07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í C-deild Alþingistíðinda. (2914)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Bjarni Ásgeirsson:

Vegna orða hv. þm. Vestm. (JJós), þar sem hann hjelt því fram, að höfuðástæða Framsóknarflokksins í fyrra á þinginu fyrir því, að styðja Samvinnufjelag Ísfirðinga til útgerðar, hefði verið sú, að um hallærisráðstöfun væri að ræða, þá vil jeg með leyfi hæstv. fors. leyfa mjer að lesa kafla upp úr ræðu, er jeg hjelt þá. Að vísu mintist jeg þá líka á neyð þá, sem þar stæði fyrir dyrum, ásamt fleiru, er mælti með málinu. Jeg mælti þá meðal annars: „Eftir lýsingu á ástandi kaupstaðarins eru engar líkur til annars, en að hallæri verði þar á næstu árum, ef ekki verða gerðar gagngerðar breytingar á högum þorpsbúa og reynt að koma fótum undir þessa einu atvinnugrein, sem getur orðið þeim til bjargar.“ — — En svo bæti jeg við síðar í ræðunni: „Og það sem er þess valdandi, að jeg fyrir mitt leyti greiði með sjerstakri ánægju atkvæði með þessari ábyrgð er það, að þetta er í fyrsta sinn, að alvarlegar tilraunir eru gerðar til þess að koma nýju skipulagi á sjávarútveginn, á grundvelli samvinnunnar. Og þar sem Framsóknarflokkurinn byggir stjórnmálastarfsemi sína á þeim grundvelli, tel jeg skýlausa og siðferðislega skyldu flokksins að greiða máli þessu atkvæði sitt. Mesta meinið í fyrirkomulagi útgerðarinnar hefir verið það, að hún er bygð á þeim grundvelli, sem veldur því, að atvinnurekendur og atvinnuþiggjendur vaxa hvorir frá öðrum og fjarlægjast til tjóns fyrir báða aðilja. Það er fyllilega tími til kominn að reyna að lagfæra þetta og sameina þessa tvo flokka í eina persónu, sem er hvorttveggja í senn, eigandi og verkamaður.“

Þeim, sem lesa þessi ummæli mín, getur varla blandast hugur um, að hv. þm. Vestm. hefir rangt fyrir sjer, og að fyrir mjer og mínum flokksbræðrum vakti einmitt það, sem jeg hefi nefnt. Með því að lesa fyrir hv. þdm. þennan kafla ræðu minnar um ábyrgðina til Ísfirðinga, þykist jeg hafa veitt hv. þm. (JJós) viðeigandi hirtingu og læt þar við sitja.