07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í C-deild Alþingistíðinda. (2905)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Pjetur Ottesen:

Það er nú hvorttveggja, að búið er að ræða þetta mál mikið, enda virðast hv. þdm. vera farnir að þreytast, að minsta kosti var svo að sjá er síðasta ræða var haldin, því þá þyntust mjög fylkingar hjer í deildinni. Samt sem áður ætla jeg að fara nokkrum orðum um málið.

Því var haldið fram hjer í deildinni í gær af hv. þm. Ísaf. (HG), að nú væri svo komið, að enginn okkar flm. vildi lengur kannast við frv. Þetta er algerlega rangt. Það er dálítið annað þó flm. lýsi yfir því, að þeir geti gengið inn á breytingar á frv., þær er til bóta mættu horfa og leitt gætu til samkomulags, eða hitt, að þeir vilji ekki kannast við það. Enda er það svo, að það eru tiltölulega fá frv. þau sem nokkru verulegu máli skifta, sem ekki taka einhverjum breytingum í meðferð þingsins. Að minsta kosti hefir hv. þm. Ísaf. ekki tekist það með sín frv. frekar en öðrum ennþá, og ætla jeg þó, að hann vilji kannast við þau jafnt fyrir það.

Þó búið sje að sýna fram á að alt skraf hv. þm. Ísaf. (HG) um 1. gr. frv. sje meinloka ein, þá ætla jeg samt að bæta þar nokkru við. Hann sagði að samkv. 1. gr. ætti dómur þessi: 1. að setja lög, 2. dæma eftir þeim lögum, og 3. að kveða á um sektir. Þetta nær vitanlega ekki nokkurri átt. Dóminum er alls ekki ætlað að búa til lög, heldur á hann að fara með mál og dæma samkv. 1. frá 1925 um sáttasemjara í vinnudeilum, eða lögum er kæmu í þeirra stað eða þeim til viðbótar. Ennfremur á hann að dæma í málum er rísa út af rofum á dómum samkv. þessu frv. og loks á hann að skera úr um lögmæti verkfalla og verkbanna og ákveða bætur fyrir ólögmætt verkfall eða verkbann líka samkv. þessu frv. ef að lögum verður. Við þetta sama er átt í 10. gr. frv. þar sem sagt er, að ekki megi gera verkfall eða verkbann meðan málið er í dómi.

Jeg held að þetta sje mjög auðskilið fyrir þá, er vilja skilja mælt mál eða kunna að lesa venjulegt prentletur. Það er heldur ekki af því, að hv. þm. Ísaf. (HG) skilji þetta ekki, að hann talar svona, heldur er hann að reyna að koma þessum skilningi á frv. inn hjá öðrum, enda þótt hann viti ósköp vel, að hann sje rangur. Sama var uppi á teningnum hjá honum, er hann sagði, að bannað væri samkv. frv. þessu að leggja niður vinnu eftir að búið væri að kveða upp dóm. Þetta er algerlega rangt. (HG: Má þá gera verkfall?) Já, það má leggja niður vinnu eftir að dómur er fallinn, ef til dóms kemur. Það er ekkert í frv. er skuldbindur verkamenn til að vinna eða vinnuveitendur til þess að láta vinna þegar svo er komið. Dómurinn kveður einungis á um það, hvaða kaup hann telur sanngjarnt eftir að hann hefir rannsakað öll atriði þar að lútandi. En hann hefir ekki vald til að kveða á um nein viðurlög, þó ekki sje farið eftir því.

Jeg sný mjer sjerstaklega að þessum hv. þm., því það hefir orðið hlutverk hans að gagnrýna frv. Annars var hann nú heldur farinn að linast í gagnrýningu sinni. Þó virtist svo sem hann vildi halda því fram, að ef þetta frv. yrði samþykt, biði verkamanna ekki annað en sulturinn og seyran.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) tók mjög undir þetta með honum, nema hvað hann tók þó ennþá dýpra í árinni, þar sem hann sagði, að með þessu væru verkamenn sviftir öllu frjálsræði og fyrir þeim lægi ekki annað en að svelta. Og jeg verð að segja það, viðvíkjandi ræðu þessa hv. þm., að hún sýnir vel hversu öfgar og æsingar geta hlaupið í gönur með þá menn, sem þó eru í eðli sínu gætnir og hættir yfirleitt ekki við að hlaupa á sig. Nei, fullyrðingar þær, sem þessir hv. þm. hafa borið fram um þetta ná vitanlega engri átt, því eins og áður hefir verið bent á, er mönnum vitanlega frjálst að leita sjer atvinnu hvar sem þeir helst kjósa.

En færi svo, að aðrar atvinnugreinar og samskonar atvinnurekstur annarsstaðar treystu sjer ekki til þess að greiða hærra kaup en dómurinn hefði talið sanngjarnt, þá væri það einmitt sterkasta sönnun þess, að úrskurður dómsins um kaupgjaldið væri rjettur, og að atvinnufyrirtækin gætu ekki greitt hærra kaupgjald ef fjárhagsafkoma þeirra ætti að vera örugg. Og því verður ekki mótmælt, að besta tryggingin fyrir góðri afkomu þeirra, er stunda, hvort heldur er, sjómensku eða landbúnaðarstörf, er sú, að atvinnufyrirtækin standi á traustum grundvelli fjárhagslega.

Út af þeim ummælum er hv. þm. Ísaf. (HG) hafði í þessu sambandi, vil jeg varpa fram þeirri spurningu, hvað liggi fyrir sjómönnunum þegar hann og hv. 2. þm. Reykv. (HV) skipar þeim að fara á land og gera verkfall?

Þessir sömu hv. þm. töluðu mikið um það, að með þessu frv. ætti að koma verkalýðsfjelögunum á knje, með því að dæma þau í svo háar skaðabætur, að þau gætu ekki risið undir því. En jeg vil benda þeim á, að í þessu frv. er hvergi talað um skaðabætur, nema þær sem felast í 10. gr. og eiga við um það, ef verkfall er gert meðan sáttatilraunir standa yfir eða meðan málið er í dómi. Verkamenn og sjómenn munu yfirleitt ekki, þegar þeir eru sjálfráðir gerða sinna, vera svo sólgnir í að gera verkföll, að þeir færu til þess meðan svona stæði á, ekki einu sinni þó að reynt væri að fá þá til þess. Afleiðingar þessa eru því þær, að ekki getur verið um neinar skaðabætur að ræða eða sektir. Þessi ótti foringja jafnaðarmanna er því algerlega ástæðulaus.

Það hefir mikið verið talað um það hvernig þessi vinnudómur mundi verða í framkvæmdinni og því haldið fram, að hann mundi bæði verða ranglátur og halla á verkamenn. Þetta geta þeir menn einir sagt, sem eru svo algerlega blindaðir af ofsa og æsingu, að þeir geta ekki hugsað sjer, að mönnum sje fært að hrista af sjer pólitískar skoðanir og fara eftir eðlisávísun sinnar eigin samvisku, er þeir eiga að skera úr þeim vandamálum, er fyrir þá eru lögð. Jeg ætla að það væri hv. 2. þm. Reykv. (HV), er fyrstur kvað upp úr með þetta. Það kom greinilega fram í ræðu hjá hv. 2. þm. Reykv., að til væru menn, sem litu svo á meðbræður sína í þjóðfjelaginu, að einskis væri af þeim að vænta, nema ranginda og hlutdrægni. En hvernig stendur á því, að slíkar hugsanir skuli kvikna í brjósti nokkurs manns? Það kemur af því, að jarðvegurinn er slíkur hjá þeim manni er þannig hugsar, að þar getur ekki þrifist annar gróður en þessi. Jeg þykist þess fullviss, að þó að þeir hv. þm. Ísaf. (HG) og hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) hafi tekið mjög vel undir þessa skoðun hv. 2. þm. Reykv. (HV), þá sje það frekar vegna þess að þeir vilji vera honum sammála en vegna þess, að slíkur hugsunarháttur sje rjettur spegill af þeirra eigin innræti. Þó að hv. 2. þm. Reykv. (HV) liti svona á, þá er þetta alveg röng skoðun á manneðlinu yfirleitt. Jeg efast ekki um, að þeir menn, sem yrði fengið það ábyrgðarmikla starf að leita að grundvelli, sem bygður yrði á rjettur og sanngjarn úrskurður um kaupgjald, mundu gera það eftir bestu sannfæringu, enda vita þeir, að það fer alveg eftir árangrinum af vinnu þeirra, hvort þetta fyrirtæki nyti tiltrúar eða ekki.

Það getur verið, að það sje rjett, sem haldið hefir verið fram, að heppilegra væri að skipa þennan gerðardóm á annan hátt en gert er ráð fyrir í frv. Við flm. erum fúsir til að taka höndum saman við þá menn, sem sjá leiðir til þess að tryggja þetta betur en gert er í frv. okkar. Það er sameiginlegt áhugamál okkar, að geta gert dómstólinn svo úr garði, að hann geti unnið sjer traust allra landsmanna. En um þetta þýðir ekki að tala við þá talsmenn sósíalista. Þeir vilja engar umbætur í þessu efni.

Sumir menn tala á þá leið, að sá dómur, sem kveðinn yrði upp um kaupgjald, mundi verða að engu hafður. Þessu hafa allir þrír sósíalistarnir hjer í hv. d. lýst yfir. Jeg verð að segja, að mjer finst blátt áfram ósæmilegt að slá þessu fram, eins og er ósæmilegt að fullyrða, að slíkur dómstóll, sem hjer er um að ræða, mundi sýna ranglæti og hlutdrægni í starfi sínu. Það er ósæmilegt bæði gagnvart þeim mönnum, sem mundu skipa dómstólinn, ef frv. yrði að lögum, og engu síður gagnvart vinnuveitendum og vinnuþiggjendum, sem þá er borið á brýn, að þeir kunni ekki að meta eða viðurkenna sanngjörn málsúrslit.

Það hefir mikið verið talað um það af þessum mönnum, hvað ynnist við það, ef ekki væri hægt að þvinga það fram, að menn hlýddu úrskurði dómsins. Því hefir verið lýst hjer í hv. d. hvernig deilurnar um kaupgjaldið fara á stað, og þeim sem fylgst hafa með verkfallsmálinu síðasta, er það kunnugt, hvernig það hófst. Það verkfall bar þannig að, að byrjað var á að tiltaka þær kröfur, sem flestum kom saman um að væru langt frá allri sanngirni. Afleiðingin varð sú, að kapp komst í málið, og þeir sem að því stóðu, komust í vígamóð, og hugarfar þeirra var ekki slíkt, að líklegt væri til þess að leiða þrætumál til lykta. Svo liðu vikur og mánuðir, og engu varð um þokað. Atvinnulífið á þessu sviði legst í dá og þjóðlífið fær þann svip, sem er eðlileg afleiðing af atvinnutruflun. Loks er málið „leyst“ á þann hátt, að ríkissjóður verður að taka á sig að greiða nokkurn hluta af hækkun kaupgjaldsins. En það er engin frambúðar lausn, heldur bara stundarfriður.

En hvað vinst, ef þetta frv. verður samþykt? Það vinst, að þegar deila er jöfnuð, hvort heldur það er fyrir milligöngu sáttasemjara eða með dómsúrskurði gerðardómsins, er trygður vinnufriður yfir þann tíma, sem sættir til taka, ef sættir takast. Og þetta hefir unnist án þess að nokkur vinnustöðvun hafi orðið. Annars er undir öllum kringumstæðum að minsta kosti trygt, að ekki verði vinnutruflun, meðan málið er í höndum sáttasemjara eða í dómi.

Jeg verð að segja það sem mína bjargföstu trú, að ef farið yrði inn á þessa braut, yrðu málalok þau, að trygður væri vinnufriður í landinu. En ef svo kæmi fyrir, að ákvæðum frv. yrði ekki hlýtt, þá hefir þó löggjafarvaldið gert það sem í þess valdi stóð til þess að draga úr þeim voða, sem af langvarandi vinnustöðvun stafar, að fá deilumálin jöfnuð á friðsamlegan hátt.

Það er engu líkara en að hv. þm. Ísaf. (HG) sje farinn að harma það, að ekki skuli vera hægt að finna ákvæði í frv. um það, að verkföll sjeu undir öllum kringumstæðum bönnuð. Það er vert að athuga, af hverju hv. þm. hefir tekið þessum sinnaskiftum. Jeg er hræddur um, að ástæðan til þess, að svona er komið fyrir hv. þm. sje sú, að með þessu er kipt í burtu þeirri átyllu, sem hv. þm. og samherjar hans þyjast finna fyrir því, að hægt sje að skíra frv. „þrælalög“ eða álíka göfugum nöfnum. Jeg segi þetta ekki af því að jeg viti eigi, að hv. þm. heldur áfram að kalla þetta þrælalög, enda er það ekki nema einn liðurinn í þeirri háttsemi hv. þm., að nefna ýmsa hluti öðrum nöfnum en þeir heita. Það er nú komið svo þeirri gagnrýni á þessu frv., sem hv. þm. hóf hjer í fyrstu ræðu sinni, að allar þær brýr, sem hann hefir verið að byggja og feta sig eftir til þess að varpa tortrygni á málið og flytjendur þess, eru brotnar undan honum. Og af hverju?

Af því að efniviðurinn í þeim var svikinn.

Hv. þm. Ísaf. (HG) sagði í gær, að ef þetta frv. yrði að lögum, þá væru til tvenn mismunandi lög í landinu um eignarrjett manna, ein lög um fasteignir og önnur um yfirráð manna yfir vinnu sinni. Þetta er alveg rangt. Það eru til lög, sem heimila það, að taka fasteignir manna eignarnámi, ef almenningsheill krefst þess, og þær eignir verða menn að láta af hendi skilmálalaust fyrir það verð er þeim er metið fyrir þær.

Hv. 2. þm. Reykv. (HV) þótti á þinginu 1927 held jeg, helst til vel um þá hnúta búið, að menn fengju sannvirði fyrir þessar eignir með því að láta óvilhalla menn meta þær, því að þá flutti hann brtt. þess efnis, að það væru hinir pólitísku flokkar á Alþingi, sem dæmdu um þetta verð.

Það má og benda á það í þessu sambandi, að samkvæmt lögum er starfsmönnum ríkisins bannað að gera verkfall, og ríkið skamtar þeim sitt kaup. Það er því alls ekki um tvennskonar lög að ræða, þó að frv. þetta verði samþykt, heldur er löggjöfin í báðum þeim tilfellum, er jeg nú nefndi, miklu strangari en hún mundi verða samkv. þessu frv.

Hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) ljet sjer það um munn fara hjer á dögunum, að jeg hefði gert það af þægð að tala í þessu máli. Og af hverju dró hv. þm. það? Af því að jeg ætti ekkert í trollara, sem er alveg satt, og af því að í mínu kjördæmi væru sjómenn upp á hlutaskifti. En hvernig er sálarástandi þessa hv. þm. farið? Honum veitti ekki af að reyna að gera sjer það ljóst, og til þess að vekja hann ofurlítið til umhugsunar um sitt eigið ástand í þessu efni, ætla jeg að leggja fyrir hann nokkrar spurningar. Hvernig lítur hv. þm. á langvarandi verkföll eða vinnuteppu? Kemur það engum við nema þeim, sem búa í því kjördæmi, þar sem vinnuteppan er, eða kannske ekki nema vissri stjett manna í því kjördæmi? Lítur hv. þm. svo á, að það komi þjóðfjelaginu í heild sinni ekkert við, þegar stendur eins á og um daginn, þegar þau vinnutæki, sem leggja í þjóðarbúið alt að því helminginn af öllum þeim fiski, sem fluttur er út úr landinu, eru stöðvuð? Eða hvernig lítur þessi hv. þm. á starf þingmanna yfirleitt í löggjafarmálunum? Er þeim alveg óviðkomandi alt, sem ekki beinlínis snertir þeirra eigin kjördæmi, eða kannske bara vissa stjett manna í þeirra kjördæmi? Hvernig heldur hv. þm. að löggjafarstarfið mundi fara, ef slíkt væri hugarfar þingmanna? Jeg vil mælast til, að hv. þm. athugi þessar spurningar í ró og næði, og gæti svo farið fyrir honum, að þeim tíma væri vel varið.

Jeg á þá aðeins eftir að svara hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) nokkrum orðum. Hann talaði mjög alment um þetta mál. Það hefir þegar verið tekið fram af öðrum hv. deildarmanni, að hann virðist ekki sjá neinar vörður á leiðinni til þess að bæta ástandið. En þessir hlutir eru svo alvarlegir, að það er ekki hægt að ganga fram hjá því, að gera tilraunir í þessa átt. Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að það væri undir öllum kringumstæðum ógerlegt að setja upp slíkan dóm, nema það væri vitað fyrirfram, að aðiljar mundu beygja sig undir hann. En það hefði verið hægt að segja alveg þetta sama, þegar lögin um sáttasemjara voru á döfinni.

Hv. þm. talaði um einveldi í atvinnurekstrinum og að því fylgdi jafnan órói. En jeg verð að segja, að ef um slíkt er að ræða hjer, virðist mjer, að einmitt með því að setja á stofn slíkan óvilhallan vinnudóm, sje þá tekinn broddurinn af einveldinu.

Þá sagði hv. þm., að ekki væri unt að finna ráð, sem bætti þetta alt í einu. Það er sjálfsagt alveg rjett. En frá hálfu þeirra manna, sem hafa von um og beinlínis trú á því, að geta bætt ástandið að einhverju leyti, er sjálfsagt að gera tilraun til þess, og það því fremur, þegar þess er gætt, hver urðu endalok síðustu kaupdeilunnar. Á þann sama hátt er ekki hægt að jafna slíkar deilur í framtíðinni. Það má segja um þetta mál eins og einn vitur maður sagði um annað mál, að „allur er varinn góður“.

Út af þeirri ósk, sem jeg bar fram, um að með þeim mönnum, sem vildu vinna þessu máli gagn, gæti tekist bróðurleg samvinna, sagði hv. þm. V.-Ísf., að þá fyrst gæti fengist bróðurleg lausn í þessu máli, þegar skipulagið væri orðið bróðurlegt. En er það ekki einmitt leiðin til þess að gera skipulagið bróðurlegt, að bróðurleg samvinna geti tekist um úrlausn vandamálanna á grundvelli þess skipulags, sem ríkir á hverjum tíma. Og að því stefnir þetta frv.