02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

48. mál, vegalög

Flm. (Þorleifur Jónsson):

Jeg skal eigi vera langorður um þetta litla frv., sem hjer liggur fyrir, til breytinga á vegalögunum.

Í fyrra lágu fyrir þinginu ýmsar breytingar á vegalögunum, og jeg kom þá fram með till. svipaða því, sem hjer liggur fyrir í frv. En þá varð málið ekki útrætt nje afgreitt frá þinginu, þessvegna flyt jeg það nú aftur á nýjan leik. Á síðasta sýslufundi í Austur- Skaftafellssýslu var skorað á mig að fá þennan veg, frá Höfn í Hornaf. að vegamótum þjóðvegarins til Almannaskarðs, tekinn í tölu þjóðvega. Þar hefir altaf verið ríkjandi óánægja, síðan 1924 að vegalögin voru sett, yfir því, að þessi vegur skyldi þá ekki vera tekinn í tölu þjóðvega, af því að hann er fyllilega sambærilegur öðrum aðalvegum til kaupstaða. Vegarspotti þessi er ekki langur, aðeins 5 kílóm., en hann er langfjölfarnasti vegurinn í sýslunni. Þessi Hafnarvegur var gerður um aldamótin, þá var verslunin flutt til Hornafjarðar fyrir fám árum, en algerðar vegleysur út í verslunarstaðinn. Ákveðið var, að sýslusjóður og ríkissjóður legðu fram fje til lagningar vegarins, sinn helminginn hvor. En eftir rúm 20 ár var vegurinn farinn að síga og troðast svo að hann var næstum ófær með köflum. Fyrir 3 árum var hafin gagngerð endurbygging á veginum á vissum svæðum, og endurbætur á honum öllum. Varð þá einnig að samkomulagi, að sýslan og ríkisstjórn legðu jafnt fram til þeirrar aðgerðar, og hefir nú verið varið til þess rúmum 18 þús. kr. frá þeim aðiljum báðum. Nú er ráðgert að vegurinn verði fullgerður næsta sumar, og búist við að til þess þurfi um 2000 kr.; verður þá kostnaðurinn samtals 20 þús. kr. Sýslan hefir orðið að taka lán til þessarar vegagerðar, bæði í upphafi og til þeirrar endurbyggingar, sem gerð hefir verið á veginum. Og þar eð sýslufjelagið er fáment og efnalítið, þá hefir þetta orðið því mjög þung byrði.

Á síðasta ári bættist við önnur byrði á sýsluna, þar sem hún var skylduð til að kosta flutning á efni til landssímalínunnar sunnanlands, og nemur það rúml. 8000 kr., sem sýslan verður einnig að fá að láni. Nú liggur og fyrir þinginu beiðni frá sýslunni um 4000 kr. lán úr Viðlagasjóði.

Jeg vona, að hv. þingdm. sjái, að frv. mitt er ekki ósanngjarnt, þegar þess er gætt, að þetta er langfjölfarnasti vegur sýslunnar, og sambærilegur við kaupstaðavegi, sem liggja út af þjóðvegum annarstaðar. Ekki þarf heldur að segja, að ríkið hafi lagt neitt stórfje fram til vega í A.-Skaftafellssýslu, og engar brýr hafa þar verið bygðar, enda mun það ekki hægt sökum erfiðleika frá náttúrunnar hendi.

Jeg skal líka geta þess, að A.-Skaftfellingar hafa fleiri sýsluvegi á sinni könnu, en hafa orðið að vanrækja þá, af því að alt vegafje sýslunnar hefir farið í Hafnarveginn. Skal jeg svo eigi þreyta deildina með lengri umr. um þetta mál, en vona að hún taki því vel; og legg jeg til að frv. verði, að lokinni umr., vísað til hv. samgmn.