10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í C-deild Alþingistíðinda. (2934)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Magnús Torfason:

Jeg hefi ekki fyr látið það mál, sem hjer liggur fyrir, til mín taka. Við 1. umr. þessa frv. tók jeg ekki til máls og í nefnd þeirri, er fjallaði um málið, varðist jeg allra sagna um það. Jeg get lýst yfir því, að frá minni hálfu voru sjerstakar ástæður til þessa, þær ástæður, að þegar er jeg hafði lesið frv. sá jeg fram á, að frv. á þessum grundvelli mundi ekki ná fram að ganga. Hinsvegar vissi jeg, að allmörgum flokksmönnum mínum og þó einkum hæstv. forsrh. var mjög hugleikið að fá heppilega lausn þeirra vandamála, sem frv. fjallar um. Get jeg hugsað, að enginn hafi haft meiri áhyggjur en hann af því, sem gerðist í vinnudeilunni í vetur, nje haft betri og fastari vilja á því, að hindra slíkar deilur. Vissi jeg til, að hann talaði við ýmsa um málið, og hvatti menn til að gera tillögur um það.

Árangurinn af þessum hvötum hæstv. forsrh. er frv. það, sem jeg hefi þá ánægju að standa að ásamt hv. 3. þm. Rang. — Aðstaða mín og Framsóknarflokksins til þessa máls byggist á því, að reynslan hafði sýnt, að þau lög, sem sett höfðu verið með samhljóða vilja þingsins og vörðuðu þetta efni, höfðu orðið til góðra bóta. Jeg á hjer við sáttasemjaralögin frá 1925, sem jeg hafði þá æru að styðja og fjalla um í nefnd. Þau lög máttu heita samþ. með samhljóða atkv. hjer í deildinni. Árangurinn af þessum lögum hefir orðið góður, enda þótt þau hafi ekki reynst einhlít þegar á hefir reynt. Þegar þessi lög voru samin upphaflega, komu fram till. um að hafa þau talsvert ítarlegri. Þó varð ekki að ráði að ganga lengra í það sinn, þar sem sá fjelagsskapur, sem stendur á báðar hliðar, var ekki kominn í svo fastar skorður, að slíkt þætti gerandi þá. Af þessu má skilja, að við lítum svo á, að rjettast sje að bæta ofan á þann góða grundvöll. En sá grundvöllur er, að sem mest sje gert af frjálsum vilja beggja deiluaðilja í þessum efnum. Þó skal jeg benda á, að það er ekki svo að skilja, að ekki sje nokkur þvingun í frv.; það kemur fram, ef á þarf að halda í nefning oddamanna í gerð. Jeg hefi líka dálítið kynt mjer slík lög í nágrannalöndunum, og þekki engin, þar sem ekki sje gert ráð fyrir að beita einhverri þvingun, ef á reynir. Hinsvegar teldi jeg rjettast að fylgja þeirri stefnu, að þvingunin yrði sem minst. Sú tilraun, sem hjer er flutt í frumvarpsformi af mjer og háttv. 2. þm. Rang., liggur ekki fyrir til umræðu nú, og skal jeg ekki fara út í að tala um það. Jeg ætla mjer ekki heldur út í einstök ákvæði vinnudómsfrv., en mun geyma mjer að tala um málið, þangað til frv. það, sem við flytjum samkvæmt stefnu Framsóknarflokksins í þessu máli, kemur til umræðu hjer í deildinni.

Um leið og jeg lýk máli mínu, skal jeg benda á, að jeg hefi hjer getið þess, hvernig hæstv. forsrh. hefir reynt að draga til sátta í þessu máli. Og ennfremur vil jeg benda á hin vinsamlegu ummæli hæstv. dómsmrh. í ræðu sinni hjer í kveld til stuðnings þessu máli. Og með því að vitanlegt er, að engin tillaga getur gengið fram á þessu þingi í málinu, þá held jeg rjettast að fela stjórninni að undirbúa það til næsta þings. Mjer er nokkuð sama í hvaða formi málinu yrði vísað til stjórnarinnar, en þó væri jeg þakklátur þeim háttv. þdm., sem styddu það, að frv. það, sem við háttv. 2. þm. Rang. flytjum, yrði vísu til stjórnarinnar í þeim tilgangi, að málið yrði undirbúið á þeim grundvelli. Jeg álít líka heppilegast, að þessu frv., sem hjer liggur fyrir, um dóm í vinnudeilum, yrði vísað til stjórnarinnar; og svo framarlega sem enginn af formælendum málsins vill gera það að tillögu sinni og rökstyðja hana, þá ætlast jeg til, að þetta verði skoðað sem tillaga frá mjer, bygð á þeim rökum, sem jeg nú hefi flutt.