02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í C-deild Alþingistíðinda. (2957)

48. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Jeg ætla ekki á þessu stigi málsins að boða brtt. frá mjer við vegalögin. Það get jeg síðar, ef mjer sýnist, enda á betur við að tala um einstök atriði við 2. umr. — En vegna þess, að hv. flm. þessa frv. (ÞorlJ) lagði til að vísa því til samgmn., þá vil jeg geta þess, að það geri jeg ekki með glöðu geði, enda þótt jeg búist við, að það verði að neyðast til þess. Á flestum þingum síðan 1924 hafa verið flutt frv. til breytinga á vegalögunum, og ávalt hefir þeim verið vísu til samgmn. En meðferð hennar á þeim frv. hefir orðið slík, að jeg hugsa ekki til þess með neinni sjerstakri gleði, að láta hana enn hafa þau mál til meðferðar. Jeg vil nú láta þá ósk í ljósi til nefndarinnar, að hún viðhafi aðrar starfsaðferðir en tíðkast hefir hjá henni undanfarið.

Það er vitanlegt, að þegar gengið var frá vegalögunum á þinginu 1924, vildi svo slysalega til, að tvö hjeruð urðu fyrir harkalegum misrjetti. Jeg vildi óska að hv. samgmn. gerði sjer þetta ljóst og líti nú á þessi mál með meiri sanngirni og víðsýni en þá var gert. Nefndin verður að athuga og meta hvaða breytingum á að koma í kring og leggja hiklaust með því, sem hún telur rjettmætt.

Jeg geri ráð fyrir að víða á landinu sje ástæða til að taka ýmsa vegi í þjóðvegatölu. En sjálfsagðast er þó að bæta úr því ranglæti, sem framið var 1924, þegar tvö hjeruð væru tekin út úr, á þann hátt, að viðhaldi akvega var ljett af öllum hjeruðum nema þeim. Það rjettasta er að ljetta nú viðhaldskostnaðinum af þessum tveim sýslum líka. Þetta frv. sem hjer liggur fyrir, er bygt á sanngirniskröfu. Að sá vegur, sem þar er um rætt, verði tekinn í þjóðvegatölu, er í fullu samræmi við þann grundvöll, sem vegalögin eru reist á.