07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í C-deild Alþingistíðinda. (2910)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Jóhann Jósefsson:

Það er skýrt tekið fram af þeim mönnum, sem mælt hafa með þessu frv., að tilætlunin með því sje alls ekki sú, að banna verkföll með öllu. Þau einu bönd, sem frv. leggur á aðilja, eru, að ekki megi gera verkbann eða verkfall meðan stendur á sáttatilraunum sáttasemjara eða dómsmeðferð vinnudómsins. Þetta vildi jeg undirstrika og vekja sjerstaka athygli á. Af andstæðingum frv. eru engin rök færð fyrir því, að verkamönnum eða alþýðu sje þetta mótstætt. Jeg fyrir mitt leyti tel mjer óhætt að fullyrða, að verkamönnum sje yfirleitt mjög óljúft að vera knúðir út í verkfall. Þeir hafa auðvitað sinn samtakarjett, og er sjálfsagt að vernda hann. Vilja verkamenn sem heild miklu heldur fá kröfum sínum framgengt án verkfalla, og er hjer í þessu frv. fundin leið til þess að svo geti orðið, þegjandi og hljóðalaust, og án þess að nokkur vinnustöðvun eigi sjer stað. Flestir hv. þm., sem hafa látið til sín heyra í þessu máli, hafa verið sammála um það, að verkföll og verkbönn væru eitt þungbærasta böl þjóðfjelagsins, og núna síðast tók hv. þm. Mýr. (BÁ) í sama strenginn. Aftur á móti hafa nokkrir jafnaðarmenn, og þó sjerstaklega hv. 2. þm. Reykv. (HV), viljað halda því fram, að verkföll gætu verið mjög blessunarrík og yfirleitt ágætur hlutur að mörgu leyti.

Löngu áður en þing kom saman var það margra manna mál, að Alþingi hlyti óhjákvæmilega að skifta sjer eitthvað af þeirri vinnudeilu, sem þá stóð yfir. Þessi vinnudeila, togaraverkfallið, var mjög alvarleg, en þó hafa formælendur frv. um of bundið sig við togara og togaraverkföll, og er mönnum hjer alment tamast að miða alt, sem að þessum málum lýtur, við togara. Það verður samt að athuga, að víðar er unnið en á togurum, og verkföllin geta alstaðar skotið upp höfðinu þar sem unnið er. Í mínu kjördæmi t. d. var gerð tilraun í vetur til þess, að stöðva mótorbátaflotann þar. Var auglýst í Alþýðublaðinu, að sjómenn hjeðan skyldu ekki fara í atvinnuleit til Vestmannaeyja, þar eð bátaflotinn þar yrði stöðvaður. Bak við þessa auglýsingu stóðu aðeins örfáir menn, sennilega ekki nema 3 menn úr stjórn Sjómannafjelags Vestmannaeyja, og var þetta alls ekki samþ. af sjómönnunum sjálfum. Afleiðingarnar af þessu, væri því trúað, sem reyndar var nú ekki í þessu tilfelli, gætu orðið miklar og afdrifaríkar. Þessir leiðtogar leyfa sjer sem sje ekki litið. Boðskapur örfárra manna á að stöðva allan flotann í heilli verstöð og stofna aðalatvinnuveg og afkomu íbúanna í stórhættu. Þó að vinnudeila á togurunum sje ef til vill stórfeldust og alvarlegust, er óhjákvæmilegt fyrir Alþingi að gefa gætur að slíku sem þessu, því að þeir menn, sem til forystunnar ryðjast hjá verkalýðnum, eru svo djarfir og ósvífnir í aðgerðum sínum, að þeir svífast einskis til þess að fá mál sitt fram gegn atvinnurekendunum

Hv. þm. Mýr. (BÁ) komst svo að orði, að frv.,

— þessi kynlegi kvistur, eins og hann kallaði það, — væri vel þess vert, að það næði fram að ganga, því að vel gæti verið, að fá mætti eitthvað gagnlegt út úr því. Er þetta vel mælt og ætti það að vera vilji allra hv. þm. að binda enda á þessi vandræði með einhverju skynsamlegu móti. Enginn ágreiningur er um það, að það er ekki hægt með einu einstöku lagaboði, en hér er þó verið að stíga spor í rjetta átt, og má að líkindum búa svo um hnútana, að vel fari. Þeir, sem mest leggja upp úr sáttasemjarastarfinu, geta huggað sig við það, að þó þetta frv. nái fram að ganga, hefir sáttasemjari sama starfi að gegna og áður, og hans aðstaða verður ekkert verri með að binda enda á vinnudeilur.

Af hálfu jafnaðarmanna koma nú fram í margföldum mæli nákvæmlega sömu mótmæli og forustumenn þeirra komu áður fram með gegn gerðardómsfrumvarpi Bjarna heit. frá Vogi, sem var bygt á sama grundvelli og þetta frv. hjer. Er ósköp vel skiljanlegt, að veggir í verbúðum þeirra skjálfi, er ráð eru fundin til þess að afstýra verkföllum. Verkalýðsfjelögunum er haldið saman með verkföllum, og undir þeim er brautargengi forkólfanna komið. Er því eðlilegt, að þetta höfuðvígi sje þeim viðkvæmt og dýrmætt. Þessvegna er ilt að fá þá til þess að gera samninga til lengri tíma en eins árs. Þeir þykjast þurfa að hafa verkfall á hverju ári til þess að geta aukið samtökin og blásið að kolunum. Því minni vinnufriður, því betri aðstaða fyrir jafnaðarmennina að þjappa verkamönnunum inn í verkalýðsfjelögin og hamra svo inn í fólkið: sameinaðir stöndum vjer, sundraðir föllum vjer. Hv. 4. þm. Reykv. (SAÓ) var svo hreinskilinn að viðurkenna, að hann hefði sett kaupkröfu fjelaga sinna tvöfalda við það, sem hann gerði ráð fyrir að ná, því að það væri um að gera að spenna bogann nógu hátt, hann væri altaf viss með að fá helminginn. Er auðskilin aðstaða þessara manna, þegar athuguð er sú hlið, sem snýr að jafnaðarmönnum. Þeir menn, sem hafa valið sjer annað hlutskifti en að vera verkamannaleiðtogar, hljóta að sjá, að Alþingi verður að gera eitthvað verulegt til þess að koma í veg fyrir slíkar öfgar sem þessar í framtíðinni, og með þessu frv. er stigið slíkt spor, og getur það ekki talist nein goðgá, þó reynt sje að tryggja vinnufriðinn í landinu. Er ómögulegt að fleka þjóðina til þess að trúa því, að verið sje að ganga á rjett hinna vinnandi stjetta með því, að afstýra verkföllum. Jafnaðarmenn benda ekki á aðra leið út úr þessu en hnefarjettinn. Að vísu er það viðurkent, að þeir, sem vinna, hafi rjett til þess að gera verkfall. En hvernig er þetta svo í framkvæmdinni? Er það svo, að þeir, sem vilja vinna, fái að gera það í friði, en hinir láti þá hlutlausa? — Nei, það er greinilegt, að frelsið á ekki að ná svo langt í augum hv. jafnaðarmanna. Þeir láta sjer ekki nægja að banna mönnum að vinna, heldur hindra þá í því með ofbeldi og hótunum, jafnvel þótt þeir sjeu ekki í neinum verkamannafjelagsskap.

Eftirtektarvert var það, þegar verkfallið á skipum Eimskipafjelagsins var rætt í norskum blöðum, og Norðmenn athuguðu, hvernig það gæti gefið þeim byr í seglin og hvað orðið þeim til trafala. Þá komust þeir að þeirri niðurstöðu, að hafnarverkfall gæti altaf skollið á í Reykjavík, og allir vissu, að Ísland gæti ekki verndað þá, sem vilja vinna gegn verkfalli og því ofbeldi, sem siglir í kjölfar þess.

Hv. 2. þm. Reykv. (HV) talaði hrærður um sjálfstæðisbaráttuna og sjálfstæðistilfinningar manna. En þá finst mjer sjálfsákvörðunarrjettur manna alvarlega fyrir borð borinn, er þeim er bannað að vinna af leiðtogunum, og þeir sóttir og reknir frá störfum sínum með ofbeldi, ef þessir húsbændur þeirra telja þau ekki sem ákjósanlegust. Þessi aðferð er áreiðanlega ekki ákjósanlegri en dómur borgaranna, sem hv. sami þm. er svo hræddur við. Hann virðist óttast svo mjög menn með borgaralegu hugarfari. En eru ekki verkamenn líka borgarar? Jafnaðarmenn tala um að skipuleggja alla skapaða hluti, og er það eitt af þeirra algengustu slagorðum. Hv. þm. Mýr. (BÁ) sagði, að sjer virtist frv. vera sem næst spor í áttina til þess að skipuleggja vinnudeilur, og taldi hann það gott og blessað. En aðaltilgangur frv. er, eins og marg oft er búið að taka fram, að koma í veg fyrir, að hlaupið sje út í verkföll án þess að sætt sje reynd til fullnustu, og það er þetta, sem er eitur í beinum þeirra manna, sem á móti því standa. Jeg sje, að hv. þm. Mýr. er kominn inn í deildina, og ætla jeg því að minnast á eitt atriði í ræðu hans. Hann talaði um Samvinnufjelag Ísfirðinga og málaleitan þess til þingsins í fyrra. Hann sagði, að Framsóknarflokkurinn hefði sýnt það víðsýni, að aðhyllast þær kröfur, af því að honum hefði verið ljóst, að þar væri fundið hið rjetta skipulag.

Það getur verið. Úr því á reynslan eftir að skera. En jeg man svo langt, að þessi sami hv. þm. sagði í fyrra, þegar hann var að skýra frá ástæðunni til þess að fjvn. vildi styðja þessa málaleitan, að þetta væri hallærisráðstöfun. En nú er það skipulagið, sem á alla samúð hans.

Jeg held ekki, að ástæða sje til að eyða miklum tíma í að tala meira um þetta mál. Þessi lífróður andstæðinganna til þess að koma frv. fyrir kattarnef, fer sennilega að enda, en ástæðan til þess, hve mjög þeir hafa barist á móti frv., er engin önnur en sú, að þeir vilja ekki koma neinu lagi á í þessu efni. Þeir vilja láta deilurnar vera sem magnaðastar. En jeg ber það traust til annara hv. dm., að þeir sjái, að hjer er á ferðinni heiðarleg tilraun til þess að ráða bót á þeirri hættu, sem yfir þjóðinni vofir af vinnutruflun. Jeg vona, að þeir sjái, að ríkissjóður endist skamt, ef á að brúka hann framvegis til að jafna á milli þeirra, sem deila um kaupgjald. Jeg hygg, að um það atriði sje meiri hl. hv. d. sammála, að það verði að hverfa inn á einhverja aðra braut, til þess að ná friðsamlegum sáttum.