10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í C-deild Alþingistíðinda. (2928)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Sökum þess, að hæstv. fors.- og atvmrh. er forfallaður um nokkra daga, sökum veikinda, þykir mjer rjett að segja nokkur orð. Eftir því, sem mjer skilst, hafa komið fram 3 till. viðvíkjandi þessu máli. Stendur hver flokkur að einni. Íhaldsmenn vilja koma á og hafa beitt sjer fyrir þvinguðum vinnudómi. Er samkv. því gert ráð fyrir að sækja þá að lögum, er að vinnudeilunum standa og láta sekt fram ganga sem í venjulegum málum. Verkamenn stefna að því með sínum kröfum, að yfirtaka, þegar þeir hafa bolmagn til, alla útgerð og aðra slíka stóriðju, og láta ríkið reka alt slíkt. Að vísu má vera, að ekki sje hægt að segja, að till. sú, er jafnaðarmenn kafa nú borið fram, stefni beint í þessa átt, en þangað er henni stefnt. Þriðji flokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefir og látið til sín heyra í þessu fyrir munn sinna fulltrúa. Við höfum ekki trú á því, að almenn þjóðnýting sje heppileg og við höfum heldur ekki trú á því, að hægt sje að leysa þetta með þvinguðum gerðardómi. Við álítum, að ekki sje önnur leið en friðsamleg lausn þessara mála, með samkomulagi um sáttasemjara og frjálsum gerðardóm.

Nú er orðið svo áliðið þings, að óhugsandi er, að þetta mál verði afgreitt, þar sem aðeins fáir dagar eru eftir. Verða það og fleiri stórmál, sem verða að sæta því. En þar sem engri þjóð hefir ennþá tekist að finna allsherjarmeðal við þessu vandamáli, þá finst mjer ekkert undarlegt, þó að við getum ekki leyst úr því á fyrsta þinginu, sem það er til meðferðar. Mun fullvíst, að við, eftir reynslu annara, þurfum til þess mörg ár. Er og lítil ástæða til þess, að við getum auðveldlegar losnað við þessa tegund af deilum en þeir, sem búið hafa við þær í hálfa aðra öld eða meira, og mátt þola langvinnar vinnutafir þeirra vegna.

Jeg vil, að því leyti, sem jeg tala frá eigin sjónarmiði, benda á það, að þó Alþingi hallist að niðurstöðu þess frv., er hjer liggur fyrir, að rjett sje að setja á stofn dóm, sem á að kveða á um það, hvaða kaupgjald skuli vera og sem báðir aðiljar eiga að hlýða, — þá þykir mjer rjett að taka það fram, að bæði fyrirrennarar mínir, sem hafa verið dómsmálaráðherrar, og jeg, höfum orðið að viðurkenna, — þeir af reynslunni, en jeg í orði, — að hið íslenska þjóðfjelag ræður ekki við það að framfylgja slíkum dómum, ef annarhvor aðili óhlýðnast.

Við getum í þessu sambandi hugsað okkur tvent, t. d. að atvinnurekendur fengju þann dóm á sig, sem væri svo, að þeir teldu sjer ekki fært að halda skipunum úti, og svo hinsvegar, að dómurinn fjelli á verkamenn, en þeim þætti kaupið of lágt og vildu ekki vinna. Ef fara ætti venjulega leið, um þau mál, er þjóðfjelagið ræður við, ætti ríkið að knýja þann, er óhlýðnast, til hlýðni. T. d. að knýja útgerðarmenn til þess að láta skipin ganga, þó þeir teldu að útgerðin gæti ekki borið sig. Ef þeir nú ekki vildu gera það samt sem áður, þá væri ekki annað fyrir hendi en að ríkið tæki skipin. Vitanlega á jeg ekki við það, að skipunum væri rænt, heldur ætti þar að koma hæfilegt endurgjald.

Þessa leið vill Framsóknarflokkurinn ekki fara. Hann vill hvorki ræna skipunum nje heldur kaupa þau. Það er heldur ekki víst, að ríkissjóður hafi altaf það fje fyrir hendi, er til þess þyrfti, og auk þess eru á allri framkvæmd málsins fjölmargir erfiðleikar, sem Framsóknarflokkurinn vill ekki á sig taka. Það er því skiljanlegt, að sá flokkur, er ekki vill fara þessa leið, hann getur ekki óskað eftir því að vera settur í að framkvæma það, sem hann álítur ekki rjett.

Ef nú aftur á móti verkamenn neituðu að hlýða, þá væri ekki önnur leið en sú, að taka þá með valdi og flytja þá út í skipin. En á þessu er sá annmarki, að þetta er gersamlega ómögulegt. Hjer er ekkert slíkt vald til. Nú hefir Framsóknarflokkurinn áður lýst því yfir, að hann sje á móti því, að setja upp ríkislögreglu. Hann er mjer vitanlega á sömu skoðun enn þá, og það er óhugsandi, að hann geti verið með því að fara þá leið, sem hlyti að gera þjóðfjelagið hlægilegt þess vegna, að það gæti ekki framfylgt dómum sínum, eða þá leiddi til þess, að flokkarnir færu sinn í hvora áttina, en það mundi aftur leiða af sjer upplausn þjóðfjelagsins.

Ef við nú aðgætum það, hvernig þessu er háttað hjá þeim mörgu þjóðum, er hafa reynt að fara þessa leið, þá sjáum við, að slíkir dómar hafa komið að litlu gagni. Við skulum t. d. taka Norðmenn, sem okkur eru næstir og skyldastir. Þar hafa allaf öðru hvoru verið starfandi gerðardómar nú í nokkur ár. Hafa stundum báðir aðiljar jöfnum höndum verið á móti honum og þá afnumið hann, en svo hefir honum aftur verið komið upp. Þessi dómur hefir ávalt reynst vita gagnslaus. Hafa óvíða orðið eins harðar vinnudeilur og í Noregi þrátt fyrir þessar tilraunir. T. d. var þar fyrir 4 árum deila milli járnsmiða og verksmiðjueigenda. Hjeldu hinir fyrnefndu út með slíkri seiglu, að þeir ljetu ekki undan fyr en þeir voru orðnir hálf hungurmorða og búið var að selja alla innanstokksmuni, svo sem rúm, stóla, og annað því líkt. Það hefir aldrei tekist að fá neina allsherjarlausn á þessu máli í neinu landi, ekki einu sinni í Englandi, sem þó hefir lengst búið að stóriðjunni. Þegar við Framsóknarflokksmenn litum á hina sögulegu reynslu og vitum, að þetta kemur ekki að neinu gagni, en mun hinsvegar verða til þess eins að vekja úlfúð og deilur, þá getur flokkurinn ekki hallast að þeirri leið, sem leysir ekki vandamálið, heldur skapar nýjan vanda þjóðinni til handa. Jafnvel þótt meiri hluti hv. Alþingis vildi reyna að ráða fram úr þessu máli með þeirri aðferð, sem í frv. felst, þá er það víst, að ekki mun vinnast tími til að ljúka málinu á þessu þingi. Hinsvegar lít jeg svo á, að þótt málið hafi ekki verið rætt nema við þessa umr., hafi þetta þing unnið því mikið gagn með því, að glöggva aðstöðu flokkanna til málsins, þannig að stjórnin á hægara með að undirbúa það fyrir næsta þing. Jeg álít, samkvæmt lausn vinnudeilunnar nú í vetur, að heppilegast muni reynast að hafa sáttasemjara og frjálsa gerðardóma, en hvort slíkt kæmi að fullum notum er ekki hægt að segja fyrirfram, enda mundi reynslan sanna það. Jeg ætla ekki að fara að ráðleggja hv. deild, hvað hún skuli gera í málinu, en mjer þœtti vænt um, þar sem sjáanlegt er, að ekki verður hægt að algreiða málið á þessu þingi, að umrœður væru ekki teygðar mjög mikið. Það er nauðsynlegt að rannsaka þetta mál nákvæmlega, og hvað sem kann að verða gert í náinni framtíð til að tryggja vinnufriðinn í landinu, hlýtur það að byggjast á þeirri rannsókn.