07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í C-deild Alþingistíðinda. (2911)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Sigurður Eggerz:

Hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) sagðist eiga erfitt með að skilja það, að frjálslyndur maður gæti verið með þessum ósköpum, sem hjer væru á ferðinni. Mig langar til þess að rifja það upp enn þá einu sinni, hvað felst í frv. Það er í fyrsta lagi það, að meðan verið er að leita um sættir, má ekki gera verkfall eða verkbann, og liggja sektir við, ef út af er brugðið. Og í öðru lagi það, að meðan dómur gengur í málinu, má ekki gera verkfall eða verkbann. Við þessu eru lögð viðurlög en engu öðru. Jeg er sannfærður um, að ef sjómenn væru sjálfir spurðir um, hvort þeim fyndist það ósamboðið frjálslyndum manni að vera með slíku,

mundu þeir svara, að þeim fyndist alveg sjálfsagt, að gerð yrðu ákvæði um þessa hluti. (SÁÓ: Sjómenn hafa látið í ljós álit sitt um þessa hluti.) Það er engin furða, þótt þeir mótmæli, þegar málið er skýrt fyrir þeim á þann hátt, sem forkólfar jafnaðarmanna skýra það. Jeg minni enn á það, að jeg hitti mann á götunni einn morgun, sem sagði við mig: „Nú líst mjer illa á, Sigurður minn.“ „Hvað er það?“ spurði jeg. „Jú, þegar búið er að dæma í vinnudeilum, þá má taka okkur sjómennina, setja okkur í járn og flytja okkur nauðuga viljuga út á skipin.“ Þegar lögin eru skýrð á þennan hátt, þá skil jeg, að þau sjeu kölluð þrælalög. En ef lögin eru skýrð á rjettan hátt, þá trúi jeg því ekki, að íslenskir sjómenn, með óspiltan hugsunarhátt, reyni að sporna við því, að friðsamleg úrlausn fáist á þessum málum.

Nei, það er áreiðanlega í fullu samræmi við skoðanir frjálslyndra manna í þessu landi, að reyna að afstýra öfgum og ofstopa. Í sannleika sagt, er með þessum lögum verið að búa til vernd um rjett einstaklingsins, en það er einmitt eitt höfuðatriði á stefnuskrá frjálslyndra manna. Þegar stríð skellur á, þá er enginn einstaklingsrjettur til. Mönnum er þá skipað undir kúlurnar. Þeir eru reknir áfram eins og skynlausar skepnur. Og þegar verið er að brúka verkfallsvopnið, sem háttvirtir leiðtogar jafnaðarmanna tala um eins og helgidóm, þá er mönnum þröngvað með offorsi út í innanlandsdeilurnar, án þess að hirt sje um þeirra eigin ástæður og skoðanir.

Það er alveg óskiljanlegt, hvernig jafnaðarmenn hjer í hv. d. hafa tekið í þetta mál. Þeir byrja með því að tala um þrælalög og þvingun, og ganga svo langt að gera árásir á forseta í forsetastól og kalla hann svikara og liðhlaupa. Þá rjeðust þeir með sömu kurteisi á hv. þm. V.-Sk. (LH). Þessir menn eru ekki mínir flokksmenn, en mig tekur sárt að heyra þessi brigslyrði í þeirra garð, því að þeir eru gamlir sjálfstæðismenn og hafa aldrei brugðist í þeim málum.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um það, að á bak við þetta mál stæði svo sterkur kraftur að það kæmist áreiðanlega aldrei lifandi út úr þinginu. Hvað meinar hv. þm.? Jeg veit ekki, hver sá sterki kraftur er. Jeg veit ekki betur, en að það sje meiri hl. þm., sem ræður niðurlögum þessa máls. Menn hafa að vísu ekki enn fengið að vita, hvernig hæstv. stjórn lítur á þetta mál. Jeg verð þó að telja það æskilegt, að hæstv. stjórn þóknist að skýra þinginu frá vilja sínum í þessu efni. Jeg er sannfærður um, að svo framarlega sem hæstv. stjórn er sammála flytjendum þessa máls er enginn mannlegur kraftur, sem getur stöðvað það. Hitt er annað mál, að hv. 4. þm. Reykv. er kannske búinn að fá yfirlýsingu hæstv. stjórnar um, að hún ætli ekki að láta málið ganga fram.

Jeg trúi því ekki, að sjómannastjett okkar, sem jeg þekki ekki neina að góðu einu, vilji ekki heldur að öðru jöfnu friðsamlega lausn á sínum vandamálum, heldur en stefna úrslitum þeirra undir verkföll og illdeilur. Jeg trúi því ekki, að ef atkvgr. færi fram um það meðal sjómanna, hvort þeir vildu heldur fá kröfum sínum fullnægt friðsamlega eða ófriðsamlega, að þeir mundu ganga í lið með þeim mönnum, sem einir þykjast vera talsmenn þeirra hjer í hv. d. Jeg endurtek það,

að jeg hefi þá tröllatrú á sjómönnum vorum, að þeir skoði það ekki sem móðgun við sig eða óvilja í sinn garð að ákveða, að ekki skuli verða verkfall eða verkbann, meðan dómur gengur í kaupgjaldsmálum. Jeg trúi því ekki, að sjómenn vorir skoði það móðgun við sig, að ekki má gera verkfall meðan dómur gengur um málið. Og jeg trúi því ekki, að sjómenn vorir skoði það móðgun við sig, þó feldur sje úrskurður af góðum mönnum þjóðarinnar um það, hvaða kaup sje rjett að greiða.

Hv. 2. þm. Reykv. (HV) var að tala um, hve lítil von væri til þess, að dómurinn gæti haft nokkura þýðingu, þegar ekki væri hægt að þvinga það fram, að niðurstöðu hans væri hlýtt. En þess ber að gæta, að til þessa starfs yrðu valdir menn, sem njóta trausts alþjóðar. Þeim eru fengin öll gögn, sem fáanleg eru um málið, og síðan kveða þeir upp þann úrskurð, sem þeir telja rjettmætastan. Ef vel er valið í dóminn, er alveg víst, að þetta hefir mikil áhrif á það, að sættir takist. Það er altaf svo, að þegar þær kröfur, sem framboðnar eru, hafa haft samúð almennings, eiga þær miklu hægra með að ná sigri. En það verður einmitt til þess að verka á almenningsálitið, að fenginn er rökstuddur dómur.

Mjer er það alveg óskiljanlegt, að nokkur sjómaður skuli geta verið því andvígur, að reynt sje að rannsaka það af bestu mönnum þjóðarinnar og færð rök að því, hvaða kaup sje sanngjarnt. Og mjer er alveg óskiljanlegt, hvernig hægt er að kalla slíkt þvingun og „þrælalög“.

Nú skulum við setja svo, að leiðtogar jafnaðarmanna segi: „Þetta felst alls ekki í frv.“ En þá ber þess að gæta, að frv. á að fara til nefndar. Þar á að athuga málið frá öllum hliðum og gera tillögur til bóta. Ef frv. verður að lögum, á það ekki að vera neitt annað en siðferðilegt aðhald um það, að ekki sje að óþörfu lagt út í deilur, sem eru stórhættulegar þjóðinni. Hitt skal jeg játa, að það er engin vissa fyrir því, að dómurinn leiði til endanlegrar niðurstöðu. Það er aldrei hægt að gera slík ákvæði sem þetta að vissu. En hjer er gerð tilraun til þess að afstýra þeim hættum, sem stafa af verkföllum og verkbönnum, og jeg trúi því ekki, að leiðtogar þjóðarinnar treysti sjer til þess að mótmæla því hjer á Alþingi, að tilraun sje gerð til að skapa friðsamlega lausn á hættulegum deilumálum.

Þó að hv. alþm. jafnaðarmanna sjeu svo forhertir að standa á móti þessum lögum, eftir að hafa heyrt þennan skilning á þeim, þá verð jeg að vona, að hinir flokkarnir hjer á þingi láti þá ekki hafa þau áhrif á sig, að slíkum sanngirniskröfum verði bægt frá.