10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í C-deild Alþingistíðinda. (2949)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Magnús Torfason:

Þetta síðasta, sem hv. þm. (ÓTh) sagði, getur sjálfsagt til sanns vegar færst, ef menn ætla að þvo sjer úr sinum eigin saur. (ÓTh: Það er gott að ekki er sameinað þing, því þá mundi forseti hafa hringt). Jeg hefi ekki meitt neinn mann þótt jeg mintist á gamalt máltæki. (ÓTh: Nei, það er aðeins þm., sem meiðir sjálfan sig.) En það, sem jeg vildi aðeins benda á er það, sem alveg rjettilega hefir verið tekið fram, að gerðardómur verður, samkvæmt þessu frv., ekki lagaleg skylda, en það er lögð önnur áhersla á hann, það kemur fram siðferðisleg skylda og það kemur fram „pólitísk“ skylda, og jeg er alveg viss um að sú skylda vegur alveg eins mikið og lagaskyldan, af þeirri ástæðu, sem hv. þm. (ÓTh) var að brýna mig með. Það verður ætíð sárt fyrir hvern flokk að ætla sjer þá dul að neita friðsamlegri samvinnu um lausn sekra mála, en stofna til ófriðar. Sá flokkur, sem stofnar til ófriðar, á vissulega von á hirtingu við kosningar fyr eða síðar, en sá flokkurinn, sem kýs sjer friðarleiðina, hann mun vaxa og vel hafast.