og hugsuðu ekki mest um að tryggja sjer gróða og skamta verkalýðnum sem naumast. En því er ekki að heilsa. Í stað þess að tryggja sjer hugi fólksins, með því að reyna að bæta hag þess, emja þeir og kvarta yfir því, að „æsingamennirnir“ með skrifum sínum og ræðum snúi huga alþýðu frá sjer. Jeg verð nú að segja það um sjálfan mig, að jeg hefi ekki þá trú á mjer, að jeg sje svo voldugur maður sem hv. þm. vill vera láta, eða svo snjall, að jeg telji fjölda fólks hughvarf. Hitt vil jeg fullyrða, að það eru atvinnurekendurnir sjálfir, sem með óstjórn sinni á atvinnurekstrinum og margskonar hátterni, eru þess valdandi, að fjöldinn tapar trúnni á forsjá þeirra og snýr við þeim bakinu. (ÓTh: Jeg held að það sje sáralítill munur á lifnaðarháttum mínum og hv. þm. Ísaf. (HG). Við erum báðir, eins og það er kallað á reykvísku, „flottræflar“!) Hv. þm. um það, hvaða nafn hann velur sjer.

Þá var hv. 2. þm. G.-K. að skýra hv. deild frá því, að hann hefði átt nýlega tal við verkamann í Hafnarfirði, sem var eindreginn fylgismaður frv. Mest fyrir þá sök, að mjer skildist, að hann áleit að frv., ef að lögum yrði, væri ekki annað en lög um einfaldan gerðardóm er allir kæmu sjer saman um.

En hvernig dettur nokkrum óbrjáluðum manni í hug að líkja því tvennu saman? Gerðardómur, sem báðir aðiljar koma sjer saman um, er ekki annað en það, að báðir velja þá menn, sem þeir treysta best til þess að jafna það, sem um er deilt. Það er svipað og átti sjer stað í síðustu kaupdeilu. Þá völdu útgerðarmenn hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) einan til þess að semja fyrir þeirra hönd, þegar hæstv. forsrh. (TrÞ) hafði tekið málið að sjer. Sjómenn höfðu áður falið það stjórn fjelags síns. Báðir aðiljar voru í sínum fulla rjetti, og það sem þeir koma sjer saman um skuldbindandi fyrir alla þá, er stóðu að baki þeim, þ. e. a. s., þá útgerðarmenn og sjómenn, sem í þessari kaupdeilu áttu. Hjer var um hreint samkomulag að ræða.

En þessi samningsleið er gersamlega óskyld og andstæð þeirri leið, sem gert er ráð fyrir með frv. um dóm í vinnudeilum. Svo að ef málalokin í síðustu kaupdeilu eiga að fara að notast sem meðmæli með frv., þá get jeg ekki betur sjeð en að rökin fari að snúast í höndum formælendanna.

Þá sagði sami hv. þm., að í dóminn ættu að veljast óvilhallir og rjettsýnir menn, sem krefjast mundu fullra skýrslna um allan rekstur útgerðarinnar, er þeir svo bygðu á dómsúrskurð sinn. Í því sambandi vitnaði hann og fleiri í grein, sem stóð í Alþýðublaðinu fyrir skömmu, og ber fyrirsögnina „Reikningarnir á borðið!“ Halda þeir því fram, að með frv. sje þessari kröfu Alþýðublaðsins fullnægt. Reikningarnir yrðu lagðir á borðið, þ. e. a. s. dómurinn gæti skyldað aðilja með úrskurði til þess að sýna bækur sínar eða reikninga. En þetta er vísvitandi blekkingartilraun. Málið á að flytja fyrir lokuðum dyrum og ekkert má uppskátt gera um rannsókn þá, er þar fer fram. Yfir öllu slíku á að vera fullkomin leynd samkv. 7. gr. frv., eins og jeg nú skal benda á með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnan skal flytja mál fyrir lokuðum dyrum, ef opinber flutningur þess ylli því, að óviðkomandi menn fengju vitneskju um leyndarmál kaupsýslumanna eða fjelagsskapar, eða annað, er menn eiga rjett á að haldið sje leyndu fyrir óviðkomandi mönnum.“

Nú vil jeg spyrja: Hvaða vitneskju fær almenningur um rekstur og hag atvinnufyrirtækjanna þegar svona er í pottinn búið?

Jeg svara hiklaust: almenningur fær ekkert að vita. Dómurinn getur aflað sjer þekkingar í þessu efni, ef hann hefir þá dáð í sjer til þess, og þennan sama rjett hefir sáttasemjari samkv. núgildandi lögum. En fyrir alþýðu verður þetta hulinn leyndardómur eftir sem áður. Annars gefst formælendum frv. tækifæri til að sýna, hvað þeir meina með þessu munngjálfri sínu, þegar rætt verður um það málið, sem næst er hjer á dagskrá (rannsókn togaraútgerðarinnar), svo að jeg sje ekki ástæðu til að dvelja lengur við þetta atriði að þessu sinni.

Þá mintist hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) á friðhelgi eignarrjettarins og fórust orð eitthvað á þá leið, að sjer þætti einkennilegt, að við alþýðuleiðtogarnir, sem værum á móti friðhelgi eignarrjettarins, skyldum ekki láta okkur vel líka að hún væri rofin á verkamönnum. En hann gætir ekki þess, að ef frv. þetta verður að lögum, þá gilda hjer í landi tvennskonar reglur um eignarrjettinn. Önnur um fasteignir og lausafjármuni „borgaranna“, en hin um starfsorku verkalýðsins. Og sjá þó allir, að ekki nær nokkurri átt, að í einu og sama landi gildi tvennskonar lög um eignarrjett manna.

Þá ræddi sami hv. þm. allmikið um það, að tilgangur frv. væri einmitt sá að brjóta þær „þrældómsviðjar“, sem alþýðuleiðtogarnir hefðu lagt á verkamenn. Þessu fylgdi að vísu engin nánari skýring, sem ekki var heldur að vænta. Hvernig ættu líka alþýðuleiðtogarnir að halda verkamönnum í þrælaviðjum? Ekki geta þeir ógnað verkamönnum með því að svifta þá atvinnu, ef þeir hegða sjer ekki eins og þeim er sagt. Alþýðuleiðtogarnir hafa enga aðstöðu til þess að ógna mönnum með atvinnumissi til þess að kjósa sig á þing, eða greiða atkvæði þeim til geðs. Það má vel vera að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) kannist við dæmi þess, að þetta hafi verið gert, en það nær vitanlega ekki nokkurri átt að bendla alþýðuleiðtogana við nokkuð slíkt.

Annars virtist hann byggja þenna þrældómsviðjasleggjudóm sinn á atkvæðagreiðslu sjómanna um till. sáttasemjara. M. ö. o., að við, sem hann nefnir leiðtoga alþýðu, hefðum átt að ráða því að sjómenn feldu till. Nú ætti honum að vera kunnugt um, ekki síður en öðrum, að till. var alls ekki birt, eða um hana ritað, áður en greidd voru atkv. um hana. Atkvæðin voru sumpart greidd á fundi og sumpart á skipsfjöl úti í rúmsjó. Ekkert blaðanna ræddi um till. áður en atkvæðagreiðslan fór fram. Hvernig áttu nú t. d. alþýðuleiðtogarnir að hafa áhrif á allan þann fjölda sjómanna, sem atkvæði greiddu á skipsfjöl?

Jeg ætla að enda mál mitt við hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) með því, að rifja upp orð þau, er hann hóf ræðu sína á.

„Samningaleiðin í kaupdeilum er að verða æ torsóttari og torsóttari,“ sagði þessi hv. þm. En það er auðsjeð, að hann leit aðeins á aðra hliðina. Hann hefir meint: samningaleiðin er að verða æ torsóttari og torsóttari fyrir okkur útgerðarmenn. Hann á við það, að launadeilurnar þrýsti verkamönnum fastara og fastara saman um kröfur sínar, svo að erfiðara reynist með hverju árinu, sem líður, fyrir útgerðarmenn að ráða kaupgjaldinu einir.

Allir formælendur frv. hafa rætt um „offors“ sjómanna í kaupdeilum; að þeir setji kröfur sínar miklu hærra en þeir hugsa sjer að ganga að, og látist furða sig á, að sjómenn skyldu hafna till. sáttasemjara, úr því að þeir gengu að lokum að samningum þeim, sem gerðir voru fyrir milligöngu forsætisráðherrans, þar sem kaupið var ákveðið aðeins um 3% hærra en í tillögu sáttasemjara. Þessir hv. þm. vilja láta líta svo út, að ef sjómenn hefðu samþ. till. sáttasemjara, þá hefði kaupdeilunni þar með verið lokið og alt fallið í ljúfa löð. En þetta er hin fáránlegasta blekking, svo sem sýnt skal verða. Útgerðarmenn feldu tvisvar tillögu sáttasemjara svo að segja í einu hljóði. Ef lagður er trúnaður á atkvgr. þessar, hefði það ekki stoðað hót, þótt sjómenn hefðu, á hinn bóginn, samþ. till. sáttasemjara. Það hefði verið árangurslaust og enda mjög óhyggilegt. Það hefði sennilega spilt fyrir málstað sjómanna, því af útgerðarmanna hálfu hefði slíkt verið lagt út á þá leið, að nú væru sjómenn farnir að sjá sitt óvænna, og vildu nú slá af kröfum sínum. Hefði þetta því aðeins orðið til þess að bæta aðstöðu útgerðarmanna í kaupdeilunn, enda mun hafa verið til þess ætlast af þeirra hálfu. (ÓTh: Hvað hefir þessi hv. þm. sagt í blaði sínu?). Jeg hefi sagt það, að útgerðarmenn hafi í síðara skiftið líklega felt till. sáttasemjara til málamyndar, og af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi tekið fram. Að vísu er þetta ekki sannanlegt, en af sjómanna hálfu var þetta skýrt á þann veg, eins og líka eðlilegt var. Offors sjómanna var síst meira en útgerðarmanna, sem í upphafi buðu kauplækkun en síðan gengu að 16% hækkun.

Þá ætla jeg lítillega að snúa mjer að hv. þm. V.-Sk. (LH). Hann kvartar undan því, að Alþýðublaðið hafi haft miður prúðmannleg ummæli um sig, í sambandi við umræður um þetta mál í blaðinu. Þessu verð jeg að mótmæla, sem og því, að blaðið hafi sagt nokkuð móðgandi um þennan hv. þm. Það sem blaðið hefir sagt um hann og afstöðu hans til sjómanna í Skaftafellssýslu, er á fullum rökum bygt. Rjett er það, að það er ekki honum til lofs. En þar má hann sjer sjálfum um kenna. Það er alkunnugt, að við síðustu kosningar greiddu margir sjómenn í V.-Sk. þessum hv. þm. atkv. sín vegna þess, að hann var á vegum þess flokks, sem ætla mátti að væri fylgjandi vökulögunum. Vafalaust hefir þetta aflað þessum þm. margra atkvæða, sem hann ella ekki hefði fengið. En framkoma hans á síðasta þingi olli mörgum þessara fylgismanna hans þungra vonbrigða. Mjer er persónulega kunnugt um þetta, því að jeg hefi talað við marga sjómenn, bæði þar eystra og annarstaðar. Jeg vil þó ekki segja, að hann hafi gefið kjósendum sínum fyrirheit um að styðja framgang vökulaganna, en hann bauð sig fram sem Framsóknarmaður, og var því full ástæða til að ætla, að hann mundi fylgja sínum flokki að málum, í því máli sem endranær.

Þá talaði þessi sami hv. þm. um það, með miklum fjálgleik, að samtök væru góð, ef ekki fylgdu þeim æsingar. Mjer er ekki fyllilega ljóst, hvað hv. þm. á við, þegar hann talar um æsingar í þessu sambandi. Hvaða æsingar voru samfara kaupdeilunni síðustu? Framkoma sjómanna var hin prýðilegasta í alla staði, og bar vitni um stillingu og sanngirni. Þetta verður ekki hrakið. Alt málæði um æsingar í sambandi við kaupdeiluna síðustu er algerlega út í hött. Sennilega hefir aldrei verið friðsamlegri kaupdeila heldur en sú, sem nú er nýafstaðin. En þegar þessi hv. þm. talar um, að hann óski að öll alþýða ætti við sem best kjör að búa, þá er slíkt vitanlega orðagjálfur eitt, svo framarlega sem hann ekki bendir á neinar leiðir til þess að bæta aðstöðu þeirra í lífinu. Og afskifti þessa hv. þm. af þessu máli, miða eingöngu að því, að gera alþýðu torveldara að ná sjálfsögðum rjetti sínum.

Jeg verð að þakka hv. 1. þm. Reykv. (MJ) fyrir hin mjög vinsamlegu ummæli í garð jafnaðarmanna og jafnaðarstefnunnar. Hefi jeg ekki enn heyrt öllu sannari ummæli um þau mál, af munni andstæðinga stefnunnar. Þessi hv. þm. komst svo að orði, að jafnaðarmenn hefðu ávalt það hlutskifti, að skipa brjóstfylking mannkynsins á för þess neðan úr villimensku og alt upp á hátinda fullkomnunarinnar. Þeir jafnaðarmenn, er eigi vildu sýna þetta í verki, væru ekki sannir jafnaðarmenn, brigðust köllun sinni. Þetta er fullkom lega rjett, enda verður því ekki mótmælt, að jafnaðarmenn hafa ávalt verið, síðan sú stefna hófst, í brjóstfylking mannkynsins og munu ávalt verða það. En því get jeg ekki neitað, að næsta broslegt er að heyra slík orð af vörum íhaldsmanns, og ömurlegt má það vera fyrir hann, að þurfa að gera slíka játningu opinberlega. Mundi honum, sem íhaldsmanni, ekki vera ljúfara að tileinka sínum flokki þennan heiður? En auðvitað treystir hv. þm. sjer ekki til þess, og er honum það síst láandi. En furðulegt má það heita, að þessi hv. þm. skuli ekki gera meiri kröfur til síns flokks en þessi ummæli virðast bera vitni um. Það er þó löng leið neðan úr villimensku, þar sem sleggjan og sleggjudómar gilda sem vopn og rök, upp til þess samræma og fullkomna þjóðfjelags framtíðarinnar, og það er býsna hart fyrir íhaldsmann að geta ekki tileinkað sjer eða sínum flokki hinn minsta hluta af þeirri miklu framþróun, sem þar hefir átt sjer stað.

Þá talaði sami hv. þm. um alþjóðabandalagið og alheimsfriðinn. Taldi hann fullkomna afvopnun leið til fullkomins friðar, og um það er jeg honum sammála. Nú væri það ekki óskynsamleg ályktun, ef hv. þm. hefði sagt sem svo: Ef atvinnufriður á að fást, þá verður fyrst að afvopna stjettirnar, sem deila. En því fór fjarri að hv. þm. kæmist að svo heilbrigðri niðurstöðu. Þvert á móti segir hann, að vopnin eigi ekki að taka af aðiljum kaupdeilanna. Hann segir, að verkamönnum sje ekki með frv. bannað að gera verkföll, með öðrum orðum, að verkalýðurinn eigi að halda verkfallsvopninu og atvinnurekendur þá líka verkbannsvopninu. En samt á friðurinn að fást trygður, ef frv. verður að lögum. Þessar röksemdir hv. 1. þm. Reykv. eru alveg einstakar í sinni röð, og vil jeg spyrja þdm. hvort þeir muni eftir öðrum eins sætsúpuvellingi. En rjett er að geta þess, að þessi hv. þm. sagði ekki rjett frá um frv. Því er einmitt ætlað að afvopna aðra stjettina með öllu, eða að minsta kosti gera vopn hennar bitlaus, meðan hin stjettin heldur sínum vopnum og neytir þeirra. Það má vel vera að þessi hv. þm. kunni vel að segja frá Páli postula, en það eitt er víst, að hann skilur ekki jafnaðarstefnuna. (MJ: Er ekki eins góður sætsúpukokkur og hv. þm. Ísaf.). Mjer þykir sætsúpa góð, en jeg bý aldrei til sætsúpu. Þá sagði sami hv. þm., að þar sem hjer væri um fjárhagsmál að ræða, mætti ekki gera það að æsingamáli. Jeg vil spyrja hv. þm. hvaða æsingar hafi átt sjer stað í sambandi við þetta mál.

Mjer er ókunnugt um þær. En annars eru það nú einkum og sjer í lagi fjárhagsmálin, sem valda mestum hita allra deilumála, og ræður það að líkindum, því einmitt þau koma átakanlega við allan þorra manna, hvað afkomu þeirra og lífskjör snertir. Er því ekki nema eðlilegt, þótt slík mál yllu æsingum öðrum málum fremur, þótt ekki hafi kveðið að því nú.

Hv. 1. þm. Reykv. fann okkur jafnaðarmönnum það mjög til foráttu, að við færum að dæmum flokksbræðra okkar erlendis. Þetta gerum við vissulega oft og með góðum árangri. Hitt er rjett, að erlendar fyrimyndir gefast misjafnlega, stundum vel og stundum miður vel. En mjer fyndist hv. þm. sæma betur að snúa ásökunum sínum til hv. flm. Þeim hefir orðið það á, að leita út fyrir landsteinana, og það sem verra er, tekið til fyrirmyndar einmitt þá lagasmíð, sem verst hefir reynst af öllum lagasmíðum síðari ára hjá nágrannaþjóðum okkar.

Mjer hefir virst flestum ræðumönnum koma saman um, að ákvæðið um það, hvernig dómurinn skyldi skipaður, væri óhæft, eins og það líka er. Það getur aldrei komið til nokkurra mála að fela sýslumönnum og bæjarfógetum að fara með það vald, sem frv. gerir ráð fyrir. Slíkt væri með öllu óafsakanlegt. Þessum hv. þm. fanst það undarlegt, að við skyldum ávalt miða við það ástand, sem nú er, en ekki við það ástand, sem ætti að koma. En við erum neyddir til að miða við núverandi skipulag. Í þessu sambandi vildi ég leiðrjetta misskilning um verkamannafjelögin, sem jeg hefi orðið nokkuð var við. Þau eru ekkert annað en hákapítalistisk fyrirbrigði; þau eru aðeins vopn í baráttunni, sem nota verður meðan þetta atvinnuskipulag er við lýði. Þau hverfa, sem slík, þegar ekki eru lengur tveir aðiljar með andstæða hagsmuni um framleiðsluna, aðiljar, sem deila um hvernig afrakstrinum skuli skift. Auðvaldsskipulagið heldur þeim við og gefur þeim tilverurjettinn.

Loks átti jeg mikið ótalað við hv. 1. flm. (JÓl). Hann hóf ræðu sína með því að segja, að það væri hart að þurfa að eiga orðastað við menn, sem ekkert skynbragð bæru á þá hluti, er þeir væru að tala um. Hann brigslaði okkur mótstöðumönnum frv. um sleggjudóma og æsingar í þessu máli. En er lengra leið á ræðu hans, bar hann mjer á brýn leti, að jeg lifði á öðrum, og loks að jeg væri mesta „beinahít“ þessarar deildar. Jeg legg það nú undir dóm hv. deildar, hversu skýr og veigamikil rök þetta eru í þessu máli. En þeim hv. þm. vildi jeg segja það, að hann skyldi síst þann veg mæla. Hann er sagður fjáður maður í betra lagi. Þeim fjármunum hefir hann safnað með því að skila sjómönnum sínum og verkamönnum minna af arði útgerðarinnar en þeim bar að rjettu lagi. Auður hans er mismunur á sannvirði vinnu starfsfólks hans og þess, sem hann hefir greitt því í kaup. Gróði þessa manns eru því spænir og bitar úr öskum verkamanna. Hvað er að lifa á öðrum, ef ekki þetta? Auk þess er það alkunnugt, að þessi hv. þm. er inn kominn í þessa hv. deild, fyrir tilstilli þessara fjármuna eingöngu. Og fyrsta verk þessa hv. þm. á Alþingi var svo að berjast með hnúum og hnefum á móti 8 tíma hvíldarlögunum, á sama tíma, sem lögfestur var 8 stunda hámarksvinnudagur í nærliggjandi löndum. Við umræður um það mál á þinginu, fórust honum þannig orð um verkamenn, að varla er kinnroðalaust hægt að hafa eftir. Meðal annars sagði hann það, að nú á tímum væri varla hægt að halda hjú, vegna ódygða, eftirtalna og ótrúmensku, og fólkið heimtaði meira kaup og minni vinnu. Blað eitt hjer í bæ, sem þessum hv. þm. er áhangandi, lýsir verkamönnum þannig, að þeir hengslist við vinnu dag og dag, og eyði síðan kaupinu í vín, tóbak, kaffihússetur og Bíó. Þetta eru þá þakkirnar, sem þessi hv. þm. lætur þeim mönnum í tje, sem með vinnu sinni og erfiði hafa aflað honum fjár og, illu heilli, óbeinlínis lyft honum upp í þessa hv. deild.

Þá ætla jeg að snúa mjer að beinabrigslyrðum þessa hv. þm. Verð jeg að lýsa hann ósannindamann að þeim ummælum. Auk þess situr síst á þessum hv. þm. að núa mjer slíku um nasir, því honum er of vel kunnugt um, að margir flokksmenn hans belgja sig á beinum og bitlingum. Vil jeg í því sambandi aðeins benda á hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), sem sjálfur hefir upplýst það, að hann hafi eitt sinn haft 400 kr. fyrir klukkutímann. (ÓTh: Ekki frá ríkinu). Gengisnefnd er kostuð af almannafje. Hvað mig snertir sjálfan, þá hefi jeg haft um 1500 kr. á ári um tveggja ára bil, fyrir opinber störf, og ætla jeg að beinhákörlum íhaldsins, sumum hverjum a. m. k., myndi tæpast hafa vaxið slíkt í augum, ef þeir hefðu sjálfir átt í hlut. Jeg var kosinn í milliþinganefnd í skattamálum á síðasta þingi. Þar naga beinin með mjer þeir hv. 3. landsk. (JÞ) og hv. 1. þm. N.-M. (HStef.), svo að líkt er á komið með okkur. Ennfremur átti jeg sæti í Ríkisgjaldanefndinni, og þori jeg að fullyrða, að þar hefir mikið starf verið af hendi leyst. (ÓTh: Ósjálfhælinn maður segir frá!). Verkin sýna merkin. Og jeg býst við því, að beinhákörlum íhaldsins hafi stundum verið greiddar stærri upphæðir fyrir minni vinnu en þá, sem hjer er um að ræða. Í þessu sambandi væri ekki fjarri að minnast á eitt bein, sem mikið hefir verið deilt um, og á hv. 1. þm. Reykv. (MJ) þar í hlut. Hann átti, eins og kunnugt er, sæti í bankaráði Landsbankans, en eftir að lögum bankans var breytt í fyrra, og kosið í bankaráð á ný, varð hann að víkja úr sæti. Mun hv. þm. hafa tekið sjer þetta mjög nærri, enda höfðaði hann mál gegn bankanum út af launagreiðslunni. Hann vildi fá launin, en kærði sig ekkert um sætið í bankaráðinu og þá vinnu, sem því fylgdi. Hann hefir líka embætti að gegna í þjónustu ríkisins, tiltölulega vel launuðu. Dómur er nú fallinn í Hæstarjetti, og á þá leið, að þetta bein er nú að fullu af honum tekið. Hv. þm. hefði ef til vill kosið að þetta beinamál hans hefði verið lagt undir úrskurð þess dómstóls, sem gert er ráð fyrir í frv. því, sem hjer er rætt um. Ef slíkur dómstóll hefði verið hjer til á síðasta ári og fjallað um málið, hefðu úrslit þess ef til vill orðið honum hugljúfari.

Annars og yfirleitt verð jeg að segja, að það sýnir býsna mikla ósvífni íhaldsmanna að brigsla öðrum um bein og bitlinga, því að sú synduga fortíð, sem þeir eiga sjer að baki, gerir slíkt að hnefahöggum í andlit þeirra sjálfra. Hvað mig snertir, þá tel jeg mjer sóma að því, að vera falin trúnaðarstörf opinber, t. d. að eiga sæti í milliþinganefndinni í skattamálum, og mun jeg reyna að vinna þar eftir bestu getu. Jeg get ósköp vel skilið, að hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) telji laun mín eftir. Hann um það. Flokkur hans hefir ekki gert mikið að því, að fela honum vandaverk eða trúnaðarstörf.

Jeg get, að svo stöddu, leitt að mestu hjá mjer þau ummæli hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), að við jafnaðarmenn hefðum ekkert vit á þessu máli, sem um væri að ræða. Honum er bersýnilega sjálfum alls ekki ljóst, hver er hin eiginlega orsök þessarar deilu. Það má vel vera, að hann beri nokkurt skyn á togaraútgerð í sjálfu sjer, en honum er allsendis varnað skilnings á því atriði málsins, sem mestu skiftir, sem sje því, að undirrót deilunnar er skipulagið sjálft, hið núverandi atvinnurekstrarfyrirkomulag yfirleitt.

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) sagði, að eftir röksemdum mínum mætti ætla, að jeg væri fylgjandi vinnudómi. Slík ályktun er fjarri sanni, og enda alveg út í bláinn. Mín orð voru þau, að meðan mannlegt eðli og ríkjandi þjóðskipulag er óbreytt, mun hver ota sínum tota, og haldast kaupdeilur og kjara milli þeirra, sem eiga framleiðslutækin og hinna, sem vinna með þeim, nota þau. Er því einsætt, að slíkur dómstóll, sem hjer ræðir um, er síst þess megnugur, að ráða bót á þessum vandræðum. Eina lækningin, sem dugar, er að taka meinsemdina burtu, í stað þess að vera sífelt að plástra utan á hana. Meinsemdin er núverandi skipulag og því verður að breyta, ef varanleg lausn á að fást á þessum deilumálum.

Þá vildi sami. hv. þm. gera gys að því, að jeg hafði í Alþýðublaðinu haldið því fram, að kröfur sjómanna í kaupdeilunni síðustu hefðu verið sanngjarnar, og í öðru lagi, að það, sem áunnist hefði um kauphækkun, væri sigur samtakanna. Sagði hann, að þetta væri ósamrýmanlegt. En jeg vil þá enn ítreka það, að kröfur sjómanna voru fyllilega rjettmætar, og vil jeg leyfa mjer að benda þessum hv. þm. á það, að honum ferst síst að leggjast á móti ekki stærri kauphækkun en hjer var um að ræða til sjómanna, þar sem hann flytur frv. um að hækka dýrtíðaruppbót embættismanna, sem hafa margföld laun á við sjómennina. Þurftarlaun embættismanna telur hann frá 10–14 þús. krónur. En samt leyfir hann sér að gera gys að kauphækkunarkröfum sjómannanna og styðja þá, sem vildu varna þeim hækkunar. Það, sem áunnist hefir í kaupdeilunni, nemur 500 kr. á sjómann hvern á ári, og er það eftir atvikum sigur fyrir sjómennina, þegar þess er gætt, að upprunaleg krafa útgerðarmanna var um kauplækkun. Smáir sigrar eru líka sigrar. Sjómenn munar um minna en 500 króna hækkun á árstekjum.

Frá tilboði útgerðarmanna er munurinn h. u. b. 560 kr. á ári á kaupi sjómanna. Sjómenn hafa unnið þetta eingöngu með samtökum sínum Ef þeir ekki hefðu notað „verkfallsvopnið“, myndu þeir engu hafa fengið áorkað. Þó aldrei nema að þetta hafi áunnist nú, vantar þó ennþá mjög mikið á það, að sjómenn og verkamenn beri það úr býtum fyrir vinnu sína, sem rjett er og sanngjarnt, en hver hækkun sem þessi, og hver umbót á kjörum þessara manna, er spor í áttina, og þokast því smátt og smátt áfram til rjettlátari skiftingar.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) rangfærði mjög margt það, sem jeg sagði. M. a. hjelt hann því fram, að jeg hefði dróttað því að sjómönnum, að þeir spiltu viljandi fiskinum, þegar stundaðar væru ísfiskiveiðar. Að jeg hafi sagt þetta eru hrein og bein ósannindi. Það, sem jeg sagði, var aðeins það, að það myndi sennilega hafa orðið til hagnaðar fyrir útvegsmenn að ganga að kröfu sjómanna, um ½% af afla ísfiskjarins, því að slíkt væri hvöt fyrir sjómennina að vanda sem best meðferð fisksins, um leið og þeir líka gengju ánægðari að starfinu. Með þessu er alls ekki sagt, að sjómenn spilli viljandi aflanum, heldur hitt, sem er óhrekjanleg staðreynd, að eigi menn að einhverju leyti laun sín undir afkomu þess fyrirtækis, sem þeir starfa fyrir, er það þeim jafnan hin mesta hvöt til þess að leggja rækt við starfið. Enda er það svo, að minsta kosti hvað sjómenn snertir yfirleitt hjá þeim Norðurálfuþjóðum, sem botnvörpuveiðar reka, að laun þeirra eru að meira eða minna leyti miðuð við andvirði aflans og aflamagn. Þessvegna er það næsta undarlegt, að þessir friðarpostular hjer skuli hvað mest berjast gegn slíkri tilhögun, sem viðurkend er hin hagfeldasta hjá öðrum þjóðum. Það sýnir, að þeir líta svo á, að atvinnuvegirnir eigi aðeins að vera til þeirra sjálfra vegna, en ekki vegna þeirra, sem að þeim vinna. Þeir telja sig þannig sjálfsagða til að ráða yfir atvinnuvegunum, til að njóta einir arðsins, ef vel gengur. Þeir telja atvinnureksturinn, atvinnuvegina, sitt einkamál.

Það leiðir af sjálfu sjer, að verði sá siður tekinn upp, að sjómennirnir fái hlut af aflanum, þá verða þeir einnig að fá eitthvað að vita um afkomu útgerðarinnar og stjórn, því að undir því er hlutur þeirra kominn. En þegar um slíkt er talað, er komið að hjartanu í atvinnurekendunum. Þá er komið að „einkamálum“ þeirra. Þeir vita, að fullkomin þekking á rekstri og afkomu útgerðarinnar yrði til þess, að þeim hjeldist ekki uppi til lengdar að gera bjargræðisvegi fólksins að fjárhættuspili fyrir sjálfa sig.