07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg hefi ekki langan tíma til umráða og verð því að hlaupa yfir margt, sem jeg hefði gjarnan viljað svara. Mjer þykir leitt, að hv. 1. fhn. frv. (JÓl) er ekki viðstaddur, en ætla þó að kvitta með örfáum orðum fyrir það, sem hann mælti til mín. Hann var að tala um einhvern skipstjóra. En mjer dettur í hug sagan um skipstjórann, sem svaf eða lá í „kojunni“ sinni á meðan hásetarnir voru að draga fiskinn og hagræða seglum og annað sem gera þurfti. Aðrir sáu um verkun og alt það, sem gera þurfti. En sjálfur hlaut hann lof fyrir þeirra dugnað og árvekni, og peninga hlaut hann af þeirra fiskidrætti, án þess að hafa nokkuð aðhafst sjálfur. Mjer finst hv. flm. hafa farið svipað í þessu máli, sem nú er til umræðu. Sjálfur hefir hann reynst ljettvægur til að færa rök fyrir frv., en látið fylgismenn sína hafa fyrir því að mestu leyti. Það er hliðstætt með hann og skipstjórann í „kojunni“, sem hann ef til vill kannast við. Skil jeg svo við þennan hv. þm.

Þá kem jeg að hv. þm. Dal. (SE). Jeg þóttist fara vægilega með hann í síðustu ræðu minni, enda var hann ekki viðstaddur. Jeg sagði þá, að það væri frjálslyndum mönnum ólíkt, að hjálpa til þess að þrýsta kjörum verkamanna. Og jeg held, að þeir flokkar erlendis, sem kalla sig frjálslynda, ljái aldrei lið sitt til þess. En hjer virðist einhver taug tengja þennan hv. þm. við íhaldsflokkinn, eins og oftar.

Hv. þm. (SE) virðist álita, að þessi dómur eigi að vera einhverskonar svefnmeðal, að hann eigi að svæfa almenningsálitið í landinu. Það getur vel verið, að hv. þm. vilji gjarnan losna við almenningsálitið, en jeg tel affarasælast, að því sje haldið vakandi. Enginn vafi er á, að það mundi hv. þm. hollast.

Þá var hv. þm. að vitna í heimsstyrjöldina og bera hana saman við vinnudeilurnar hjer hjá okkur. Sagði hann, að sjer kæmi undarlega fyrir sjónir, að jafnaðarmenn væru á móti ófriði en styddu verkföll. Jeg veit nú ekki betur en að frjálslyndu flokkarnir erlendis hafi verið íhaldsmönnum hjartanlega sammála um að hefja ófrið, þegar svo bar undir. Þá ættu þeir eftir kenningu hv. þm. líka að vera með verkföllum. Hefi jeg svo ekki tíma til að tala meira við þennan hv. þm.

Jeg hefi fáu að svara hv. þm. Vestm. (JJós), enda tók hann eigi til máls fyr en undir lok þessara umræðna og lagði fátt nýtt til mála. Hann var að beina einhverjum fyrirspurnum til mín, en jeg held að þær hafi ekki verið svo veigamiklar, að það taki því fyrir mig að svara þeim. Annars talaði hann ýmislegt um ástandið í sínu kjördæmi, en þar er jeg tæplega nógu kunnugur til að geta rætt við hann um það.

Jeg hjelt, satt að segja, þegar hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) fór að tala, að nú hefði loksins sprungið gat á belginn og allur vindurinn hlaupið út. Svo hógvær var hann í upphafi ræðu sinnar. En þegar á ræðuna leið, kom það í ljós, að einhver „fítonsandi“ var eftir í belgnum, enda kom úr honum þjettingsroka undir það síðasta. Var auðheyrt, að hv. þm. hafði sárnað hirting sú, er jeg veitti honum síðast. Orð mín reyndi hann ekki að hrekja, en hjelt því fram, að jeg hefði verið að deila á sáttasemjara ríkisins. Það gerði jeg nú ekki. Jeg skýrði aðeins frá því, hvaða aðferðum erlendir sáttasemjarar beittu í þessum málum og ljet í ljós von um, að þær yrðu teknar hjer upp með vaxandi reynslu. Þetta var hv. þm. vorkunarlaust að fara rjett með, ef hann hefði viljað. Önnur stóryrði hans læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja.

Að síðustu vil jeg segja það, að hv. 2. þm. G.-K. stendur næst að líta inn í sinn eigin barm, ef hann vill vita, hver mestan kinnroða þarf að bera fyrir framkomu í málefnum þjóðarinnar hjer á Alþingi. Því engan veit jeg skaðlegri, eins og nú standa sakir, öllu því, sem til hins betra má fara íslensku þjóðlífi en einmitt hann.