10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í C-deild Alþingistíðinda. (2942)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Lárus Helgason:

* Jeg vil aðeins víkja fáum orðum að hv. þm. Ísaf. (HG).

Hann gat þess í sinni ræðu, að aldrei yrði ráðin bót á þessu meini, fyrr en verkafólkið ætti arðinn af framleiðslunni. Jeg skaut því þá fram í, að jafnaðarmenn ættu að gera tilraun í þá átt, og brosti hv. þm. háðulega að þeirri fávisku minni.

Jeg býst við því, að jeg hefði átt að vita, að takmark þeirra er þjóðnýting á öllum sviðum, og að það finnist þeim eina lausnin. Mikil mega þá áhrif þeirra jafnaðarmanna verða, ef þeir eiga að fá allan almenning í landinu til þess að trúa því, að það sje eina lækningin.

Það dettur engum í hug, að jafnaðarmenn verði neitt vægari í kröfum sínum, þótt hið opinbera ætti í hlut. Og jeg býst reyndar við, að hv. þm. Ísaf. (HG) lifi það ekki, að sjá þjóðnýting hjer á landi á öllum sviðum. Hinu ætti hann og aðrir jafnaðarmenn að beita sjer fyrir, að verkamenn ynnu að því að eignast þótt ekki væri nema einn togara, til þess að þeir gætu sjeð sjálfir, hvað arðurinn er mikill.

Fyrir 20 árum voru hjer ekki margir togarar, og það voru engir auðmenn, sem hófu þann atvinnuveg fyrst. En málshátturinn segir, að margar hendur vinni ljett verk.

Jeg er sannfærður um það, að ef jafnaðarmenn þeir, sem nú sitja á þingi, hefðu tekið þessu frv. vel, hefði það borið betri árangur en nú er orðið, því að alltaf er hægra að rífa niður en byggja upp.

Ræðuhandrit óyfirlesið.